Miðvikudagur á Norðurlandamóti
 
									  
																			Embla Lind Ragnarsdótir og Smiður från Slätterne komust í A-úrslit í T1 og V1 unglinga.
Í dag fór fram forkeppni í fjórgangi í öllum flokkum mótsins og gæðingaskeið.
Veðrið leikur enn við mótsgesti á Álandseyjum og það er nokkuð að fjölga á mótssvæðinu frá því í gær á fyrsta degi mótsins.
Aðstaða á svæðinu er svona nokkuð frá því sem keppnisknapar á Íslandi eiga að venjast, og vellirnir þykja dálítið þungir viðureignar, en þó má sjá virkilega góðar sýningar inn á milli.
Að sögn Kristins Skúlasonar formanns landsliðsnefndar sem fer fyrir íslenska hópnum á mótinu eru aðstæður á svæðinu í heild mjög góðar hjá Finnunum og í raun kjörið fyrir slíkt mót. “Kappreiðabrautin heldur vel utan um svæðið, tveir upphitunarvellir og aðalvöllurinn verður mjög skemmtilegur með tímanum, en hins vegar er töluvert vandamál með að halda festu í vellinum á annari skammhliðinni sérstaklega sem ræður illa við álagið. En Finnarnir valta völlinn alltaf eftir 7 hesta í einu til þess að allir hestar njóti jafnræðis, og allt reynt eftir bestu get util þess að láta hlutina ganga upp. Ef vallaraðstæður væru eins og best verður á kosið værum við vissulega að sjá eitthvað hærra skor, en mótshaldarar gera sitt besta og njóta stuðnings allra þátttökuþjóða í því verki. “
“Það er mjög góð stemming hjá öllum keppendum og stúkan svíkur engan. Áfram Ísland!” bætir hann við.
Eins og staðan er nú þegar þessi orð eru skrifuð eru Danir í góðri stöðu í fullorðinsflokkum, með efsta hest í fimmgangi og fjórgangi, og sænska liðið sterkt í yngri flokkum þar sem þegar eru fyrstu Norðurlandameistartitlar í höfn.
Fjórgangurinn var virkilega sterkur og Danir gerðu frábæra hluti í fullorðinsflokknum og eiga þrjá efstu knapa eftir forkeppnina. Dennis Hedebo Johansen er efstur Muna fra Bendstrup með 7,80. Trine Risvang og Hraunar frá Hrosshaga eru í öðru sæti með einkunina 7,67 og Frederikke Stougård í því þriðja ásamt Kristjáni Magnússyni sem keppir fyrir hönd Svíþjóðar með 7,60.
Jakob Svavar Sigurðsson og Hálfmáni frá Steinsholti voru fulltrúar Íslands í fjórgangi, en þeir félagar lentu í utanaðkomandi truflun á greiðu tölti eftir ljómandi byrjun á sinni sýningu og hættu keppni.
Þeir fá að endurtaka sýningu sína að lokinni verðlaunaafhendingu í gæðingaskeiði síðar í dag, og því ekki öll kurl komin til grafar í fjórgangi enn.
Í fjórgangi ungmenna gekk íslenska liðinu vel og þeir Hákon Dan Ólafsson og Matthías Sigurðsson eru jafnir í 2.-3. Sæti eftir forkeppni með 6,63 í einkunn.
Guðmar Hólm Ísólfsson komst einnig í B-úrslit í fjórgangi.
Embla Lind Ragnarsdóttir á Smið från Slätterne er í þriðja sæti í fjórgangi unglinga.
Dagurinn endaði svo á keppni í gæðingaskeiði þar sem Hulda María Sveinbjörnsdóttir á Hetju frá Árbæ enduðu í 4. Sætinu og Hekla Rán Hannesdóttir á Filki frá Oddstöðum I í því 5.
Í gæðingaskeiði fullorðinna keppti Sigurður Matthíasson fyrir okkar hönd og hann gerði góðan seinni sprett eftir hnökra í niðurhægingu í þeim fyrri. Hann endaði því í 7. sæti. En það var Daníel Ingi Smárason sem keppir fyrir hönd Svíþjóðar sem sigraði gæðingaskeiðið með 8,21 í einkunn.
Það má segja að dagurinn hafi þróast vel fyrir íslenska liðið í hringvallagreinum, en þó var leitt fyrir okkar hönd að Jakob og Hálfmáni hafi ekki klárað sína sýningu, en það stendur vonandi til bóta í skrifandi stund.
Við spyrjum að leikslokum
www.lhhestar.is
 
																							 
                 
             
                 
             Minningarorð um Ragnar Tómasson
                            	
                                                Minningarorð um Ragnar Tómasson                     
                 
             
                 
             
                 
             
                 
             
										 
                        
                 Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
                                        	
                                                                     
                                Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin                             
                        
                