„Mig er nú þegar búið að dreyma fyrir næsta gæðingi“

  • 7. mars 2025
  • Fréttir

Miðill og Daníel Jónsson á vorsýningu í Víðidal árið 2024

Miðill frá Hrafnagili nú í eigu Önju

Stóðhesturinn Miðill frá Hrafnagili er nú kominn í eigu Önju Egger-Meier og bætist því við í myndarlegt safn hennar af gæðahrossum. Ræktandi og seljandi hestsins er Jón Elvar Hjörleifsson.

“Miðill verður áfram í frábærum höndum Árna Björns. Þar sem hann er búinn að vera síðan í október og er ekki að fara af landi brott næstu árin, er mér sagt. Ég á mjög erfitt með að segja oft nei en ég hef fengið nokkur tilboð í hann frá síðasta vori og nú var komið að því að segja já. Þá á ég von á nokkrum fjölda afkvæma undan honum næsta vor og reikna með því að nota hann áfram,” segir Jón Elvar um ástæður þess að hann selur hestinn.

Miðill er nú á fimmta vetri og er hann undan Auði frá Lundum II og Gígju frá Búlandi. Auður frá Lundum vakti mikla eftirtekt á Landsmóti árið 2008 þar sem hann var sýndur af Jakobi Svavari Sigurðssyni, hlaut hann þá m.a. 10,0 fyrir hægt stökk og 9,5 fyrir hægt tölt og fegurð í reið. Móðir Miðils, Gígja, er af gæðingaættum í Eyjafirði undan Heklu frá Efri-Rauðalæk og Hrym frá Hofi. Hún hlaut m.a. 9,0 fyrir skeið í kynbótadómi og 1.verðlaun.

Miðill vakti mikla eftirtekt á síðasta ári þegar hann var sýndur í kynbótadómi þar sem hann hlaut 8.45 fyrir sköpulag og á vorsýningu hlaut hann 8.29 fyrir hæfileika og þar af 9,5 fyrir samstarfsvilja og 9,0 fyrir tölt, greitt stökk og fegurð í reið þá sýndur af Daníel Jónssyni.  “Í Miðli mætast tveir stórmeistarar þeir Auður frá Lundum og Hrymur frá Hofi. Ástæða þess að ég hélt undir Auð er sú að undan honum hef ég fengið frábær hross og minning mín um hann á Landsmóti árið 2008 er sú að sjaldan eða aldrei hafi komið fram jafn eftirtektarverður fashestur.”

Jón Elvar hefur ekki áhyggjur af framhaldinu og því að þessi sala marki endalok hans í stóðhestahaldi, því hann hefur nú þegar dreymt fyrir næsta gæðing.

Mig dreymdi nú nýlega fyrir jörpum faxmiklum gæðingi sem ég reikna með að fá næsta sumar undan Miðli og sá verður arftaki hans, ég hef nú þegar ákveðið að hann muni heita Draumur. Það er svo undarlegt með mig að mig dreymir fyrir hinu og þessu og tek oft ákvarðanir mínar byggðar á hindurvitnum og sýnum. Meðan ég geri það áfram mun ég rækta fleiri og betri gæðinga.”

 

Miðill frá Hrafnagili og Flosi Ólafsson á Landsmótinu í Víðidal. Ljósmynd: KollaGr

 

  

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar