Mikilvægt að auka mætingu til dóms

  • 1. desember 2023
  • Fréttir
Eiðfaxi Image
Fullnaðardómum fer fækkandi

Kynbótasýningar er mikilvægur partur af ræktunarstarfinu en kynbótadómar eru mat á því hversu vel hross falla að opinberu ræktunarmarkmiði íslenska hestisns. Mæting hrossa til kynbótadóms er því mjög mikilvæg og það að sem mestur fjöldi hrossa mæti til dóms til að fá sem besta heildarmynd á stofninn í landinu. 

Fullnaðardómum fer fækkandi

Það er auðvelt að fletta upp á fjölda fullnaðardóma síðustu ár í WorldFeng. Í ár fór fjöldi fullnaðardóma* undir 1.000 nánar til tekið voru felldir 871 fullnaðardómar. Ef litið er aftur til ársins 1990 er ekki hægt að finna svo fáa dóma en næst því er fjöldi fullnaðardóma árið 1999 en þá voru þeir 979 talsins.

Fjöldi fullnaðardóma er eðlilega alltaf minni þegar ekki er um landsmótsár að ræða. Ef skoðaður er meðalfjöldi fullnaðardóma frá árinu 1990 og til ársins 2023 er meðalfjöldi þeirra 1.316. Í ár er því 34% fækkun ef við miðum við fjölda fullnaðardóma árið 2023 miðað við meðalfjölda fullnaðardóma og ef við miðum við árin sem ekki er landsmótsár er þetta 25% fækkun á fullnaðardómum 2023.

Margt sem spilar inn í mætingu til dóms

Það getur margt haft áhrif á mætingu til dóms en t.d. hefur fjöldi fæddra hrossa farið töluvert minnkandi. Árið 2017 – 2020 fæddust undir 6.000 folöld á ári hér á landi samanborið við það að árið 2010 var sú tala rúmlega 9.000 fædd folöld. Eftir það tók fjöldi fæddra folalda dýfu niður á við þar til árið 2017 þegar aftur fór að fjölga, hægt og rólega. 

Síðustu ár hafa aðföng í búskapi hækkað töluvert mikið. Hækkun á áburðarverði og þ.a.l. kostnaður á heyi, undirburður í stíur og svo mætti lengi telja hafa orðið til þess að tamningagjöld hafa hækkað þó nokkuð og auk þess hækkaði sýningargjald á kynbótasýningu töluvert á þessu ári og er nú 39.900 krónur á fullnaðardóm. Til viðbótar við sýningargjaldið er algengt að sýningarknapi taki þóknun fyrir sýningu á hrossi og því kostnaður mikill á hvert sýnt hross. Einnig má benda á að töluvert hefur borið á neikvæðu umtali um kynbótasýningar síðustu ár og kannski er það að hafa áhrif líka. 

Telur fækkun hrossa stærstu skýringuna

Aðspurð segir Elsa Albertsdóttir, ræktunarleiðtogi Íslands, að fækkunin í fjölda fullnaðardóma skýrist fyrst og fremst vegna minni árganga. „Við viljum fá sem flest hross í dóm. Það hefur fækkað en miðað við stærð árganga, fæddra hrossa, þá hefur fjöldinn haldist nokkuð jafn síðustu árin. Fækkunina í ár má skýra að þó nokkru leyti að það eru færri hross fædd sem byggja þennan grun af þeim hrossum sem mæta til dóms,“ segir Elsa og bætir við; „það er mikilvægt að fá sem flest hross til dóms enda kynbótadómur hrossa grunnur fyrir kynbótamat. Þar með væri ákjósanlegt að auka mætingu hrossa til dóms á næstu árum.“

 

*ATH: fjöldi fullnaðardóma er ekki sá sami og fjöldi sýndra hrossa en hross geta verið sýnd oftar en einu sinni í fullnaðardóm sama árið.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar