Minningarorð um Gylfa Gunnarsson

  • 26. september 2025
  • Andlát

Gylfi Gunnarsson og Kristall frá Kolkuósi. Ljósmynd: Hesturinn okkar

Jarðsunginn í dag frá Garðakirkju

Gylfi Gunnarsson lést þann 8. september síðastliðinn 67 ára að aldri. Hann var einna þekktastur í hestheimum fyrir sigur í B-flokki gæðinga á Landsmóti árið 1986 á Kristali frá Kolkuósi. Útför hans fer fram í dag frá Garðakirkju í Garðabæ og hefst athöfnin klukkan 13:00.

 

Hér á eftir fara minningar orð er Sigfús Helgason á Akureyri ritaði um Gylfa.

 

Gylfi Gunnarsson
f. 29. júní 1958 – d. 8. september 2025

Minning

Hvar á ég að byrja?
Kannski byrja ég bara þar sem þetta endaði.

Síðasta símtalið sem ég átti við Gylfa vin minn Gunnarsson ómar enn í eyrum mér nú þegar ég sit hér og reyni að setja saman einhver kveðjuorð. Það samtal var aðeins fjórum dögum áður en hann lést. Við töluðum saman nokkrum sinnum í viku og höfum gert það í mörg ár.
Samtalið var skemmtilegt, það var um væntanlega ferð Gylfa norður til mín sem fara átti þann 10. september. Við ætluðum saman út á Akureyrarpoll að dorga á trillunni minni og við ætluðum saman í rolluréttir. Ég veit að Gylfa hlakkaði mikið til þessarar ferðar, hann var glaður að komast loks norður eftir mörg ár, í heimsókn á heimaslóðir norður á Akureyri. En sú ferð varð aldrei farin. Þess í stað lagði minn maður fyrirvaralaust í annað og lengra ferðalag – ferðalag yfir í sólalandið eilífa þar sem menn dorga í alveg hreinum og sléttum sjó og allar þjáningar og þrautir eiga ekki pláss. Ég trúi því í hjartans einlægni minni að svo sé nú hjá mínum kæra vini til rúmlega 50 ára.

Gylfi Gunnarsson var algjört náttúrubarn og ég hef aldrei hitt mann sem var eins tengdur dýrunum sem hann umgekkst – og þar skipti engu hvort það voru hestar, hundar eða kettir. Það var ótrúlegt og um leið aðdáunarvert að sjá hvernig Gylfa tókst að ná sambandi við dýrin. Það sá maður langar leiðir að væntumþykjan til þessara málleysinga var Gylfa eðlislæg. Ég er viss um að svo hefur líka verið um væntumþykju dýranna til Gylfa; þau hændust að honum og já, ég held bara að þau hafi skilið hann og hvað hann var að biðja um.

Gylfi var töframaður þegar kom að tamningum hrossa og ég leyfi mér að segja það hér að þar var hann fremstur allra sem ég get nefnt á landi hér. Að horfa á ótamið hross umbreytast í höndunum á honum þarf ekkert að vitna til – þetta sáu hestamenn hvar sem er. Drengurinn var algjörlega einstakur tamningamaður í fremstu röð og það er ósk mín að nú þegar við horfum á bak Gylfa Gunnarssyni yfir Gjallarbrú megi menn minnast þess sem hann skildi eftir á þeim vettvangi. Hann kenndi mörgum mönnum hestafræði sín, sem voru sannarlega ekki bóklegar, heldur töfraði hann fram samband sem hann kunni upp á tíu.

Gylfi Gunnarsson og hestagullið Kristall frá Kolkuósi eru ógleymanlegir. Segja má að þegar þeir komu saman hafi nýtt viðmið verið sett og frægðarsól þeirra reis hæst á Landsmóti hestamanna á Hellu 1986 þegar þeir sigruðu B-flokk gæðinga. Sá sigur var glæsilegur og gleymist seint. Samt veit ég að það var ekki stærsta stund Gylfa í hestamennskunni. Stærstu stundirnar hans voru einmitt þegar hann var einn með sjálfum sér að temja hross, alveg einn að pæla og ná sambandi við hestinn, stundum með þannig bendingum að enginn sá, þótt á horfðu. Gylfi var einfari í eðli sínu og vildi iðulega vera einn í sinni hestamennsku, utan skarkala hesthúsahverfanna og helst langt úti í sveit þar sem hann var ótruflaður af utanaðkomandi áhrifum.

En Gylfi Gunnarsson var ekki gallalaus. Hann bað mig einu sinni að ef hann færi úr heimi hér á undan mér, ætti ég að skrifa um hann eins og hann var. Já, Gylfi var ekki gallalaus. Í 50 ár höfum við verið vinir, nánir mestan þann tíma, þótt vissulega hafi kastast í kekki milli okkar og sambandið rofnað um stund. En vitandi hvað mér fannst um Gylfa þótti mér alltaf vænt um hann – og ég veit að það sama hugsaði hann til mín.

Það reynir á samband þegar hinn illvígi sjúkdómur, alkóhólismi, er með í för. Þann sjúkdóm bárum við Gylfi báðir. Við brölluðum margt saman undir áhrifum hans; það var oft gaman, en líka var stundum ekki til fyrirmyndar hvernig við hegðuðum okkur fyrrum.

Fyrir Guðs náð og manna hjálp náði ég að losa mig frá greipum sjúkdómsins fyrir allmörgum árum. Ég lagði mig fram um að hjálpa Gylfa að auðnast það líka, og ég veit að hann horfði á mig oft og mörgum sinnum og vildi feta minn veg. En því miður hertu greipar sjúkdómsins tök sín jafnt og þétt eftir því sem árin liðu. Ég veit í hjarta mínu að hann vildi innilega finna ljósið sem lýsti leiðina til betra lífs – en það varð ekki, sjúkdómurinn stjórnaði of lengi og mikið lífi hans og gjörðum.

Nú þegar þessi dómur almættisins hefur verið upp kveðinn yfir kærum vini mínum Gylfa Gunnarssyni segi ég:

Kæri vinur.
Ég mun sakna þess að heyra ekki aftur í þér – stundum hryggum en líka stundum hressum og skemmtilegum, því Gylfi var svo sannarlega í grunninn skemmtilegur, orðheppinn, stundum dálítið lúmskur. Oft gaf hann mönnum og konum ný nöfn, og þar tók hann upp sið föður síns, Gunnars Jakobssonar. Enn lifa margar nafngiftir sem þeir feðgar skutu út í loftið.

Gylfi Gunnarsson eignaðist tvö börn, Söru og Hrein, og nú á þessum sorgardegi vil ég senda þeim, sem og systrum hans, þeim Hildi, Höllu og Hörpu, sem og öllum öðrum ástvinum Gylfa, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Farðu í friði, vinur.
Guð blessi minningu Gylfa Gunnarssonar.

Útför Gylfa Gunnarssonar fer fram í dag, föstudaginn 26. september, frá Garðakirkju í Garðabæ og hefst athöfnin kl. 13.00.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar