Andlát Minningarorð um Ragnar Tómasson

  • 16. október 2025
  • Andlát Aðsend grein
Eftir Sigurbjörn Bárðarson

Raggi Tomm eins og hann var gjarnan kallaður er nú kvaddur með miklum söknuði. Eftir sitja dýrmætar minningar um frábæran vin. Rifjast upp skemmtilegar uppákomur eftir langt og farsælt æviskeið og góðar samverustundir.

Kynni okkar Ragga hófust þegar hann rak fasteignasölu í Austurstræti og hestabakterían kviknaði hjá honum. Tók hann hestasportið með áhlaupi eins og allt annað sem hann tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni.
Fljótt festi hann kaup á jörðinni Vatnsholti á Snæfellsnesi og kominn á fullt að versla sér inn athygliverð hross af stærstu ræktendum landsins.

Ekki er hægt að tala um Ragga nema minnast hennar Dagnýjar. Hún var kletturinn, brosmild og kát og ól honum börnin fjögur. Þau voru stór og samhent fjölskylda. Heimili þeirra var hlýlegt og voru ætíð frábærar móttökur þegar vini bar að garði. Hún hafði ótakmarkað þolinmæði fyrir dellu karlinum sínum.

Snemma festu þau kaup á fallegri eign, Dofra við Gufunes og var það þeirra fjölskyldureitur. Börnin uxu úr grasi og fóru þau öll inn í hestamennskuna. Raggi var kominn á kaf í félagsmál hestamennskunnar og brann hann fyrir æskulýðsstarfinu. Vann hann þar ómetanlega hluti fyrir hestamennskuna.

Raggi eignaðist hesthús við hliðina á okkur í C tröð í Víðidal.
Ég fylgdist náið með þessum nýja spretthlaupara sem tók allt með trompi.
Er mér sérstaklega minnistætt eitt atvik þegar hann var að hefja sína hestamennsku. Einn góðviðrisdag kom Raggi akandi upp í Víðidal á Blazernum sínum, fylgdumst við strákarnir með kappanum þar sem við vissum að hann var búinn að eignast hest sem var göróttur kynjakvistur. Gægðumst við fyrir hornið þegar hann steig á bak þeim brúna, hann komst 40m niður götuna áður en klárinn henti honum.
Hann komst vel frá byltunni, náði klárnum og leit í kringum sig, hvort einhverjir hefðu nokkuð séð atvikið. Gekk hröðum skrefum að hesthúsinu, batt klárinn, opnaði bílinn, náði sér í bók og hóf lestur. Fór hann svo aftur á bak en breytti aðeins aðferðinni, komst niður tröðina inn á reiðgötuna og af stað. Þetta var týpískur Ragnar hann las sig til.
Allt sem hann tók sér fyrir hendur var gert af stórhug. Urðu kappreiðar og ræktun honum hugleiknar. Byrjaði það með þátttöku í stökkkappreiðum sem voru vinsælar á þessum tíma og náði þar umtalsverðum árangri með hestana Lóm og Þrótt og síðan afburðargæðingana Börk og Fjölnir frá Kvíabekk.

Við sátum margar kvöldstundir uppi í Dofra og spjölluðum um hestatengd mál .Á skrifstofunni hans var hann með orginal rauða kælikistu merkta Coca Cola í henni var uppáhaldsdrykkurinn kók í gleri. Við hliðina á kistunni var kassi með lakkrísrörum og Prins Póló sem fullkomnaði sköpunarverkið.
Sátum við oft langt fram eftir í spjalli og fór þetta vel í okkur vinina, var þetta það sterkasta sem við drukkum alla tíð. Um miðnætti kom Dagný með sitt ljúfa viðmót og bauð góða nótt.

Þegar fasteignahlutanum lauk tóku við önnur verkefni. Hann var lögfræðingur að mennt, gæddur einstökum hæfileikum að finna lausnir og koma saman samningum um samruna stórfyrirtækja. Þarna var hann á heimavelli.
Raggi var með eindæmum vel ritfær og skrifaði hnitmiðaða texta sem var unun að lesa. Má gjarnan vitna í pistla sem hann skrifaði hjá Eiðfaxa sem telja yfir 100.

Hann var örlagavaldur hjá fjölskyldu okkar þegar hann fékk inn á fasteignasöluna hjá sér eign sem við hjónin keyptum og bjuggum þar í 40 ár. Þetta var tímamótaeign, sumarbústaður á Vatnsenda með pláss fyrir 15 hross í beit. Tengdamóður minni leist ekki vel á þetta að flytja með fjölskylduna langt upp í sveit og það í sumarbústað.

Hann lagði sig allan fram við styðja við börnin sín á hestabrautinni, jafnframt var hann virkur sem keppnismaður.
Uppskar sonurinn Tommi Ragg sem var gæddur náttúru reiðmanns hæfileikum tvöfaldan sigur á Evrópumóti í fullorðinsflokki aðeins 17 ára gamall.

Fjölskyldan var vinamörg og það var alltaf opið hús í Dofra og þar var ætíð glatt á hjalla. Hjónin voru boðin og búin að keyra krakkana og vini þeirra því það voru engar strætóferðir í boði.

Hann var ólíkindatól með hvað honum gat dottið í hug og alltaf stóð Dagný honum við hlið, alveg ótrúlega þolinmóð sama á hverju gekk.
Eitt skemmtilegt atvik sem lýsir uppátækjunum. Hann var í Vatnsholti og hafði þá eignast hest sem ekki var á hvers manns færi og vildi losa sig við knapann. Hafði hann heyrt gott ráð til að uppræta hrekkina, að fara með hestinn út á fúamýri þar sem jörð gæfi eftir ef hann spyrnti fast í, myndi klárinn þá sökkva og snarhætta öllum pratahætti
Einn góðan blíðviðrisdag eftir hádegi labbaði Raggi með þann brúna út á mýrina, dúaði hún öll undan þeim og var klárinn tregur í taumi en allt gekk það eftir og hann skreið varlega á bak. Þegar liðnar voru um 2 klst og enn sitjandi á þeim brúna í fúamýrinni sá Dagný sig tilneydda að fara með kók og prins til hans því hún hugsaði alltaf vel um Ragga sinn.
Tók það hana töluverðan tíma að komast að honum, gladdist hann við aðföngin, spurði þá Dagný hann hálf sposk og hlæjandi hvort hann kæmi ekki örugglega í kvöldmatinn. Svaraði Ragnar um hæl að þegar hann kæmist af stað.
Það er skemmst frá því að segja að Raggi mætti seint í köldmatinn og klárinn lagði dynti sína niður.

Annað skemmtilegt atvik, við nokkrir félagar í Fáki vorum búnir að stunda um tíma að fara í líkamsrækt í kjallaranum í Kjörgarði á Laugaveginum. Sem var eflaust ein af fyrstu líkamsræktarstöðvum landsins. Var ákveðið að fá Ragga að koma í einn tíma þar sem við töldum hann ekki neinn kraftakarl og var okkur smá hrekkur í huga. Hann brást jákvæður við eins og alltaf.
Við vorum búnir að keppast um hver gæti náð mestri þyngd í fótapressu, einn úr hópnum vantaði ekki nema 2 þyngdarklossa uppá til að lyfta öllum staflanum. Þótti þetta eitt mesta afrekið og var það húsmet.
Við fengum Ragga til að setjast í stellingar við tækið, stóðum álengdar ef eitthvað brygði út af, settum alla þyngdarklossana á vogarstöngina.
Spyr nú Raggi „á ég svo að taka þyngdina niður og ýta svo upp ?“
Já var svarið og með það sama tók hann þyngdina með fótafli niður og lyfti hann allri þyngdinni án þess að fipast. „Hversu oft á ég að lyfta?“
Skemmst frá því að segja vorum við félagarnir kjaftstopp og fékk hann ómælda virðingu okkar.

Raggi var meðalstór maður, jafnvaxinn, eðlissterkur, greindur, sannfærandi, ákveðinn, bóngóður og alltaf tilbúinn að leggja góðum málefnum lið.
Við hestamenn eigum honum miklar þakkir skildar.
Hann var frábær vinur og minningin um hann færir manni hlýju í hjartað og bros á vör. Slíkar manngerðir eru vandfundnar.

Nú er jarðvist vinar míns lokið og hann kominn til Dagnýjar og Tomma í Sumarlandið með öllum gæðingunum sínum.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til allrar fjölskyldunnar.

Diddi og Fríða

 

 

Beint streymi frá útför Ragnars verður hér á Eiðfaxa í dag kl 13:00

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar