Mörg frábær hross sýnd á Hellu í vikunni

  • 24. júlí 2020
  • Fréttir

Kári Steinsson þjálfari og eigandi Lífar og Árni Björn Pálsson sýnandi

Nú rétt í þessu lauk yfirlitssýningu á Hellu þar sem sýnd voru alls 110 hross í fullnaðardómi. Hæst dæmda hross sýningarinnar er Líf frá Lerkiholti sem er sex vetra gömul undan Stála frá Kjarri og landsmótssigurvegaranum Maríu frá Feti. Sýnandi hennar var Árni Björn Pálsson en þjálfari er Kári Steinsson sem jafnframt er eigandi og ræktandi hryssunnar ásamt Lerkiholti ehf. Líf hlaut fyrir sköpulag 8,10 og fyrir hæfileika 8,88 þar af 9,5 fyrir skeið og 9,0 fyrir tölt, samstarfsvilja og fet, í aðaleinkunn hlaut hún 8,61.

Hæst dæmdi stóðhestur sýningarinnar er Glampi frá Ketilsstöðum en hann er níu vetra gamall undan Álffinni frá Syðri-Gegnishólum og Ör frá Ketilsstöðum. Ræktandi og eigandi er Bergur Jónsson en sýnandi var Olil Amble. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,39, fyrir hæfileika 8,45 og þar af 9,5 brokk og samstarfsvilja í aðaleinkunn 8,43 og fyrir hæfileika án skeiðs 9,08

Þá hlutu nokkur hross einkunnina 9,5 fyrir einstaka þætti í hæfileikum en þau eru.

Kastaníu frá Kvistum sem hlaut m.a. 9,5 fyrir tölt og hægt tölt. Þá hlutu Selma frá Auðsholtshjáleigu, Hvellhetta frá Stangarlæk sem einnig hlaut 9,5 fyrir samstarfsvilja, Saga frá Blönduósi og Viðja frá Geirlandi 1 9,5 fyrir tölt, allt frábærar hryssur. Blakkur frá Þykkvabæ hlaut einnig 9,5 fyrir bæði tölt, brokk og hægt tölt. Þá hlaut Snæfinnur frá Hammi 9,5 fyrir samstarfsvilja. Næla frá Lækjarbrekku, Písl frá Höfðabrekku og Ernir frá Efri-Hrepp hlutu einkunnina 9,5 fyrir skeið.

Á mánudaginn hefst svo þriðja vikan í röð miðsumarssýninga á Hellu.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar