„Mörg spennandi verkefni í pípunum“
Að Staðarhofi í Skagafirði starfa nú Ísólfur Líndal Þórisson, Spire Ohlsson, sambýliskona hans og sonur Ísólfs, Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal. Eiðfaxi hafði samband við Ísólf til að fræðast meira um starfið hjá þeim og framtíðina.
„Við höfum verið í á annað ár á Björgum í Hörgárdal. Það fór afskaplega vel um okkur þar en við vildum fara að kaupa okkur hús og koma okkur fyrir á varanlegum stað. Við leituðum töluvert hér og þar um landið og fundum hús hér í Skagafirði. Síðan frétti ég að losnað hefði um aðstöðuna á Staðarhofi, ég bara tók upp símann og hér erum við í dag.“
Á Staðarhofi er fyrirmyndaraðstaða, 32 stíur og reiðhöll. Það er mikið af grashólfum í kringum húsið til að viðra hross og reiðleiðir þar eru góðar. Aðstaðan var vígð árið 2022 en eigandi Staðarhofs er Sigurjón Rúnar Rafsson. Staðarhof er í fyrrum Staðarhreppi og er úr landi Hafsteinsstaða. „Við erum hér með tamningar og þjálfun bæði með okkar hross en mest er um hross frá öðrum. Við erum mjög einbeitt á það að sýna hross í kynbótadómi. Ég er svo búinn að vera að kenna á Hólum í haust en eftir áramót verð ég að kenna bæði hér á Staðarhofi og eitthvað að ferðast um líka. Ég er sérstaklega opinn fyrir því að kenna hér heima á Íslandi, en einnig eru önnur spennandi verkefni í pípunum sem er of snemmt að nefna.“
Guðmar hefur, þrátt fyrir ungan aldur, verið mjög sýnilegur og sigursæll sem knapi undanfarinn ár og er U-21 landsliðshópi Íslands fyrir komandi tímabil. Hann varð til að mynda Norðurlandameistari í B-flokki ungmenna í sumar og Íslandsmeistari í gæðingaskeiði. „Við erum mjög heppin með hross að ég tel. Erum með nokkur reynd keppnishross sem hafa verið að ná góðum árangri. Má þar nefna Gretti frá Hólum sem Guðmar stefnir með á HM ásamt Alviðru frá Kagaðarhóli sem einnig er inni í myndinni fyrir HM. Þá eru þeir Sindri frá Lækjamóti og Jökull frá Rauðalæk á húsi. Af efnilegum keppnishrossum má nefna Óskastund frá Lækjamóti sem mun stíga sín fyrstu skref í keppni á árinu. Orrustuþotu frá Lækjamóti sem byrjaði að keppa í gæðingaskeiði á árinu og gerði það með glæsibrag. Af kynbótahrossum og óreyndum keppnishestum erum við mjög spennt fyrir mörgum. Í keppni Særúnu frá Steinnesi, Gammsdóttir, algjör ballerína. Vörður frá Fet, undan Stála frá Kjarri, mjög efnilegur fimmgangshestur. Kynbótahrossin eru nokkur og ef við tölum bara um þau sem við eigum þá eru það trúlega systkinin Púls og Ró frá Lækjamóti, bæði undan Nútíð frá Leysingjastöðum. Púls er á fimmta vetri undan Útherja frá Blesastöðum og Ró á fjórða vetri undan Eldjárni frá Skipaskaga. Það er stefnan að þessi hross komi fram á þeim vettvangi sem þeim hventar hverju sinni.