Náttfari hlaut háan dóm í Herning

Náttfari fra Gunvarbyn Ljósmynd: facebooksíða DI - avl og kåringer
Kynbótasýning fór fram um helgina í Herning í Danmörku þar sem 32 hross komu til dóms og þar af 18 í fullnaðardómi. Dómarar voru þeir Friðrik Már Sigurðsson og William Flügge.
Náttfari frá Gunvarbyn er hæst dæmda hross sýningarinnar. Hann hlaut 8,97 fyrir sköpulag og er það hæsti sköpulagsdómur sem stóðhestur fæddur utan Íslands hefur hlotið. Þá hlaut hann 8,68 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,79. Ræktandi hans er Þorleifur Sigfússon en eigandi hans er sýnandi hans Agnar Snorri Stefánsson. Náttfari er 10 vetra gamall undan þeim Grím frá Efsta-Seli og Nótt frá Ørsko, Grímur er undan Þyt frá Neðra-Seli og Söru frá Horni en Nótt er undan Nökkva og Dimmu báðum frá Vestra-Geldingaholti.
Þá hlaut Már frá Rauðalæk háan dóm, 8,35 í aðaleinkunn en hann er fimm vetra gamall stóðhestur undan Ómi frá Kvistum og Mær frá Þúfu í Landeyjum. Ræktandi og eigandi er Stutteri Bjarup ehf en sýnandi var Agnar Snorri Stefánsson.
Þá hlaut einnig Hafberg frá Hestkletti 1.verðlaun í aðaleinkunn 8,04. Hafberg er úr ræktun þeirra Þórarins Eymundssonar og Sigríðar Gunnarsdóttir undan Þránni frá Flagbjarnarholti og Hafdísi frá Skeiðvöllum. Sýnandi hans var Hlynur Pálsson.