Landsmót 2024 Níu stóðhestar gætu mætt með afkvæmahóp til 1.verðlauna

  • 21. júní 2024
  • Fréttir

Þráinn stendur efstur í núverandi kynbótamati þeirra stóðhesta sem náð hafa afkvæmafjölda til 1.verðlauna

Nýtt kynbótamat verður birt í næstu viku

Lokapunktur kynbótasýninga vorsins fer fram í dag með yfirliti á þremur stöðum á landinu þ.e. á Rangárbökkum við Hellu, Brávöllum á Selfossi og Hólum í Hjaltadal.

Mikil spenna er fyrir hvert Landsmót hvaða stóðhestar hljóta þar afkvæmaverðlaun, útlit er fyrir það að átta stóðhestar mæti með afkvæmahópa á Landsmót og hljóti 1.verðlaun fyrir afkvæmi.

Til að stóðhestur hljóti fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi verður hann að uppfylla tvö skilyrði; 118 stig í kynbótamati og að lágmarki 15 dæmd afkvæmi. Í framhaldi af því að hross hljóta nú tvær aðaleinkunnir, með og án skeiðs, eru stóðhestum sem hljóta 118 stig eða meira í aðaleinkunn kynbótamats án skeiðs nú líka veitt afkvæmaverðlaun. Áfram verður þó miðað við aðaleinkunn kynbótamatsins þegar hestum er raðað í verðlaunasæti á stórmótum.

Þrír af þessum stóðhestum hafa áður hlotið 1.verðlaun fyrir afkvæmi og eru ennþá með 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins eða aðaleinkunn kynbótamats án skeiðs. Þetta eru þeir Þráinn frá Flagbjarnarholti, sem náði lágmörkum til 1.verðlauna haustið 2023, Ljósvaki frá Valstrýtu, sem náði þeim áfanga haustið 2022 og Hreyfill frá Vorsabæ sem náði lágmörkum til 1.verðlaun árið 2021.

Þeim til viðbótar hafa þeir Adrían frá Garðshorni á Þelamörk, Ísak frá Þjórsárbakka, Glúmur frá Dallandi, Dagfari frá Álfhólum, Snillingur frá Íbishóli og Lexus frá Vatnsleysu bæst í hópinn.

Nýtt kynbótamat verður reiknað og birt í næstu viku og þá liggur endanleg röðun þessara stóðhesta fyrir og hver þeirra hljóti Orrabikarinn, sem veittur var fyrst á Landssýningu kynbótahrossa árið 2020.

Stóðhestar sem uppfylla skilyrði um 1.verðlaun má sjá í töflu hér fyrir neðan raðað samkvæmt núverandi kynbótamati.

Nafn Fjöldi afkvæma Núverandi kynbótamat
Þráinn frá Flagbjarnarholti 33 133
Adrían frá Garðshorni 20 132
Ísak frá Þjórsárbakka 15 129
Glúmur frá Dallandi 15 124
Dagfari frá Álfhólum 17 121
Snillingur frá Íbishóli 15 121
Lexus frá Vatnsleysu 15 119
Hreyfill frá Vorsabæ 40 118
Ljósvaki frá Valstrýtu 23 116*

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar