Ný þekking í þágu íslenska hestsins
Hluti af íslensku hrossunum sem notuð voru í rannsókninni við Cornell háskóla í Bandaríkjunum Ljósmynd: Wagner Labratory
Tímasetning fyrstu kynna íslenskra hesta af smámýsbiti ræður úrslitum um hvort þeir þrói með sér sumarexem síðar á ævinni. Þetta kemur fram í nýbirtri grein sem m.a. var unnin af íslensku vísindamönnunum, Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur, Vilhjálmi Svanssyni og Sigríði Björnsdóttur í samstarfi tilraunastöðvarinnar að Keldum, Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og Mast.
Sagt var frá upphafi verkefnisins í tölublaði Eiðfaxa árið 2014 í kjölfar fyrirlestrar Dr. Bettinu Wagner, sem stýrt hefur rannsókninni í Bandaríkjunum. Í þeirri grein sagði Bettina m.a.
„Við vonumst til að sjá hvernig umhverfis- og erfðaþættir hafa áhrif á exemið. Það er að segja hvort ónæmisþættir frá móður hafa mikil eða lítil áhrif, eða hvort það hafi áhrif hvenær á þroskaskeiðinu þau eru bitin af flugunni. Slíkar niðurstöðu myndu reynast afar gagnlegar því þá gætum við nálgast forvarnir á hnitmiðaðri hátt.“ Í þessari nýbirtu grein virðist þessum vangaveltum Bettinu hafa verið svarað og birti Sigríður Björnsdóttir samantekt úr rannsókninni á facebook síðu sinni, sem með leyfi hennar, birtist hér að neðan. Greinina í fullri lengd má nálgast með því að smella hér.
Sumarexem er ofnæmissjúkdómur þar sem ofnæmisvaldurinn er smámý (Culicoides) sem lifir í flestum þeim löndum þar sem íslenska hestinn er að finna, nema á Íslandi. Þrátt fyrir að ýmsar tegundir smámýs hafi nú numið land hér á landi, lítur ekki út fyrir að þær sem bíta hross séu þar á meðal, a.m.k. ekki enn sem komið er.
Lengi hefur verið vitað að hin mikla hætta á sumarexemi sem mætir útfluttum íslenskum hrossum erfist ekki, en í grófum dráttum má segja að tíðni sjúkdómsins lækki úr um 50% hjá útfluttum hrossum (sem ekki eru varin sérstaklega) í um 5% strax hjá fyrstu kynslóðinni sem fæðist erlendis. Það er svo sannarlega ljós í myrkrinu. Hins vegar hefur ekki legið fyrir hver ástæða þess er.
Í þessari rannsókn var leitast við að greina annars vegar áhrif aldurs við fyrstu kynni af ofnæmisvakanum og hins vegar áhrif mótefna gegn honum í broddmjólk á tíðni sjúkdómsins. Ræktaðir voru þrír alsystkinahópar undan 14 hryssum og einum og sama stóðhestinum.
Fyrsti folaldahópurinn (C1) fæddist á Íslandi en var fluttur til Cornell í Bandaríkjunum við tveggja vetra aldur (við kynþroska). Hryssunum var haldið aftur undir sama hest og þær fluttar út fylfullar (ásamt stóðhestinum), þar sem þær köstuðu áður en þær höfðu verið bitnar (C2). Þá var þeim haldið í þriðja sinn undir sama hest og fæddist þriðji hópurinn í Cornell eftir að hryssurnar höfðu verið bitnar og myndað mótefni sem var að finna í broddmjólk þeirra (C3).
Skemmst er frá að segja að stóðhesturinn og átta hryssur (60%) sýndu greinileg merki sumarexems á öðru sumri í Cornell, þar sem einkennin versnuðu ár frá ári og voru alvarleg. Eftir sex ár bættist ein hryssa í hópinn þannig að heildartíðni sjúkdómsins varð 66% hjá þeim hrossum sem voru flutt út fullorðin.
- C1 – hópurinn (N=14) var bitinn fyrst við tveggja vetra aldurinn. Eitt trippi sýndi mild einkenni sumarexems á öðru sumri eftir útflutning (7%), en tvö bættust í þann hóp eftir sex og sjö ár (21%), einnig með mild einkenni (öll undan hryssum með sumarexem).
- C2 – hópurinn (N=14): Ekkert hross greindist með sumarexem í þau níu ár sem hópnum var fylgt eftir.
- C3 – hópurinn sem fékk mótefni með broddmjólk (N=14): Ekkert hross greindist með sumarexem í þau níu ár sem hópnum var fylgt eftir.
Út frá þessum niðurstöðum var dregin sú ályktun að aldur við fyrstu kynni af ofnæmisvakanum væri afgerandi fyrir hættuna á að hross þrói með sér sumarexem og gnæfði yfir hina erfðafræðilegu áhættu. Þá var kenningin um að mótefni í broddmjólk hefði áhrif felld. Hjá ungviði leitast ónæmiskerfi allra spendýra við að mynda þol fyrir umhverfisþáttum (ofnæmisvöldum) fremur en ofnæmi, enda er ónæmiskerfið að þroskast og laga sig að umhverfinu. Þessi ónæmisfræðilegi gluggi getur varað fram að (og yfir) kynþroska.
Í þessari rannsókn kom greinilega fram að tveggja vetra trippin voru í mun minni hættu á að fá sjúkdóminn en fullorðnir foreldrar þeirra; einkennin komu seinna fram og voru mildari. Hóparnir sem kynntust biti smámýs frá fæðingu sluppu hins vegar alveg.
Með þessu er staðfest að öflugasta fyrirbyggjandi aðgerðin gegn ofnæmi er að ungviði kynnist þekktum ofnæmisvöldum sem allra fyrst á lífsleiðinni.
Þekkingin mun þó einnig koma að gagni við þróun á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn því að fullorðin hross fái sumarexem eftir útflutning. Í því sambandi má nefna að Tilraunastöðin á Keldum er nú þegar í miðju kafi við að framkvæma bólusetningartilraun á folöldum sem flutt verða úr landi fjögurra vetra gömul, þar sem reynir á hvort slík ónæmismeðferð dugi til að verja þau gegn sumarexemi.
Minningarorð um Ragnar Tómasson
Tilnefningar til keppnishestabús ársins
Sörli heldur Íslandsmót 17. til 21. júní