Landsamband hestamanna Ný útgáfa af lögum, reglugerðum og reglum LH

  • 31. mars 2023
  • Fréttir

Uppfærð útgáfa af lögum, reglum og reglugerðum LH hefur verið birt á vef LH. Í þessari nýju útgáfu hefur regluverkið fengið allmikla upplyftingu með breyttri og einfaldari framsetningu.

Regluverk LH um íþróttakeppni hefur verið samræmt regluverki FEIF, þ.e. reglurnar settar upp eins og FEIF gerir, lagfæringar gerðar á orðalagi og greinar þýddar sem áður voru óþýddar en efnislega er ekki um aðrar breytingar að ræða en gerðar voru á Landsþingi 2022 og FEIF-þingi 2023.

Segja má að með nýrri uppsetningu hafi regluverkinu verið skipt í þrjá hluta.

Í fyrsta lagi eru Lög LH sem einungis er hægt að breyta á landsþingum.

Í öðru lagi eru það reglugerðir um landsmót, Íslandsmót og mótahald á Íslandi. Undir reglugerð um mótahald á Íslandi eru reglur um flokkaskipti, aldursflokka, félagaskipti, reglur um innanhússmót, reglur um kærur og úrskurðarmál og reglur um dómara.

Í þriðja lagi eru það reglur um einstakar keppnisgreinar. Þar eru fyrst almennar reglur um keppni, sem gilda um alla keppni á íslenskum hestum, og reglur um íþróttakeppni. Þær fylgja regluverki FEIF og breytingar á þeim eru einungis gerðar innan FEIF. Almennar reglur um keppni hafa m.a. að geyma siðareglur, reglur um leyfilegan búnað í keppni, reglur um löglega keppnisvelli o.fl. Í reglum um íþróttakeppni eru reglur um einstakar íþróttakeppnisgreinar, teikningar af keppnisvöllum ofl. Síðan eru reglur um íslenskar keppnisgreinar svo sem gæðingakeppni, gæðingalist ofl.

Ólafur Haraldsson formaður laganefndar LH hefur leitt þá miklu vinnu sem býr að baki þessari nýju útgáfu af regluverkinu og færum við honum bestu þakkir fyrir. Keppnisnefndir LH, fyrr og nú, komu að yfirlestri og úrskurðuðu um vafamál sem komu upp við þýðingar, fleiri nefndir og fyrri stjórnir LH lögðu sitt af mörkum og Gréta V. Guðmundsdóttir sá um hönnun og umbrot. Þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg.

Lög og reglur LH

 

lhhestar.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar