Fluttu inn nýjan búnað
Í gær stöðvaði Matvælastofnun tímabundið sérstaka þjálfun á hrossum til þátttöku í kvikmyndaverkefni. Var verkefnið stöðvað vegna alvarlegra atvika sem sjást á myndböndum sem stofnuninni bárust í gær auk annarra frávika sem komu fram við eftirlit stofnunarinnar fyrr um daginn. Þrettán hross voru á staðnum og var von á fleirum en verkefnið var ekki komið á fullt skrið.
„Við fengum ábendingu um hádegi í gær og fór eftirlitsmaður frá okkur tafarlaust á staðinn. Í ljósi frávika sem komu fram við eftirlitið og voru staðfest enn frekar með myndböndunum var tekin ákvörðun um að stöðva starfsemina tímabundið. Ljóst er að hrossin voru beitt meðferð sem brýtur í bága við lög og reglugerðir hér á landi. Með banninu eru hrossin komin í frí og ráðrúm fæst til að rannsaka málið nánar og vinna úr því“ segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun
Myndband tengt málinu fór sem sinueldur um netheima í gær og vakti hörð viðbörgð þeirra sem sáu. Glöggir hestamenn tóku eftir því að búnaðurinn sem notaður var á hrossunum var ekki íslenskur og voru margir með áhyggjur af því hvort búnaðurinn hefði verið fluttur inn notaður og hvort að viðeigandi sóttvarnarreglum hafi verið beitt.
„Það liggja fyrir staðfestingar á því að búnaðurinn sé nýr og hann hafi verið fluttur inn sem slíkur. Það hefur ekkert annað komið í ljós enn sem komið er, en rannsókn er ekki lokið,“ bætir Sigríður við.
Matvælastofnun fór eftirlitsferð í dag á staðinn þar sem hrossin eru og getur staðfest að starfsemin hefur verið stöðvuð.
Áframhaldandi rannsókn stendur yfir hjá Matvælastofnun.