Nýr ræktunarleiðtogi ráðinn til starfa

  • 1. apríl 2024
  • Fréttir
Nýr ræktunarleiðtogi tekur til starfa í vikunni

Magnús Bragi Magnússon var á dögunum ráðinn til starfa hjá RML sem ræktunarleiðtogi íslenska hestsins. Magnús Braga þekkja flestir sem fylgjast með hestamennsku, hann hefur starfað sem hrossaræktandi og tamningamaður í áratugi á Íbishóli í Skagafirði. Í samtali við Eiðfaxa segist Magnús vera spenntur fyrir nýja starfinu

„Það veitir ekki af því að hressa upp í þessu og vera með eitthvað náttúrubarn við stjórnvölin. Ég er mjög spenntur fyrir verkefninu. Er búinn að fá leið á þessum búskap og þessu brasi og finnst gaman að fá að nýta krafta mína á öðrum sviðum í hrossaræktinni.“

Mörgum kemur ráðningin eflaust á óvart enda hafa fyrrum ræktunarleiðtogar verið sprenglærðir í ýmsum fræðum tengdum búfjárrækt. Friðrik Már Sigurðsson, fagstjóri á búfjárræktarsviði hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og fulltrúi í ræktunarnefnd FEIF sagði í samtali við Eiðfaxa að ákveðið hafi að prófa eitthvað nýtt við ráðningu nýs ræktunarleiðtoga.

Við hjá RML teljum að með þessari ráðningu séum við að fá hæfasta manninn til verksins. Magnús Bragi er hokinn af reynslu á öllum sviðum hestamennskunnar og mun nýtast vel innan okkar raða. Það var ótrúleg heppni að þessi mann- og dýravinur hafi verið tilbúinn að segja skilið við búskapinn á Íbishóli og ég efast ekki um það að hann muni reynast hrossaræktinni um gjörvalla veröld vel.“

Magnús Bragi tekur til starfa í þessari viku og verður til viðtals á skrifstofu sinni að Hólum í Hjaltadal frá og með miðvikudegi. Þá er einnig hægt að senda honum tölvupóst á netfangið leidtoginn@rml.is

Magnús Bragi er nýr ræktunarleiðtogi íslenska hestsins. Ljósmynd: Henk Peterse

 

Eins og glöggir lesendur gerðu sér grein fyrir, var greinin skrifuð 1.apríl, og því um skáldskap að ræða.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar