Nýtt BLUP komið út í Worldfeng

  • 27. september 2025
  • Fréttir

Dalvar frá Efsta-Seli stendur efstur í kynbótamatinu

Kynbótamat hrossa haustið 2025

Nú hefur nýtt kynbótamat verið vistað í WorldFeng en öllum kynbótasýningum lauk í annarri viku september. Nú byggir kynbótamatið bæði á kynbótadómum hrossa og einnig á keppnisárangri í ákveðnum keppnisgreinum. Hér er um að ræða töltgreinar (T1, T3, T2 og T4), fjórgangsgreinar (V1, V2 og B-flokki), fimmgangsgreinar (F1, F2 og A-flokki) og skeiðgreinar (250 metra skeiði, 100 metra skeiði og gæðingaskeiði). Keppnisárangur hrossa á alþjóðlegum mótum (e. World ranking) í fullorðinsflokki (meistaraflokki og 1.flokki), stórmótum í gæðingakeppni auk skeiðgreina er nýttur. Kynbótadómarnir eru alls orðnir rúmlega 38 þúsund að tölu og keppnisgögnin telja um 172 þúsund dóma.

Það er því ljóst að grunnur kynbótamatsins styrkist ár frá ári og ekki síst á þessu ári með því að bæta keppnisárangri hrossa við. Alls voru felldir 2.187 kynbótadómar í ár í níu löndum.
Nánari upplýsingar um hið nýja kynbótamat má finna á heimasíður RML á eftirfarandi slóð: https://www.rml.is/is/starfsemi/frettir/spennandi-nyjung-i-kynbotamati-islenskra-hrossa-nyting-keppnisarangurs

Valparanaforritið verður einnig uppfært fljótlega. Það er afar magnað verkfæri sem ræktendur hafa til að hjálpa sér að velja stóðhesta á sínar hryssur. Þar er til dæmis hægt að fylgjast með skyldleika væntanlegra foreldra og passa að afkvæmið verði ekki of skyldleikaræktað. Það gefur manni einnig kynbótamatsspá fyrir væntanlegt afkvæmi og líkur á öllum mögulegum litum.

Þetta er því afar verðmætt og skemmtilegt verkfæri sem vert er fyrir alla ræktendur að kynna sér.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar