Nýtt kynbótamat í WorldFeng

  • 19. október 2023
  • Fréttir

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum og Stengur frá Þúfum eru þeir stóðhestar sem standa efstir með 136 stig í kynbótamati. Á myndinni er Álfaklettur ásamt ræktanda og eiganda Olil Amble. Mynd: Kolla Gr.

Nýr kynbótamatsútreikningur hefur verið settur inn í Upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFeng, fyrir alls 492.564 hross*.

Fjöldi alþjóðlegra kynbótadóma (fullnaðardóma) sem lágu til grundvallar útreikningnum að þessu sinnu var 36.160 og skiptist eftir löndum þannig: Ísland 22.379, Svíþjóð 4.459, Þýskaland 3.721, Danmörk 2.819, Noregur 1.279, Austurríki 387, Finnland 294, Holland 319, Bandaríkin 228, Kanada 117, Sviss 110, Bretland 39 og Færeyjar 9. Alls var tekið tillit til 1.027 arfgerðargreindra hrossa í útreikningum fyrir gangráðinn.

Kynbótamat með öryggi undir 60% verður að túlkast með varúð. Öryggi byggir á magni upplýsinga (fjölda kynbótadóma skyldra einstaklinga) að baki útreikningum og er því hátt öryggi á kynbótamati hrossa sem eiga mörg afkvæmi. Kynbótamat þeirra endurspeglar vel gildi þeirra til framræktunar, þ.e. hverju þau skila til afkvæma sinna, miðað við opinbert ræktunarmarkmið íslenska hestsins.

Kynbótamatið er kvarðað út frá meðaltali hrossa fæddra á Íslandi síðustu 10 árin og var viðmiðunarhópurinn að þessu sinni því fæddur árin 2014 – 2023. Meðaltal kynbótamats allra eiginleika utan eins, er skorðað við 100 og hvert staðalfrávik eðlisfars eiginleika eru 10 stig. Neðstu og efstu hross liggja því milli 70 og 130 stig með örfáum hrossum utan þeirrar spannar. Kynbótamat hæð á herðar er birt í sentimetrum og miðast þá við frávik frá meðalhæð þeirra hrossa sem mæld eru á fyrrsögðu tímabili.

Alls er reiknað kynbótamat fyrir 24 eiginleika sem flestir eru metnir á kynbótasýningum, þ.e. hæð á herðar; höfuð; háls, herðar og bógar; bak og lend; samræmi; fótagerð; réttleiki; hófar; prúðleiki; tölt; hægt tölt; brokk, skeið; greitt stökk; hægt stökk; samstarfsvilji; fegurð í reið; fet; Aðaleinkunn (AE); AE sköpulags; AE hæfileika; AE án skeiðs; AE hæfileika án skeiðs; og mætingu til kynbótadóms.

Kynbótamat fyrir ‚Stóðhestaval‘ og ‚Valparanir‘ hefur einnig verið uppfært. Þær upplýsingar eru ómetanlegar fyrir ræktendur þegar verið er að huga að næstu kynslóð hrossa.

* Hross skráð fyrir 8. september 2023

www.worldfengur.com

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar