Óánægja með dagsetningu Íslandsmóts

  • 14. nóvember 2025
  • Fréttir
Nokkur óánægja hefur verið meðal knapa og annarra með dagsetningu mótsins

Landssamband hestamannafélaga gaf út nú á dögunum dagsetningu Íslandsmóts fullorðinna og ungmenna en mótið verður haldið á félagssvæði Sörla í Hafnarfirði dagana 17. til 21. júní 2026.

Sumarið 2026 er landsmótsár og er Íslandsmótið nú tímasett á undan Landsmóti, er þetta tilraun til að gera mótinu hærra undir höfði. Í góðu samráði hestamannafélaganna Sörla, Fáks og LH hefur verið ákveðið að stærsta íþróttamót ársins, Reykjavíkurmót Fáks, verði haldið dagana 1. til 7. júní, til að skapa rými fyrir Íslandmót í júní. Þannig er það von allra sem að þessu koma að Íslandsmót njóti þess rýmis og þeirrar athygli sem slíku móti sæmir,“ segir í tilkynningu LH.

Dregur úr þátttöku á Landsmóti

Nokkur óánægja hefur verið meðal knapa og annarra með dagsetningu mótsins sem búið er að troða inn á nú þegar mjög erilssamt tímabil hjá bæði hestum og knöpum. Eins og staðan er núna verða flest útimót á árinu 2026 í maí og júní og eru þrjú stærstu mót ársins á fimm vikna tímabili.

„Þetta er áhugaverð ákvörðun og ég velti því fyrir mér fyrir hverja hún er tekin því ekki er hún hugsuð fyrir heildina? Er ekki eðlilegt að á landsmótsári að Landsmót fái athygli og rými fyrir úrtökur? Að öll hestamannafélög á landinu sé gefin kostur á að taka þátt á báðum mótum? Reykjavíkurmeistaramót og Íslandsmót eru haldin á hverju ári og helgar í boði fyrir úrtökur eru ekki margar. Þess vegna spyr ég mig hvort þessi breyting muni ekki hafa áhrif á þátttöku á Landsmótinu sjálf?“ segir Oddrún Ýr Sigurðardóttir reiðkennari og gæðingadómari.

„LH hefur lagt áherslu á að breiða út vængi gæðingakeppninnar og styrkja stöðu hennar innan hestaíþróttarinnar. Því skil ég ekki þess ákvörðun þar sem mér finnst hún tala gegn því. Mér fannst líka góður punktur sem FT setti fram að þetta er einfaldlega mjög óhestvænt,“ bætir hún við.

Skapar mikið álag á hross og knapa

Félag Tamningamanna (FT) sendi formlegt erindi til stjórnar LH og stjórnar hestamannafélagsins Sörla um val á tímasetningu Íslandsmótsins. Erindið má lesa í heild sinni HÉR en þar hvetur stjórn FT, LH og Sörla, til endurskoðunar á dagsetningu Íslandsmóts.

Þetta skapar ekki bara mikið álag á knapa og aðstandendur heldur eru hestarnir undir miklu álagi og með litla endurheimt á milli mót sem getur m.a. leitt til álagsmeiðsla. Þegar það er svona stutt á milli móta þá getur það skapað óraunhæfar kröfur fyrir hesta og menn, og jafnvel reynst ómögulegt að taka þátt á tveimur stærstu mótum ársinis. Ákjósanlegra hefði verið að lengja tímann á milli stórmóta,“ segir í erindi FT.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar