Ólafur og Blesi hvíla saman í Þjórsárdal

  • 8. október 2025
  • Fréttir

Mynd af minningarskiltinu sem nú er að finna við hvílustað þeirra Ólafs og Blesa

Nýtt minningarskilti vígt í Skriðufellsskógi

Frá merkilegri og áhrifamikilli sögu Ólafs Bergssonar frá Skriðufelli og gæðings hans Blesa segir Björgvin G. Sigurðsson á fésbókarsíðu sinni, en tilefnið er að Skriðufellsfjölskyldan vígði um helgina minningarskilti um forföður sinn og hestinn hans, Blesa í Þjórsárdalsskógi. Þeir félagar hvíla þar hlið við hlið og er sagan á bak við það mögnuð. Frásögn Björgvins um atburðinn byggir á kafla úr handriti úr bók um sögu Þjórsárdals sem stefnt er að útgáfu á og er ber heitið, Önnur var þá öldin, rekur sú bók sögu Þjórsárdals frá landnámi til dagsins í dag.

Ólafur Bergsson (1867–1944) var einn kunnasti Þjórsdælingur sinnar tíðar, fjallkóngur Gnúpverja um tvo áratugi og leiðsögumaður Brynjúlfs frá Minna-Núpi, Þorsteins Erlingssonar skálds og síðar norrænna fræðimanna sem könnuðu hin fornu bæjarstæði dalsins. Fáir þekktu Þjórsárdal og sögu hans jafnvel og Ólafur, sem varð til þess að margar sögur og staðsetningar fornbæja glötuðust ekki í gleymskunnar dá.

Ólafur var frægur ferðagarpur og talið að enginn hafi oftar farið yfir Sprengisand en hann. Hann átti marga hesta á ævinni, en engum þótti honum vænna um en Blesa, fæddan árið 1902, sem hann reið á fjöllum og í ferðum árum saman. Þegar Blesi féll árið 1926, 24 vetra gamall, reisti Ólafur honum leiði í Skriðufellsskógi við Selhöfða og lét letra á steininn: „Hér er heygður afburða hesturinn Blesi, er féll 24 ára 1926.“

Ólafur Bergsson á Skriðufelli á Blesa. Ljósmynd tekin um 1930. Ljósmyndari: Björn Jóhannesson

Þegar líða tók á ævikvöld Ólafs tók hann þá ákvörðun að hvíla sjálfur við hlið vinar síns. En þegar hann lést árið 1944 þurfti meira en góðan vilja til að það mætti verða að veruleika. Þrátt fyrir að hafa fengið leyfi Kristjáns konungs X árið 1930 til að hvíla í skóginum, þegar Ísland var enn konungsríki. Hafði landið fengið sjálfstæði og orðið lýðveldi skömmu áður en Ólafur andaðist. Biskup Íslands neitaði því að samþykkja jarðsetningu utan vígðrar moldar. Þá gekk fjallkóngurinn Jóhann Kolbeinsson á Hamarsheiði á fund biskups og mælti orð sem lifa enn í munnmælum: „Það sem þrír kóngar hafa ákveðið, því fær einn biskup ekki breytt.“

Biskup féll að lokum frá andmælum með því skilyrði að kirkjuklukku Stóra-Núpskirkju yrði hringt við athöfnina, væntanlega í þeirri trú að ekki yrði af útförinni í skóginum. En Gnúpverjar létu ekki deigan síga. Klukkan var tekin niður úr turninum, flutt á hestum inn í Selhöfða og hringt þar við jarðsetningu Ólafs.

Ólafur er sagður síðasti Íslendingurinn sem var jarðsettur með hesti sínum, eins og tíðkaðist jafnan fyrir kristnitökuna. Síðar var grafreiturinn vígður og hvílir þar nú einnig Björn Jóhannsson, sonarsonur Ólafs og síðasti ábúandinn á Skriðufelli.

Einar E. Sæmundsen, skógarvörður, orti síðar fjórtán vísur um samferð Ólafs og Blesa, Blesavísur, sem lýsa vináttu manns og hests með virðingu og hlýju.
Eitt erindi hljóðar svo:

„Yfir Blesa bautastein,
bjarkir fagrar vaka;
þrestir vorsins þar á grein,
þakkir gæðing kvaka.“

Slíkar frásagnir um tryggðarbönd milli manns og hests tengja margir hestamenn við og minna okkur á hin djúpu áhrif og hlutverk hestsins í íslenskri menningu.
Sagan af Ólafi Bergssyni í Skriðufelli og Blesa er því ekki aðeins saga úr fortíðinni, heldur áminning um samband manna og dýra sem mótað hafa þjóðina allt frá upphafi byggðar á Íslandi.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar