Oliver frá Kvistum fallinn
Stóðhesturinn Oliver frá Kvistum er fallinn. Hann er ræktaður af Kristjóni L. Kristjónssyni og var í eigu Sundsby Gård AB í Svíþjóð en hann var fluttur til Svíþjóðar árið 2009. Oliver var fæddur árið 2004, undan Aroni frá Strandarhöfði og Orku frá Hvammi. Hann á skráð 230 afkvæmi í WorldFeng og þar af eru 55 þeirra með fullnaðardóm í kynbótadómi. Hann hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi árið 2017.
Fimm vetra hlaut hann sinn hæsta kynbótadóm þegar hann hlaut 8,28 fyrir sköpulag, 8,93 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,67. Hlaut hann þar m.a. 9,5 fyrir fegurð í reið og 9,0 fyrir tölt, skeið, stökk og vilja og geðslag, sýnandi hans var Hinrik Bragason. Þá á hann einnig farsælan keppnisferil að baki bæði með þá Daníel Jónsson og Eyjólf Þorsteinsson sem knapa.
Grípum niður í viðtal við Hinrik Bragason sem birtist í Eiðfaxa Vetur 2024 þar sem hann lýsir eftirminnilegum hestum frá ferlinum og hafði hann þetta að segja um Oliver:
„Við Krilli vorum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt saman. Ég var búin að sjá Oliver sýndan í kynbótadómi og var búinn að segja Krilla ákveðna hluti sem ég taldi að væri hægt að gera betur með hann. Ég var mikill Aronskall (Aron frá Strandarhöfði) og þekkti afkvæmi hans vel. Oliver var sýndur á Hellu þarna 2009 og eftir yfirlitið kemur Krilli til mín með klárinn og segir við mig að fyrst ég sé svona klár hvort ég vilji ekki bara kíkja á hann. Mér varð ágætlega ágengt en eins og með sum Aronsbörn þurfti maður að passa að þau væru einstaklega mjúk á hliðarnar. Ég kemst í gegnum hann og ríð honum þarna um helgina. Segi síðan við Krilla, sem átti tíma á Mið-Fossum á þriðjudeginum eftir, að við skildum keyra upp eftir. Ég myndi hita klárinn upp og ef mér fyndist hann góður og væri ánægður með hann þá færi ég inn á völlinn ef ekki þá myndum við taka af honum, setja hann upp á kerru og keyra hann aftur heim.“
„Við keyrðum upp eftir og var hann alveg svakalega góður, vildi allt fyrir mig gera og tikkaði í öll boxin. Hann fékk 8,70 og eitthvað fyrir hæfileika í fyrra rennslinu og ég var ekkert hissa. Ég var mjög ánægður. Það er líka svo gaman þegar þú tekur að þér verkefni, af því þú telur að þú hafir eitthvað fram að færa, og þau ganga upp. Það er svo gaman því nógu oft tekst það ekki. Síðan var farið heim og sofið á því. Yfirlitið var daginn eftir og við hækkum fyrir fegurð í reið í 9,5 og í 9,0 fyrir skeið. Þá var hann kominn í 8,93 sem var alveg mega. “
„Eftir þetta var rosa mikill áhugi á klárnum til kaups og Krilli og Gunther Weber eru að velta hlutunum fyrir sér. Heimsmeistaramótið í Sviss var framundan og Gunther spyr mig hvort ég vilji ekki fara á honum. Mér fannst það alveg glórulaust. Hann var bara fimm vetra gamall og ég taldi að hann gæti gert rosalega hluti síðar meir í íþróttakeppni. Þeir voru komnir á það líka og hesturinn fer í merar. Síðan um haustið myndast gríðarleg stemning eins og gerist stundum með þessa bestu gripi. Krilli er hörku rekstrarmaður og ræktunarbú eru rekin á þessu, að það komi einstaka stjarna sem þarf að selja. Þarna myndaðist gott færi og Krilli seldi hann. “
„Óliver var að sumu leyti betri en Ómur gangtegundalega séð. Hann var með alveg frábært fet, einstakt brokk, mikla spyrnu. Vekurðin var þó enn opnari í Óm, hann var einfaldlega botnlaus. Beislis eiginleikarnir Óliver voru ekki eins góðir og í hinum en það kemur kannski örlítið frá gamla mínum, Aroni. Ómur fyrir mér var skemmtilegri hestur útlitslega séð og hann hefur líka skilað því miklu betur. Ómur var passlega langur og skemmtilega fótahár. Ótrúlega ólíkir hestar þó þeir væru bræður og báðir afrekshestar.“