„Organista ætlum við að eiga áfram og nota hann í ræktun“

  • 12. mars 2023
  • Fréttir

Jasmina og Ómar komin til Þýskalands

Viðtal við Ómar Inga Ómarsson, hrossaræktanda og tamningamann.

Ómar Ingi Ómarsson, hrossaræktandi og tamningamaður á Horni í Hornafirði, er fluttur út til Þýskalands ásamt kærustu sinni, Jasmina Koethe, en hún er frá Þýskalandi.

“Við erum komin út og erum að leigja aðstöðu í Störtal í Ehndorf en þetta er gamalgróinn íslenskur hestabúgarður. Hér voru haldin ægileg stórmót í gamla daga og m.a. Jói G. gerði garðinn frægan hér,” segir Ómar Ingi en á Störtal eru kannski um 50 hross. Í þorpinu í kringu eru um 300 íslenskir hestar en fimm íslenskir hestabúgarðar eru í þessu þorpi. Hinu megin við götuna hjá þeim Ómari og Jasmina er Heersberg þar sem Þýskameistaramótið var haldið fyrir tveimur árum. Daniel Schulz er knapi þar en hann hefur verið að gera það gott á Spuna vom Heersberg í slaktaumatölti.

Ómar hefur áður búið út í Þýskalandi eða frá árinu 2003 til 2007. Hann snéri aftur heim til að klára reiðkennaranámið á Hólum og ætlaði sér alltaf fljótlega aftur út til Þýskalands. “Síðan breytist það ég fór að temja heim enda mikið af góðum hestum. Síðan var alltaf eitthvað spennandi framundan, Landsmót og Fjórðungsmót, sem hélt í mann. Undanfarið hefur þessi fjarlægð að vera á Horni gert manni erfitt fyrir að vera með í leiknum. Þannig við stóðum eiginlega frammi fyrir því að annað hvort fara eitthvað suður eða fara út. Mig langaði alltaf að fara aftur út, við eigum mikið af vinum hérna og Jasmina er frá þorpi sem er hér nálægt. Ég hafði líka áður unnið á Störtal svo þannig þetta hentaði vel fyrir okkur.”

Fjarlægðin frá Hornafirði á suðausturhornið var þó ekki það eina sem réði för heldur spilaði þar stóran þátt reiðkennsla og hestasala. “Það er margt sem spilar inn í t.d. Er veðrið kannski líka partur af þessu. Ég hef mikið verið að fara út að kenna og ég tala tungumálið mjög vel. Fólk hefur verið ánægt með mig sem kennara og svo það hefur verið mikið að gera í því. Að búa hér mun gera mér auðveldara fyrir að sinna kennslunni meira. Hestasala er líka stór partur af þessu en það hefur verið erfitt að selja hesta austur á Hornafirði og því fannst okkur vera sniðugt að taka hestana með okkur og selja þá hér,” segir Ómar og bætir við að þau hafi líka meira út úr hverjum viðskiptavini í Þýskalandi en almennt séð er meiri eftirfylgni þegar þú selur hest. “Þú selur hest heima á Íslandi og hann er bara farinn. Hér fylgir þú hestinum eftir og heldur áfram með verkefnið sem er mjög gaman. Skapar þér áframhaldandi vinnu og auka tekjur.”

Organisti frá Horni á Landsmóti 2016. Knapi: Árni Björn Pálsson

Þau Jasmina og Ómar verða ekki hestlaus þarna í Þýskalandi en þau fluttu með sér 12 hesta frá Horni. Í hópnum er fyrstu verðlauna stóðhesturinn Organisti frá Horni en hann hlaut m.a. fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmótinu í sumar. Steingerður frá Horni er líka í hópnum en hún var ein af hæst dæmdu fimm vetra hryssunum í fyrra og síðan Líf frá Horni og Jaki frá Horni. “Maður þarf að taka með sér hesta til að sýna sig og ræktunina okkar. Mig langar að vera duglegri við það að keppa en hef verið minna í því undanfarin ár, vegna fjarlægðar Horns frá mekkanu á Suðurlandi. Þegar við tókum ákvörðun um að taka mér okkur þessi hross þá eru við ekkert að hugsa neitt tilbaka. Við erum komin til að vera. Organista ætlum við að eiga áfram og nota hann í ræktun. Vonumst til að geta verið með hann í sæðingum og geta því boðið upp á sæði úr honum um alla Evrópu. Planið með Steingerði er að sýna hana aftur í kynbótadómi og vonandi geta farið fyrir Íslandshönd á heimsmeistaramótið í Hollandi í sumar. Við reiknum fastlega með að Kolbeinn frá Horni verði þar líka (hestur Signýjar Sólar Snorradóttur í U21 landsliðshópnum). Það yrði mjög góð auglýsing fyrir Hornhesta.”

Organisti stóð efstur í flokki sex vetra stóðhesta á Landsmóti á Hólum 2016

Þau Ómar og Jasmina eru spennt fyrir komandi tímum en þau finna fyrir ótrúlega miklum stuðningi frá vinum á nágrönnum. “Við höfum fengið mjög mikið af jákvæðum straumum frá þeim sem eru í kringum okkur. Allir voða kátir og finnst gaman að fá nýtt fólk. Koma Organista til landsins er líka að vekja mikla lukku svo við erum bara spennt fyrir komandi tímum. Ég held áfram að vera með ræktunina heima á Horni en við náum vonandi að finna einhvern með okkur í gott samstarf þar. Hesthúsið er tómt eins og er en þarna er frábær aðstaða til að þjálfa og temja hesta. Það væri gaman ef maður myndi finna einhvern til að vera þar og vinna úr þeim frábærum hestum sem eru þar,” segir Ómar Ingi að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar