Organisti fer vel af stað sem kynbótahestur

  • 17. janúar 2021
  • Fréttir

Organisti frá Horni I á Landsmóti 2016, knapi er Árni Björn Pálsson. Mynd: Aðsend

Ómar Ingi Ómarsson í viðtali

Eiðfaxi hafði samband við Ómar Inga Ómarsson, en hann rekur tamningastöð austur í Hornafirði. Ómar Ingi og fjölskylda hafa um árabil stundað hrossarækt með góðum árangri og ber þar hæst að nefna stóðhestinn Organista frá Horni I sem sigraði sex vetra flokk stóðhesta á Landsmóti 2016.

Hvernig er tíðin búin að vera í Hornafirði það sem af er hausti og vetri? „Það hefur rignt mikið í haust en um jólin og áramótin var veðrið frábært“ segir Ómar Ingi. „Það er annars mikil gróska í hestamennskunni hér á svæðinu og flestöll heshús orðin full sem og félagshesthúsið. Við stefnum á að halda áfram af krafti í barna- og unglingastarfinu hér í vetur sem þau Pálmi og Snæsa halda vel utan um. Við erum ákaflega stolt að hafa fengið Æskulýðsbikar LH á síðasta ári sem sýnir bara hvað minni hestamannafélögin geta gert, þá sérstaklega fyrir unga fólkið sem hefur ekki beinan aðgang að hestum eða aðstöðu.“

Náttúrufegurðin á Horni er með ólíkindum. Mynd: Aðsend

Ómar lætur einnig vel af þeim hestakosti sem hann og hans fólk eru með á húsi. „Það er nóg að gera hjá okkur Jasminu í tamningum og þjálfun og við erum með eina þýska stelpu hjá okkur einnig sem hjálpar til. Við erum með talsvert af afkvæmum Organista í tamningu og gaman að sjá hvernig þau þróast. Ég er til dæmis með einn stóðhest hér á fjórða vetur undan Organista sem heitir Laufi frá Horni I, verulega spennandi efni þar á ferð. Svo verð ég að minnast á hana Steingerði frá Horni I. Hún er undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Grús frá Horni I en sú er undan Spuna frá Miðsitju. Steingerður er mjög sérstakt tryppi sem ég bind talsverðar vonir við.“

Aðspurður um það hvaða hross sé best í hesthúsinu segir Ómar: „Það eru sem betur fer nokkur ágætis hross á járnum hjá okkur. Við erum t.d. með Organista hér heima hjá okkur í léttri þjálfun og það er ekki leiðinlegt. Að öðrum ólöstuðum verð ég þó að nefna hryssuna Líf frá Horni I sem besta hrossið í húsinu enda fékk hún 9 fyrir allt í hæfileikum sem fimm vetra klárhryssa nema fyrir fet og hún á að ég held töluvert inni.“

En hvernig lýsir Ómar Ingi afkvæmum Organista? „Afkvæmi Organista eru oftast alhliða hross með traustan og þægilegan vilja, gott fet og oft ótrúlega gott brokk. Þau hálsfalleg með hátt frambak og háa herðar. Það er gaman að segja frá því að það hafa komið sex hross undan honum til dóms og þau eru öll með fyrstu verðlaun þannig að hann fer vel af stað sem kynbótahestur. Organisti verður hér heima á húsi í vor en fer síðan á langt gangmál hjá Stallion North í Eyjafirði í sumar.“

Steinálfur frá Horni I í kvöldsólinni. Mynd: Aðsend

Og hrossaræktin var í blóma hjá ræktendunum á Horni I sl. sumar. „Það ber líklega hæst að Flauta, móðir Organista, kastaði hestfolaldi undan Kjerúlf frá Kollaleiru og það kom einnig hryssa undan Kjerúlf og Fljóð frá Horni I“ segir Ómar Ingi. „Við fengum svo fimm folöld undan Organista og tvö undan syni hans, Silfursteini frá Horni I. Þeir stóðhestar sem við notuðum í sumar voru Dropi frá Kirkjubæ, Laufi frá Horni, Óskar frá Breiðsstöðum, Silfursteinn frá Horni og Þröstur frá Kolsholti. Við erum lítið farin að hugsa fyrir stóðhestanotkuninni næsta sumar en mér finnst afar líklegt að við munum nota Organista eitthvað sem og Kjerúlf frá Kollaleiru.“

Eiðfaxi þakkar Ómari Inga kærlega fyrir spjallið og óskar honum alls hins besta.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<