Ormur er hesturinn með stóra H-inu

  • 24. júlí 2021
  • Fréttir

Í tímaritum Eiðfaxa er oft að finna skemmtilegar frásagnir og viðtöl við fólk úr hestamennskunni. Í Eiðfaxa Vor sem kom út í síðasta mánuði er að finna viðtal við Atla Guðmundsson þar sem hann lýsir mörgum eftirminnilegum hrossum frá ferlinum. Einn af þeim hestum sem hann lýsir er að sjálfsögðu Ormur frá Dallandi sá mikli gæðingur.

Hér fyrir neðan má lesa það sem Atli hafði um hann að segja.

Ormur frá Dallandi
Ormur er hesturinn með stóra H-inu fyrir mér. Það má segja að ég hafi fylgt honum allt frá getnaði því við Gunnar Dungal og Þórdís Sigurðardóttir, ræktendur og eigendur Orms, ákváðum í sameiningu að móðir hans, Lýsa frá Efri-Rotum, yrði leidd undir Orra frá Þúfu. Ég var einnig viðstaddur köstunina sjálfa. Ormur var ljótt folald og því var ekkert hugsað um að halda honum gröðum. Mér er hins vegar mjög minnisstætt atvik þegar hann var tveggja vetra gamall og það var verið að gefa stóðinu í Dallandi ormalyf. Ég var eitthvað að snúast í kringum tryppin og reka þau til og þá tók þessi litli tittur þvílíka aríu fyrir mig þarna í hólfinu. Ég hafði aldrei séð svona tilþrif áður á tölti, brokki og flugskeiði og það var hreint ótrúlegt að horfa á hann sprikla. Þarna á staðnum bauð ég Þórdísi nýlegan GMC-pallbíl sem ég var þá nýbúinn að eignast, í skiptum fyrir þennan tveggja vetra gelding en Þórdís sagði bara „Fyrst þú vilt kaupa hann þá er hann ekki til sölu“.

Þegar kom svo að tamningu Orms þá reyndist hann ákaflega þægilegur og einfaldur. Hann var gerður reiðfær sumarið sem hann var fjögurra vetra, er síðan taminn áfram veturinn á eftir.  Hann brokkaði og lullaði til skiptis fyrst um sinn í fortamningu en fór snemma að grípa töltið í framhaldinu. Ég tók svo alfarið við þjálfun hans þegar hann var á sjötta vetur. Ég man að ég þjálfaði hann talsvert á ís þá um veturinn, lét hann ganga á hægu tölti og þá byrjaði hann að sýna þessa miklu fótahreyfingu sem einkenndi hann. Það voru oft frábærir reiðtúrar sem við áttum saman og margoft kom það fyrir að hann var svo góður að ég steig af baki í miðjum túr og gekk heim með hann. Þarna strax varð okkur sem stóðum að Ormi orðið ljóst að þar væri á ferð óvenjulegt hestefni sem gæti náð alla leið á toppinn. Hann var aðeins sex vetra gamall þegar hann keppti fyrst í A-flokki gæðinga árið 1998 og endaði í 3. sæti á Landsmóti á Melgerðismelum. Við urðum Íslandsmeistarar í fimmgangi árið 1999 og fórum síðan alla leið og sigruðum A-flokk á Landsmóti í Reykjavík árið 2000. Þá var Ormur átta vetra gamall. Þess má einnig geta að ég sýndi Orm í kynbótadómi vorið 1999 þó geldingur væri. Það var gert til að hjálpa Orra föður hans í kynbótamatinu. Hann fékk þar alveg feikna dóm – hæfileikaeinkunn upp á 9,19 sem enn þann dag í dag er með því hæsta sem gefið hefur verið og fékk hann m.a. einkunnina 10 fyrir vilja.

Í þjálfuninni á Ormi reyndi ég alltaf að vernda lappirnar á honum, með þetta gríðarlega hreyfieðli og ekki ýkja trausta fótagerð þá þurfti eiginlega að hafa vit fyrir honum til að koma í veg fyrir álagsmeiðsli. Hann var því mikið teymdur og þjálfaður fyrir léttikerru, auk ýmissa æfinga sem miðuðu að því að halda honum í líkamlegu formi en um leið að vernda hann. Við spöruðum Orm einnig gagnvart keppni og hann kom í raun afar sjaldan á keppnisvöllinn – hann keppti í A-flokki gæðinga hjá Fáki frá 1998-2000, á Landsmótum 1998 og 2000 og svo á Íslandsmótum árin 1999 og 2000. Eftir Landsmótið 2000 varð Ormur svo reiðhestur Þórdísar eiganda síns og kom ekkert á keppnisvöllinn fyrr en árið 2006 að við mættum til leiks aftur í A-flokk. Við fórum í úrslit það árið á Landsmóti á Vindheimamelum en hesturinn náði ekki sömu hæðum þá og sex árum áður þó góður væri. Hann átti eftir það langa og farsæla ævi í höndum Þórdísar og Gunnars og féll frá snemma árs 2017. Þórdís sendi mér þá mynd af honum auk lokks úr faxi og tagli þessa höfðingja sem ég held upp á.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<