Óvægin umræða um bændur

  • 15. desember 2019
  • Fréttir
Það hefur ekki farið framhjá neinum þeim, sem fylgist með því sem fram fer á norðan- og vestanverðu landinu, að afar erfiðar aðstæður hafa myndast á stóru svæði í kjölfar mannskaðaveðurs sem gekk yfir landið.

 

Bændur, ásamt öðru fólki á þessu svæði, hafa mátt þola það að búa við rafmagnsleysi og að bíða af sér veðurhaminn innandyra. Þessir sömu bændur höfðu búið um gripi sína eftir bestu getu en engin gat séð fyrir hversu slæmar aðstæður mynduðust í raun og veru.

Strax og veðrinu slotaði og stætt var utandyra, fóru bændur af stað að athuga með búpening sinn. Margra þeirra beið hörmuleg sjón því á sumum stöðum hafði hross fennt á kaf, með þeim afleiðingum að ekki öll þeirra lifðu af.

Í samtali við hrossaræktenda og tamningamann á norðvesturlandi var aðstæðunum lýst sem hörmulegum og að margir bændur ættu um sárt að binda að svo stöddu. Mikil samstaða hefur myndast meðal bænda á þessum svæðum og allt kapp hefur verið lagt á að koma þeim gripum sem verst urðu úti til bjargar með öllum tiltækum ráðum.

Í kjölfar þessara atburða hafa þessir bændur margir hverjir fengið slæma útreið á „kommentakerfum“ þar sem fólk úthúðar þeim sem dýraníðingum og þaðan af verra.  Engum líður verr núna en þessum bændum sem hafa þurft að fella gripi sína eða komið að þeim dauðum. Við skulum því hafa hugfast að aðgát skal höfð í nærveru sálar og fara varlega í sleggjudómum um náungann. Eiðfaxi sendir þeim bændum sem eiga um sárt að binda sínar bestu kveðjur.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar