„Pabbi kemur alltaf fyrstur upp í hugann á mér þegar að vel gengur“

  • 1. janúar 2024
  • Fréttir

Hrossaræktarbúið Árbær í Holta- og Landsveit er alþekkt en árið í ár var einstaklega farsælt ræktendum þar á bæ. Hæst ber það að Verona frá Árbæ stóð efst heiðursverðlaunahryssa og Geisli frá Árbæ stóð efstur 6.vetra stóðhesta á HM í Hollandi. Upp úr 1980 festa þau Gunnar Andrés Jóhannsson og Vigdís Þórarinsdóttir kaup á jörðinni Árbæ en áður höfðu þau stundað hrossarækt að Ásmundarstöðum. Gunnar var lengi sýnilegur í Íslandshestaheiminum sem hrossaræktandi og félagsmálamaður en hann lést árið 2019.

Markviss ræktun hófst þegar foreldrar mínir fjárfestu í frábærum ræktunarhryssum frá Stóra-Hofi sem fæddar voru í kringum 1990. Albert Jónsson aðstoðaði pabba við að velja sér hryssur frá Stóra-Hofi byggt á þekkingu hans á ræktunarlínum á Stóra-Hofi. Pabba líkaði vel við kraftmikla alhliða stóðhesta og þessar hryssur gáfu okkur mjög gott.“ Segir Maríanna Gunnarsdóttir sem nú heldur uppi ræktunarstarfinu að Árbæ ásamt móður sinni Vigdísi en saman eiga þau í kringum 60 gripi, reið- og ræktunarhross. Guðmundur Bæringsson ásamt fjölskyldu sinni hefur verið bústjóri í Árbæ frá árinu 1998 og í dag stunda þar tamningar Lárus Jóhann Guðmundsson, sonur Guðmundar, og sambýliskona hans Ásta Björnsdóttir.

Komu sér upp farsælum ræktunarhrossum

Seinna meir festu þau Gunnar og Vigdís kaup á helmingshlut í þremur hryssum á Feti þeim Vigdísi, Arndísi og Bringu. Þá áttu þau einnig stóðhestinn Keili frá Miðsitju „Pabbi heillaðist af Keili þegar hann sá hann 4. vetra og falaði hann af þeim Jóa og Sollu í Miðsitju og keypti hann svo í framhaldinu og hélt honum frammi sem afkvæmahesti. Það lukkaðist vel og hápunkturinn var þegar hann hlaut Sleipnisbikarinn á Landsmóti 2006.“

Geisli frá Árbæ stóð efstur í 6. vetra flokki stóðhesta á HM í Hollandi i sumar sýndur af Árna Birni Pálssyni. „Þetta var algjört ævintýri og stórkostlega gaman. Við höfðum ekki mikinn undirbúningstíma áður en náðum að selja hann áður en hann fór út. Hann var frábærlega vel þjálfaður af Lárusi og Árni Björn er algjör fagmaður sem þjálfaði hann einnig og sýndi svo listavel. Það að hann skyldi toppa sig á mótinu var magnað og gaman fyrir mömmu að fylgja þessu á eftir í stúkunni á mótinu.“

Geisli frá Árbæ og Árni Björn Pálsson Ljósmynd: Bert Collet

Eins og áður segir lést Gunnar árið 2019. Það er auðheyrt á Maríönnu að hún ber sterkar taugar til föður síns og ekki laust við að hún beygi af þegar blaðamaður Eiðfaxa spyr hana hvort hún finni fyrir honum þegar sigrar vinnast í hrossaræktinni. „Pabbi var með gott auga fyrir góðum hrossum og naskur á þetta og mamma er það líka. Pabbi hafði mjög sterkar skoðanir á því hvað hann vildi fá fram í sinni ræktun. Hann er alltaf með mér í þessu og hann kemur alltaf fyrstur upp í hugann á mér þegar að vel gengur í hrossaræktinni, hann er jarðaður hér kirkjugarðinum í Árbæ og ég fer reglulega til hans og segi honum frá hvernig gengur.“ 

 

Verona

„Ég eignaðist Veronu veturgamla en þá gáfu mamma og pabbi mér hana í þrítugsafmælisgjöf.“  Segir Maríanna sem er ákaflega stolt af þessu afreki að eiga Glettu bikarshafa. En það liggur beinast við að spyrja móður hennar, Vigdísi, hvernig því varð háttað að Verona varð til og af hverju hún var valinn sem gjöf til Maríönnu. „Við héldum móður Veronu, Vigdísi frá Feti, undir Aron frá Strandarhöfði og töldum þá pörun góða. Við áttum hlut í honum og hann var hér á Árbæ á okkar vegum það lá því beinast við að nota hann. Verona var strax gullfalleg sem folald, hún var það falleg að við ákváðum að gefa Maríönnu hana fullviss um það að hún myndi uppfylla hennar óskir um ræktunarhryssu til framtíðar.“

Verona frá Árbæ

 

Lestu viðtal við Maríönnu í Árbók Eiðfaxa sem kemur í verslanir á næstu dögum.

 

Árbók Eiðfaxa er afar efnismikil, hvorki meira né minna en 276 bls. Í henni eru umfjallanir í máli og myndum yfir allt það markverðasta af keppnis- og kynbótabrautinni á Íslandi árið 2023. Gera má ráð fyrir að Árbókin komi inn um bréfalúgur áskrifenda í upphafi nýs árs og verður hún í framhaldinu fáanleg í öllum helstu hestavöruverslunum. Ekki missa af Árbók Eiðfaxa!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar