Reiðhöll Sörla tímamótabygging
Laugardaginn 17.júlí var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri reiðhöll hestamannafélagsins Sörla. „Það var viðeigandi að taka fyrstu skóflustunguna á Íslandsmóti barna og unglinga því þessi bygging er skipulögð með framtíðina í huga. Á því móti sáum við afrakstur þess hversu mikið reiðhallir landsins hafa gert fyrir hestaíþróttina því keppendur á því móti eru kynslóðin sem alin er upp við það að hafa frábæra inniaðstöðu til æfinga.“ Sagði Atli Már Ingólfsson formaður Hestamannafélagsins Sörla í samtali við Eiðfaxa.
Tímamótabygging
Um glæsilegt mannvirki er að ræða en áformað er að áhorfendur geti setið inn í reiðhöllinni og horft út á völl og að eins verði skjól af henni fyrir áhorfendur í brekku.“Það eru til víða um land vel heppnaðar reiðhallir en við teljum okkur vera að taka þetta á næsta stig hvað varðar staðsetningu á húsinu. Hugmyndin er að þetta sé ekki bara hús til æfinga og kennslu heldur tengi einnig saman úti- og innisvæði. Það má segja að við höfum haft það að leiðarljósi að byggja ekki rangt hús á réttum stað, því hér í Hafnarfirði er tækifæri til þess að afnema bílamenninguna og að áhorfendur sitji þá annað hvort inn í reiðhöllinni með útsýni yfir keppnissvæði eða verði í brekkunni í góðu skjóli fyrir veðri og vindum.“ Segir Atli Már og bætir við. „Með skóflustunginni á laugardaginn lauk því löngu vinnuferli sem að hófst með því að koma hugmyndinni á framfæri við Hafnarfjarðarbæ og nú er komin staðfesting frá bænum að við séum að komast á framkvæmdarstig.“
Enn eitt framfaraskrefið í Hafnarfirði
Ágúst Bjarni Garðarsson er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar en hann sagði m.a. í samtali við Eiðfaxa um byggingu þessa. „Við horfum nú björtum augum til framtíðar og er þessi reiðhöll en eitt jákvæða skrefið sem við höfum tekið með íþróttastarf í Hafnarfirði í huga. Þessi bygging mun gjörbreyta íþróttastarfi Hestamannafélagsins Sörla. Við erum nú að klára lokahönnum og gerum ráð fyrir því að verkið verði boðið út á næstunni.“
Kanon arkitektar ehf, arkitektúrTeknik verkfræðistofa efh, burðarþol og lagnirTKM ehf, raflagna- og lýsingahönnunÖrugg verkfræðistofa ehf, bruna- og öryggishönnun og BIM stjórnHljóðvist ehf, hljóðvistarhönnun.
Ljóst er að reiðhöllin verður öll hin glæsilegasta og verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum og eins að fá að njóta mannvirkisins þegar það verður risið. Til hamingju Sörlamenn og hestamenn allir.
Hér fyrir neðan má sjá teikningar af mannvirkinu.