Rúmlega 13 milljarða uppsöfnuð fjárþörf til reiðvegamála

  • 16. mars 2023
  • Fréttir
Niðurstaða starfshóps um stöðu reiðvegamála

Haustið 2022 skipaði innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, starfshóp sem ætlað var að greina þörfina á fjármagni til reiðvegaframkvæmda til lengri tíma og vinna tillögur út frá þeim fyrir samgönguáætlun 2023-2037. Var starfshópnum ætlað að taka saman upplýsingar um stöðu reiðvegamála hér á landi, vinna og kostnaðarmeta tillögu að áætlun í reiðvegamálum til framtíðar.

Er það mat starfshópsins að reiðvegamál á Íslandi er málaflokkur sem hefur verið vanfjármagnaður til lengri tíma og því sé uppsöfnuð þörf fyrir auknar fjárveitingar til að koma þessum málum í sæmilegt horf. Voru helstu niðurstöður hópsins að áætlað heildarumfang við uppbyggingu reiðvegakerfisins miðað við stöðuna í dag nemur 13.570 milljónum króna.

Tillaga um 300 milljóna fjárveitingu á ári til uppbyggingar og viðhalds reiðvega

Gerir starfshópurinn tillögu um að gerð verði langtímaáætlun með það að markmiði að ná utan um verkefnið. Leggur hópurinn til að árleg fjárveiting verði 300 milljónir til að minnsta kosti næstu 5 ára. Árlegar fjárveitingar til reiðvegamála hafa verið 75 milljónir ef frá eru talin tvö síðustu ár þar sem 50 milljóna króna aukafjárveiting kom til í tengslum við Covid viðspyrnuaðgerðir stjórnvalda. Það er því ljóst að fjórfalda verður framlög til reiðvegamála á ári ef fara á eftir tillögum starfshóps ráðuneytisins.

Reiðvegir mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu og skila tugum milljarða í þjóðarbúið

Bendir starfshópurinn á að framlag hestamennsku og hestatengdrar ferðaþjónustu til þjóðarbúsins er mælt í milljörðum króna á ársgrundvelli sé litið til beinna gjaldeyristekna og afleiddra tekna. Í samantekt starfshópsins kemur fram að samkvæmt mælaborði Ferðamálastofu frá því í desember 2022 þá komu til landsins 1.696.785 erlendir ferðamenn á árinu 2022, þar af 91,2% í frí eða 1.547.697. Samkvæmt hagvísi hagfræðideildar Landsbankans þá er hver erlendur ferðamaður að eyða um 420.000 krónum að jafnaði í dvöl sinni hér á landi, sem gerir 649 milljarða króna á árs tímabili.

Samkvæmt mælaborði Ferðamálastofu þá koma 12% erlendra ferðamanna til landsins vegna hestaferða eða annarra viðburða tengdum hestamennsku. Samkvæmt framangreindu þá eru erlendir ferðamenn sem komu til landsins vegna hestaferða eða annarra hestatengdrar starfsemi um 185.000 árið 2022 og skapa þjóðarbúinu um 78 milljarða króna á ársgrundvelli. Á árinu 2023 er gert ráð fyrir 2,3 milljónum ferðamanna til landsins og gera spár ráð fyrir því að fjöldi ferðamanna á árinu 2025 fari yfir 3 milljónir.

Reiðleiðir og reiðstígar eru undirstaða hestamennsku og hestatengdrar ferðaþjónustu og er því að mati starfshópsins nauðsynlegt að byggja upp og viðhalda reiðstígum þannig að sómi sé að.

Reiðvegir hluti af þjóðararfinum og mikið öryggisatriði

Í samtali við Eiðfaxa sagði Guðni Halldórsson formaður LH að þó að niðurstaða starfshópsins væri nokkuð sláandi þá hafi okkur hestamönnum lengi verið ljóst að málaflokkurinn hafi verið fjársveltur og að mikið hafi vantað upp á fjármagn til reiðvegamála. Hann segist fagna því að ráðherra hafi látið ráðast í þessa vinnu og bindur vonir við verulegar breytingar þegar kemur að fjárveitingum til málaflokksins. Reiðvegir séu verðmætur hluti af þjóðararfinum og mikilvægur þáttur í því að hægt sé að ferðast um landið á hestum, en við eigum sem þjóð að vera stolt af þessari arfleifð okkar og stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að Íslendingar jafnt sem útlendingar geti, hér eftir sem hingað til, ferðast frjáls um landið á hestabaki. Þá bendir Guðni á að uppbygging reiðvega sé mikilvægt öryggismál enda mikilvægt að umferð ríðandi fólks verði færð frá þjóðvegum sem ætlaðir eru akandi umferð enda fer umferð vélknúinna ökutækja og hesta mjög illa saman. Þá telur Guðni rétt að haft sé í huga að hestaíþróttin sé í raun og réttu þjóðaríþrótt okkar Íslendinga frá fornu og í dag ein stærsta íþróttagrein landsins sé horft til fjölda iðkenda. Það ætti því að vera öllum kappsmál að ráða bót á þessum málum, enda um óverulegar upphæðir að ræða í samhengi við það sem að framan greinir.

„Við hestafólk teljum brýnt að stjórnvöld bregðist nú skjótt við og komi þessum málum í réttan farveg og auki við fjárveitingar til málaflokksins í samræmi við tillögur starfshóps ráðuneytisins“ segir Guðni að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar