Námskeið um skeið og skeiðþjálfun

FEIF stendur fyrir sameiginlegu námskeiði alþjóðlegra hestaíþróttadómara og reiðkennara 19.-20. mars 2022 á Lotushof í Þýskalandi.
Námskeiðið fjallar helst um skeið og skeiðþjálfun:
- Ferlið í rásbásunum og ræsingu
- Hvernig dæma á gæðingaskeið og þjálfun gæðingaskeiðs
- Nýjar og auðveldar leiðbeiningar og hagnýt notkun þeirra við þjálfun og við dómgæslu
- Fimmgangur – sérstök áhersla lögð á skeið og skeiðkennslu
Námskeiðið er á ensku og verður að mestu leiti verklegt. Bókleg kennsla íþróttadómara verður haldin á vefnum á öðrum dagsetningum og verður kynnt síðar.
Alþjóðlegir hestaíþróttadómarar og reiðkennarar innan FEIF matrixunnar eru í forgangi í skráningu. Aðrir sem hafa áhuga á að taka þátt geta skráð sig á biðlista og fá staðfestingu á sæti fyrir 15. febrúar.
Alþjóðlegir íþróttadómarar verða að mæta allavega einu sinni á alþjóðlegt dómaranámskeið á 3ja ára fresti áður en réttindi þeirra renna út og verða að hafa dæmt allavega 15 daga á WR móti á sama tímabili. Fyrir þá sem réttindin renna út í desember 2022 er þetta síðasta tækifærið til að endurnýja réttindin hafi þeir ekki endurnýjað þau fyrr.
Síðasti skráningardagur er 20. febrúar.
Námskeiðið verður endurgreitt ef það fellur niður vegna Covid-aðstæðna. Aðeins er endurgreitt ef skipuleggjendur fella námskeiðið niður.
Senda verður skráningarblaðið á skrifstofu FEIF office@feif.org