Samningur landsliðsþjálfara laus

  • 1. nóvember 2021
  • Fréttir

Sigurbjörn Bárðarson var ráðinn í starf landsliðsþjálfara í janúar árið 2018

Tímabundinn ráðningarsamningur landsliðsþjálfara rann út í dag

Fyrsta nóvember rann út ráðningarsamningur landsliðsþjálfara við Landssamband hestamannafélaga og er samningur hans því laus. Landssamband hestamanna hefur síðan í sumar staðið í stefnumótunarvinnu hvað varðar afreksmál og stefnu LH í þeim málum en í samtali við Eiðfaxa segir formaður LH, Guðni Halldórsson, slíka vinnu nauðsynlega. “Núverandi fyrirkomulag hefur verið í gildi í þrjú ár og alltaf er nauðsynlegt að vera í stöðugri þróun á þessum málum. Það var ráðin inn manneskja sem átti að leiða þetta verkefni en hún þurfti óvænt að segja sig frá því vegna annarra verkefna. Það tók smá tíma að finna nýjan aðila og hefur því þessi vinna tafist,” segir Guðni en vinnan flest með annars í því að skilgreina hlutverk og verkefni landsliðsþjálfara, landsliðsnefndar og landsliðshópa LH til framtíðar.

Landssambandið ætlar að taka sér tíma þangað til seinasta lagi í janúar á næsta ári að klára þessa vinnu og ráða síðan í kjölfarið þjálfara. “Það eru engin sérstök verkefni í gangi núna og verður því beðið með að ráða í stöðuna þangað til niðurstöður þessarar vinnu liggur fyrir. Starfslýsingin þarf að vera fullmótið áður en hægt er að ráða í starfið. Hvort að sami þjálfari verður ráðinn eða einhver annar er ekki ákveðið,” segir Guðni og verður því landsliðshópurinn óbreyttur eitthvað áfram. Vonast er til að hægt sé að tilkynna nýtt landslið og þjálfara öðru hvoru megin við áramótin en Guðni segir að LH ætli sér stóra hluti á Norðurlandamóti sem haldið verður í Finnlandi á næsta ári.

Endurnýjaður var ráðningarsamningur Heklu Katharínu Kristinsdóttur sem landsliðsþjálfari U21 landsliðsins. Metið var svo að starf yngri flokkanna væri það mikilvægt og utanumhaldið því talið nauðsynlegt. “Það eru minni breytingar á því starfi. Það er mikilvægt að halda utan um yngri flokka starfið og því heldur hún áfram sínu starfi. Það er ekki hægt að stoppa þá miklu vinnu sem er í gangi þar. Þetta er mótunarstarf sem þarf að vera í stöðugri vinnu,” segir Guðni að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar