Seint koma sumir en koma þó….

  • 19. mars 2021
  • Fréttir
Föstudagspistill Hinna Sig

Eitt af því sem hefur verið mest heillandi við minn feril gegnum tíðina er skortur á hæfileikum. Ég hef aldrei haft það í mér að vera það sem er kallað ”náttúrutalent” á hestbaki, eða getað skrifað töfrandi texta þar sem orðin bara flæða fram eins og okkar flinkustu rithöfundar gera, eða haft náttúrulega nærveru og sjarma til þess að töfra fram stemningu gegnum skjáinn eða á sviði…

Ég er bara ósköp venjulegur gaur, það sem í besta falli er hægt að kalla meðalmaður. En samt er það þannig að ég fæ að sitja hér og tala til ykkar hestamanna, hópsins sem ég lít svo upp til og hef svo gaman að í hverri viku, ja eða næstum því.

Eftir smá pásu vegna anna er ég sestur aftur allavega og hripa saman smá föstudagsspjall.

Eftir þennan inngang langar mig aðeins að spjalla áfram um það að búa sér til sinn eigin veg, því ég fékk mikið af spurningum og spjalli um það þegar ég byrjaði að skrifa aðeins um þetta efni um daginn.

 

Mig langar aðeins að skýra út nokkra hluti.

Í fyrsta lagi er það þannig að öll erum við eins og listmálarar sem erum að búa okkur til eitthvað verk sem lífið okkar er, og við ættum að fara ansi varlega með að lána pensilinn okkar og bjóða öðrum að lita í verkið.

Ég er ekki neinn sérfræðingur í efninu en mikill áhugamaður um hugarþjálfun eins og margir vita, og hef verið að að birta föstudagspistlana mína þar sem ég lána út ”gleraugun” mín og kannski hjálpar það einhverjum að sjá sína hluti öðruvísi.

En aftur að efninu, það sem við einbeitum okkur að það vex og dafnar. Maður segir að framrúðan á að vera stærri en baksýnisspegillinn.

Fókus á þá hluti sem við viljum og ætlum okkur er lykillinn að því að komast eitthvað áleiðis. Þar með er ekki sagt að við eigum að hundsa allt sem var, við getum skoðað til baka, lært af því og haldið svo áfram en við skulum varast að láta það sem áður hefur verið skilgreina hvað verður.

Maður getur sagt að ef bolti kemur rúllandi framhjá okkur, þá eru margir sem líta til baka og athuga hvaðan hann kemur, ég held að ég sé einn af þeim sem reynir að sjá hvert hann er að fara.

Æfingin skapar meistarann.

Við verðum góð í öllu sem við æfum og leggjum tíma í að gera. Við verðum því að velja viturlega hvað við eyðum tímanum okkar í.
Ég þekki fólk sem er alveg snillingar í að stressa sig á öllu mögulegu, og ég held það þurfi fjölda ára þjálfun í því að vera svona stressaður, snýst allt um æfingu.

Þarna vill ég meina að þegar kemur að því að þjálfa hestana okkar skiptir alveg gríðarlegu máli að vera vandvirk(ur) og velja rétt. Ef við til dæmis ríðum af stað á hægu tölti, reynum að finna hvort þetta sé tölt sem er þess virði að eyða tíma í að þjálfa… Er hesturinn spennulaus, er takturinn hreinn, er hann léttur ? Ef svarið er ”já þetta er nokkuð gott” þá er um að gera að halda áfram og leyfa hestinum að æfa sig þar. Ef nei, hann er spenntur, eða leggst á annan tauminn eða hvað sem er… Í guðanna bænum ekki halda áfram að æfa það J

Því hesturinn eins og við verður góður í því sem hann fær að æfa.

Ég er alls ekki að meina að það þurfi að líta út eins og þið séuð að fara í braut á Íslandsmóti í hverjum þjálfunartíma, alls ekki. Bara að finna ”Er þetta nógu gott svo ég geti gert eitthvað úr þessu” og þá er það bara að æfa.

Gildi

Hvernig hestamaður/kona vill ég vera?

Þetta er svolítið áleitin spurning og kannski aldrei eins mikilvæg eins og nú. Það er mikil umræða úti í hestageiranum um hinar ýmsu aðferðir við þjálfun, sem eru kallaðar allskonar nöfnum og það eru að koma alls konar áhrif inn í hestamennskuna okkar víða að.

Sem er auðvitað alveg frábært, og lærdómsríkt. En það er mikilvægt að hver hestamaður skoði sín gildi í hestamennskunni og standi fyrir þeim.

Ég persónulega eyði öllum þeim tíma sem ég mögulega get til þess að læra meira um reiðmennsku, reiðkennslu og hugarþjálfun.

Fæ mikið af tækifærum til þess að fræðast, hitti fólk á öllum stigum hestamennskunnar og fæ að ræða við þau um þessi hugarefni allt frá byrjendum og upp í atvinnumenn í greininni, kollega í kennslunni og þjálfara í hinum ýmsu íþróttum.

Ég hef því bæði mótað mín gildi í íþróttinni mikið, og stend við þau eins vel og geta mín leyfir. Og ég reyni að bæta mig á hverjum einasta degi við tæknina, tilfinninguna og samskiptin við nemendurna. Reyni að skila efninu skilmerkilega frá mér, á mannamáli og á því stigi sem nemandi minn er hverju sinni.

Í 20 ár hef ég verið mjög einbeittur við að slípa þessa hluti og þess vegna fæ ég tækifærið núna til þess að tala til þín, þrátt fyrir skort á hæfileikum á hinum ýmsu stigum á leiðinni.

Ég hef alveg hrikalega gaman að því, og ég segi því hér með.

Ef þú missir af markmiðinu þínu einhversstaðar, ef þú ferð útaf sporinu þínu og átt í basli með að finna það, ef þú þarft spark í afturendann til þess að finna leiðina aftur, þá er ég hérna og allir þeir frábæru kennarar og fagfólk sem við eigum í greininni okkar, við tökum ekki ábyrgð á því að þér takist það, við bara hjálpum þér að bera farangurinn á rétta leið.

En þú verður að gera djobbið, þú verður að sjá hvert boltinn er að fara, vera klár á þínum eigin gildum,  og þú verður að leggja tímann í að æfa það annars áttu ekki skilið að ná árangrinum!!

Eigið geggjaða helgi og ríðið vel.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<