Sigfús í Vestra-Geldingaholti látinn

  • 3. ágúst 2025
  • Andlát

Sigfús Guðmundsson bóndi, hestamaður og hrossaræktandi í Vestra-Geldingaholti er látinn. Hann var fæddur þann 22.október árið 1941 en varð bráðkvaddur 27. júlí síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona hans er Rosemarie Brynhildur og saman eiga þau fjögur börn.

Sigfús lagði mikið af mörkum til hestamennskunnar og þá ekki síst í gegnum reiðskólann í Vestra-Geldingaholti sem hann rak í áratugi ásamt Rosemarie. Fjöldi barna komst þar í kynni við hesta og hestamennsku og mörg þeirra urðu síðar meir afkastamiklir knapar og afreksfólk.

Hann var sýnilegur í keppni og náði oft góðum árangri og mun lifa í sögubókum sem fyrsti Íslandsmeistarinn í tölti, því hann stóð efstur í þeirri grein á Íslandsmóti árið 1978 á hesti sínum Þyt frá Hamarsheiði. Hann náði góðum árangri í ræktun og frægust hrossa úr ræktun fjölskyldunnar í Vestra-Geldingaholti eru stóðhestarnir Nökkvi og Hrafnfaxi sem báðir hlutu háan einstaklingsdóm og hlotið hafa afkvæmaverðlaun. Þá sinnti Sigfús einnig ýmsum félagsstörfum fyrir hestamenn í hestamannafélagi sínu Smára (Jökli) og var formaður Rangárbakka um tíma.

Eiðfaxi vottar fjölskyldu Sigfúsar samúðar með fráfall hans, minningin lifir um góðan hestamann.

Sigfús og Þytur frá Hamarsheiði

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar