Hestamannafélagið Sleipnir Sigursteinn Sumarliðason knapi ársins hjá Sleipni

  • 16. nóvember 2025
  • Fréttir
Á uppskeruhátíð Sleipnis þann 15.nóvember s.l. var Sigursteinn Sumarliðason veitt viðurkenningin Knapi ársins hjá Sleipni annað árið í röð.
Sigursteinn hefur átt gott ár og sýnt mikla færni með þá Krókus frá Dalbæ og Liðsauka frá Áskoti.
Segja má að árið hjá Sigursteini einkenndis af hraða, þar sem hann keppti að stærstum hluta einungis í skeiðgreinum. Á þeim fjölmörgu mótum sem Sigursteinn keppti á sigraði hann 250 m skeið á WR íþróttamóti Sleipnis á Krókusi frá Dalbæ og með Liðsauka tryggði hann sér 2.sætið í 250 m skeiðí á WR íþróttamóti Geysis.
Í ágúst héldu Sigursteinn og Krókus leið sína til Sviss þar sem þeir kepptu fyrir Íslands hönd í 250 og 100 m skeiði. Þar náðu þeir glæsilegum árangri og urðu tvöfaldir silfurhafar í báðum þessum greinum.
Knapi ársins í flokki áhugamanna var valin Soffía Sveinsdóttir en hún hlaut viðurkenninguna þriðja árið í röð. Á þeim fjórum stórmótum utan húss sem hún keppti á reið hún til A úrslita í 1.flokki á þeim öllum og átti hún einnig góðu gengi að fagna í suðurlandsdeildinni en þar sigraði hún slaktaumatölt áhugamanna. Á opna WR íþróttamóti Geysis stóðu hún og Skuggaprins frá Hamri efst eftir forkeppni í T3 með einkunina 6,87 sem jafnframt varð hæðsta einkunn þeirra á árinu í T3 1.flokki.
Knapi ársins í flokki ungmenna var valin Védís Huld Sigurðardóttir. Védís átti einstakt ár og sýndi svo sannarlega hvað þrotlaus vinna og eljusemi getur skilað sér. Hún keppti á fjölmörgum mótum með frábærum árangri, en það sem stendur upp úr er að hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari í tölti og fjórgangi ungmenna hér á heimavelli og toppaði svo árið með því að tryggja sér tvöfaldan heimsmeistaratitil á Ísaki frá Þjórsárbakka í sömu greinum.
Gæðingaknapi ársins: Guðmunda Ellen Sigurðardóttir
Það fór lítið fyrir gæðingakeppninni á árinu sem vill gerast þegar það er ekki landsmótsár. Það vekur okkur til umhugsunar að ekki náðist þátttaka á gæðingamótið hjá Sleipni í tvígang. Hvað eigum við að gera til að halda gæðingakeppninni á lofti þegar ekki er landsmótsár. En það er eitthvað sem við verðum að hugsa þegar við leggjum af stað inn í árið 2027.
Það voru nú samt örfá mót á árinu þar sem Sleipnisfélagi tók þátt í gæðingakeppni. Þar stendur klárlega uppúr að Guðmunda Ellen keppti á feikna sterku gæðingamóti í sumar á Flúðum á hesti sínum Flaumi frá Fákshólum. Þar hlutu þau hvorki meira né minna en 8,70 í aðaleinkunn í forkeppni. Þau hafa átt mjög farsælan feril saman í íþróttakeppninni og verður spennandi að fylgjast með þeim á næsta ári. Þessi einkunn gefur til kynna að það er margt sem býr hjá þessu pari og auðvitað vonumst við eftir að sjá þau í úrtökunni í vor.

Guðmunda Ellen og Glódís Rún voru því miður fjarverandi en Anna Björg Níelsdóttir veitti verðlaunum Glódísar viðtöku.

Íþróttaknapi ársins: Glódís Rún Sigurðardóttir
Íþróttaknapi ársins er keppnisreyndur knapi og keppti á öllum sterkustu mótunum í ár með fyrirmyndar árangri. Á Reykjavíkurmeistaramótinu reið hún þrenn A-úrslit í meistaraflokki, á WR íþróttamóti Sleipnis reið hún tvenn A-úrslit og á Íslandsmótinu varð hún í 3.sæti í fimmgangi á Snillingi frá Íbishóli.
Glódís Rún var í landsliðinu sem fór fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótið í Swiss. Þar þreytti hún frumraun sína í fullorðinsflokki en hún var ríkjandi heimsmeistari í fimmgangi ungmenna. Glódís Rún og Snillingur frá Íbishóli náðu í A-úrslit í fimmgangi í feikna sterkri keppni og enduðu þar í 5.sæti.

Elísabet Sveinsdóttir og Ástvaldur Draupnisson Félagar ársins 2025

Viðurkenningin Félagi ársins er veitt þeim sem hafa sýnt óeigingjarna þátttöku og verið öðrum hvatning. Sjálfboðaliðar eru hjartað í starfsemi Sleipnis og lykillinn að því að tryggja framtíð félagsins. Með þeirra framlagi byggjum við upp sterkt samfélag sem heldur áfram að vaxa og dafna.

Við hjá Sleipni viljum nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem hafa lagt félaginu hjálparhönd í gegnum árin – án ykkar væri félagið ekki það sem það er í dag.
Í ár var okkur sönn ánægja að tilkynna að tveir einstaklingar hlutu titilinn Félagi ársins 2025.
Við óskuðum eftir ábendingum frá félagsmönnum og varð það fljótt ljóst hverja félagar Sleipnis vildu útnefna sem Félagar ársins.
Stjórn hestamannafélagsins Sleipnis heiðraði einn af fremstu afrekshestum sem komið hefur úr ræktun og eigu Sleipnisfélaga – hinn magnaða Krókus frá Dalbæ. Krókus hefur hlotið fleiri viðurkenningar hjá Sleipni en nokkur annar hestur í sögu félagsins.
Árið 2014 varð hann hæst dæmdi kynbótahestur úr ræktun Sleipnisfélaga og hlaut Ræktunarbikar Sleipnis með 8,19 fyrir byggingu, 8,90 fyrir hæfileika (þar af 10 fyrir skeið) og í aðaleinkunn 8,60.
Á árunum 2014-2018 vann Krókus fjórum sinnum hinn virta Sleipnisskjöld sem er ein elsta og æðsta viðurkenning félagsins og jafnaði þar með sigurgöngu Þyts frá Kálfhóli.
Árið 2019 var hann aðeins hársbreidd frá sigri og endaði í 2.sæti á þriðja aukastaf.
Krókus keppti tvisvar á Landsmóti hestamanna í A-flokki (2016 og 2018) og komst í A-úrslit í bæði skiptin. Síðustu ár er hann ekki aðeins þekktur sem afburða gæðingur heldur einnig sem einn hraðskreiðasti skeiðhesturinn, auk þess sem hann hefur sannað sig í Slaktaumatölti. Hann sameinar kraft, reisn, rými og fegurð – allt sem við dáum við íslenska hestinn.
Frá 2019 til dagsins í dag hefur Krókus verið með bestu tíma hests í eigu Sleipnisfélaga í 100 og 250 m skeiði, annað hvort í báðum greinum eða annarri.
Árið 2024 urðu Sigursteinn og Krókus Íslandsmeistarar í 250 m skeiði og í 2 sæti í 100 m skeiði.
Til að toppa frækinn keppnisferil kepptu þeir fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramóti Íslenska hestsins í Sviss síðastliðið sumar og unnu til silfursverðlauna bæði í 100 og 250 m skeiði á frábærum tímum – sannarlega magnaður árangur.
Við hjá Sleipni þökkum Ara, Ingunni og Sigursteini fyrir að hafa ávallt komið fram í nafni Hestamannafélagsins Sleipnis og leyft okkur, unnendum íslenska hestsins, að njóta þess að sjá sannan íslenskan gæðing.
Ræktunarbikar Sleipnis er gefinn hæðst dæmda kynbótahrossinu á árinu sem ræktað er af Sleipnisfélaga.
Ræktunarbikar Sleipnis árið 2025 hlaut Daníel Ingi Larssen fyrir Börk frá Kráku.
Börkur frá Kráku er undan Viðari frá Skör og Brák frá Baldurshaga. Börkur er 5 vetra og fór í 8,95 fyrir hæfileika á vorsýningunni á Rangárbökkum þar sem hann hlaut meðal annars sex 9ur. Börkur hlaut 8,54 fyrir sköpulag sem gerði 8,81 í aðaleinkunn.
Daníel Ingi þjálfaði sjálfur hestinn en Viðar Ingólfsson sýndi.
Bergur Jónsson hlaut viðurkenningu fyrir Drang frá Ketilsstöðum sem varð heimsmeistari í flokki 6 vetra stóðhesta.
Árangur sem er enn ein rós í hnappagatið fyrir þá stórkostlegu ræktun sem Bergur og Olil hafa byggt upp í gegnum árin. Á dögunum fengu þau einnig viðurkenninguna sem ræktendur ársins á uppskeruhátíð Landssamband hestamanna í sjöunda sinn geri aðrir betur !
Slíkur árangur í ræktun er ekki aðeins persónulegur sigur þeirra heldur með vinnu sinni leggja þau grunn að næstu kynslóðum hesta sem munu halda áfram að gleðja knapa og áhorfendur um allan heim.

Védís Huld hlaut viðurkenningu fyrir einstakt afrek – að verða tvöfaldur heimsmeistari í fjórgangi og tölti ungmenna. Með þessum glæsilega árangri hefur Védís staðfest stöðu sína enn frekar meðal fremstu ungmenna í hestaíþróttum á heimsvísu og orðið öðrum hvatning og innblástur. Við hjá Sleipni erum stolt af því að veita Védísi þessa viðurkenningu og óskum við henni enn og aftur hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.

 

Védís Huld Sigurðardóttir fór heim klifjuð verðlaunum. Védís Huld var valin knapi ársins í ungmennaflokki ásamt því að hún átti besta tíma Sleipnisfélaga í 150 m skeiði.
Védís keppti á fjölda móta í ár með framúrskarandi árangri. Upp úr stendur tvöfaldur Íslandsmeistaratitill í fjórgangi og tölti ungmenna og tvöfaldur heimsmeistaratitill í fjórgangi og tölti ungmenna á Ísaki frá Þjórsárbakka.
Sleipnir veitti jafnframt Védísi Huld viðurkenningar fyrir Íslands- og heimsmeistaratitla.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar