Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
Það er gríðarlegt ánægjuefni að tilkynna að gengið hefur verið frá áframhaldandi ráðningu Sigvalda Lárus Guðmundssonar, til tveggja ára, sem yfirþjálfara Hæfileikamótunar LH, en hann hefur sinnt starfinu undanfarin ár við frábæran orðstír. Sigvaldi mun því áfram bera ábyrgð á kennslu og utanumhaldi í Hæfileikamótun LH og hafa með sér aðstoðarþjálfara úr efstu hillu íþróttarinnar hverju sinni á vinnuhelgum hópanna. Sigurbjörn Eiríksson formaður landsliðsnefndar og Sigvaldi Lárus hafa undirritað samning þess efnis.
Mikil aðsókn er í Hæfileikamótun LH, en rétt um 60 umsóknir bárust frá áhugasömum unglingum. Verða tveir hópar starfrækir þetta árið líkt og undanfarin ár. Valteymi Hæfileikamótunar LH vinnur nú í því að fara yfir allar umsóknir og umsækjendur mega gera ráð fyrir því að fá svar við umsókn sinni eftir komandi helgi.
Dagskrá Hæfileikamótunar LH verður að venju metnaðarfull og spennandi þar sem lykiláhersla er lögð á íþróttina og knapa sem íþróttafólk. Knapar fá aðstoð og fræðslu við skipulag þjálfunar, verklega kennslu og utanumhald ásamt því að kynnast afreksumhverfi íþróttarinnar.
Dagskráin hefst á helgarheimsókn að Hólum, þar sem iðkendur fá kennslu og kynningu á skólanum, verja helgi saman á ferðalagi með gistingu og öllu sem því tilheyrir, en hóparnir fara á Hóla eftirfarandi helgar:
- Eldri hópur: 15.-16. nóvember
- Yngri hópur: 29.-30. nóvember
Frekari fréttir af starfinu og dagskrá þess verða birtar þegar starfið hefst og umsækjendur eru beðnir að fylgjast vel með í næstu viku þegar umsónum verður svarað.
LH hlakkar til áframhaldandi samstarfs við Sigvalda Lárus og að fylgjast með framvindu okkar efnilegustu knapa í unglingaflokki.
www.lhhestar.is
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
Minningarorð um Ragnar Tómasson