Sjö stóðhestar gætu hlotið 1.verðlaun fyrir afkvæmi

  • 8. september 2025
  • Fréttir

Útherji stendur efstur í aðaleinkunn kynbótamatsins af þeim stóðhestum sem líklegir eru til 1.verðlauna fyrir afkvæmi í haust. Knapi á honum er Jóhanna Margrét Snorradóttir

Fjórir af þeim staðsettir á Íslandi

Hér á Eiðfaxa sögðum við frá því að allt stefndi í það að þrír stóðhestar hlytu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í haust en það voru þeir Hreyfill frá Vorsabæ 1, Þráinn frá Flagbjarnarholti og Herkúles frá Ragnheiðarstöðum.

Í hópi þeirra sem eiga von á því að verða heiðraðir fyrir 1.verðlaun fyrir afkvæmi eru stóðhestarnir alls sjö talsins og fjórir af þeim eru staðsettir á Íslandi. Eru það eftirtaldir stóðhestar í stafrófsröð: Fimur frá Selfossi, Dofri frá Sauðárkróki, Jökull frá Rauðalæk, Skinfaxi fra Lysholm, Útherji frá Blesastöðum, Vákur frá Vatnsenda og Vökull frá Efri-Brú. Til þess að hljóta 1.verðlaun fyrir afkvæmi þurfa stóðhestarnir að eiga 15 dæmd afkvæmi í fullnaðardómi og vera með 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins eða 118 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Útreikningar fyrir kynbótamat í haust er líklegt til að birtast nú á haustdögum og þá kemur endanlega í ljós hvort þessir stóðhestar nái þessum heiðri.

Fimur frá Selfossi er 13.vetra gamall ræktaður af Erlingi Erlingssyni og Christinu Lund en Erlingur er eigandi ásamt Lizu Lantz. Fimur er undan Frakki frá Langholti og Grýlu frá Gillastöðum. Hann á nú 15 dæmd afkvæmi og er aðaleinkunn hans í kynbótamati 118 stig en 124 í aðaleinkunn án skeiðs. Fimur er staðsettur í Svíþjóð

Erlingur Erlingsson og Fimur frá Selfossi

Dofri frá Sauðárkróki er 13.vetra gamall, ræktandi hans og eigandi er Stefán Öxndal Reynisson. Dofri er undan Hvítserki frá Sauðárkróki og Dimmblá frá Sauðárkróki. Hann á nú 15 dæmd afkvæmi í fullnaðardómi og stendur með 121 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins án skeiðs og 114 stig í aðaleinkunn.

Dofri frá Sauðárkróki og Bjarni Jónasson á Landsmóti í Reykjavík árið 2018

Jökull frá Rauðalæk er 13.vetra gamall, ræktendur eru Takthestar ehf og Helga Una Björnsdóttir en eigendur eru Freyðir ehf og Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal. Jökull er undan Hrímni frá Ósi og Karítas frá Kommu. Hann á nú 15 dæmd afkvæmi og er aðaleinkunn hans í kynbótamati 116 stig en 127 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Jökull er staðsettur í Þýskalandi.

Jökull frá Rauðalæk og Guðmundur Björgvinsson á Landsmóti í Reykjavík árið 2018

Skinfaxi fra Lysholm er 13.vetra gamall og er eini stóðhesturinn sem ekki er ræktaður á Íslandi en hann er fæddur og staðsettur í Danmörku. Ræktandi og eigandi er Lis Lysholm Falck. Faðir Skinfaxa er Kiljan frá Steinnesi og móðir er Sæla frá Þóreyjarnúpi. Skinfaxi á 15 dæmd afkvæmi og er með 123 í aðaleinkunn kynbótamatsins og 118 stig í aðaleinkunn án skeiðs.

Skinfaxi from Lysholm og Søren Madsen

Útherji frá Blesastöðum 1A er 11.vetra gamall, ræktandi hans er Magnús Trausti Svavarsson en eigendur eru Bragi Guðmundsson, Sveinbjörn Bragason , Valgerður Þorvaldsdóttir og Þórunn Hannesdóttir. Faðir Útherja er Framherji frá Flagbjarnarholti og móðir er Blúnda frá Kílhrauni. Útherji á 18 afkvæmi með fullnaðardóm og er með 124 stig í aðaleinkunn og 130 stig í aðaleinkunn án skeiðs.

Útherji frá Blesastöðum 1A og Ævar Örn Guðjónsson á Landsmóti í Reykjaví kárið 2018

Vákur frá Vatnsenda er 15.vetra gamall, ræktandi hans er Þorsteinn Hjaltested en eigandi af Hafliði Þ. Halldórsson. Vákur er undan Mídasi frá Kaldbak og Dáð frá Halldórsstöðum. Vákur á 17 afkvæmi með fullnaðardóm og stendur nú með 108 stig í aðaleinkunn og 118 stig í aðaleinkunn án skeiðs.

Vákur frá Vatnsenda og Ragnhildur Haraldsdóttir

Vökull frá Efri-Brú er 16.vetra gamall. Ræktandi hans er Böðvar Guðmundsson en eigendur eru Hestar ehf og Hafsteinn Jónsson. Faðir Vökuls er Arður frá Brautarholti og móðir er Kjalvör frá Efri-Brú. Vökull á 15 dæmd afkvæmi og er með 119 stig í aðaleinkunn og 126 stig í aðaleinkunn án skeiðs.

Vökull frá Efri-Brú og Ævar Örn Guðjónsson

Þetta eru þeir stóðhestar sem samkvæmd núverandi kynbótamati ná lágmörkum til 1.verðlauna fyrir afkvæmi, nú er að bíða og sjá hvað nýjustu útreikningar skila mörgum þeirra til afkvæmaverðlauna.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar