Skagfirðingur hlýtur æskulýðsbikar LH 2025
Unnur Rún Sigurpálsdóttir, yfirreiðkennari Skagfirðings
Hinn eftirsótti Æskulýðsbikar Landsambands hestamannafélaga er árlega veittur því félagi sem hefur skarað fram úr í æskulýðsstarfi á liðnu ári. Valið byggir, eins og áður, á innsendum æskulýðsnefndaskýrslum, og er það æskulýðsnefnd LH sem hefur það verkefni að velja handhafa bikarsins. Bikarinn hefur verið afhentur frá árinu 1996 og er ein æðsta viðurkenning sem félögin geta hlotnast fyrir æskulýðsstarf sitt. Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar – því unga kynslóðin er framtíð greinarinnar.
Í ár bárust æskulýðsnefnd LH þrettán vandaðar og metnaðarfullar skýrslur. Það er alltaf ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytt og öflugt starf fer fram hjá félögunum um allt land. Félögin leggja áherslu á æfingar og námskeið, félagslíf og þátttöku barna – bæði með og án hesta. Sérstaklega gleður okkur að sjá fjölgun félagshesthúsa, sem gera fleiri börnum kleift að njóta hestamennskunnar – jafnvel þó þau hafi ekki eigið bakland í greininni. Sama má segja um vaxandi áhuga félaganna á hestafimleikum, sem gefa börnum tækifæri til að kynnast hestinum á sínum forsendum og krefjast jafnframt fárra hesta.
Einnig er ánægjulegt að sjá fleiri félög bjóða upp á heilsvetrardagskrá og sýningar þar sem æskan fær að njóta sín og sýna það sem hún hefur lært.Það er ávallt vandasamt verkefni að velja handhafa bikarsins. Tekið er mið af stærð félagsins, fjölbreytileika starfsins og því bolmagni sem raunverulega liggur að baki.
Í ár valdi nefndin félag sem hefur sýnt mikinn metnað, frumkvæði og elju í starfi sínu. Félagið stendur fyrir fjölmörgum viðburðum allan veturinn og fram á sumar, býður upp á getuskipt námskeið fyrir börn allt niður í tveggja ára aldur, og leggur áherslu á að öll börn fái að blómstra – hvort sem þau eru nýliðar, áhugaknapar eða keppnisknapar. Þau standa fyrir glæsilegri æskulýðssýningu, þar sem ungir knapar fá að sýna sig og hestinn sinn, og halda uppskeruhátíð fyrir æsku félagsins. Þau eru einnig dugleg til fjáröflunar, því slíkt starf kostar bæði tíma, elju og útsjónarsemi. Starfið einkennist af jákvæðni, samstöðu og sterkri framtíðarsýn.
Sérstaklega vakti athygli frumleg lausn félagsins á félagshesthúsi, þar sem börnin fengu að kynnast í verki þeirri ábyrgð sem fylgir því að halda hesta og sjá til þess að þeim líði vel. Félagið sendi inn vandaða, 17 blaðsíðna skýrslu, telur rúmlega 600 félagsmenn, og byggist á sterkum grunni eldri félaga sem sameinuðust árið 2016.
Skagfirðingur sendi inn vandaða 17 blaðsíðna skýrslu sem lýsir vel metnaðinum sem er í æskulýðsstarfinu hjá félaginu.
Til hamingju, Skagfirðingar!

Eygló Gunnlaugsdóttir, formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings og Unnur Rún Sigurpálsdóttir yfirþjálfari Skagfirðings veittu bikarnum móttöku úr hendi formanns æskulýðsnefndar LH, Dagbjörtu Huldu Guðbjörnsdóttur, með þeim á myndinni er formaður LH Linda Björk Gunnlaugsdóttir.
Skagfirðingur hlýtur æskulýðsbikar LH 2025
Minningarorð um Ragnar Tómasson