Skiptir máli hver það er sem fremur brotið?

  • 18. maí 2021
  • Fréttir

frá keppni í skeiðkappreiðum

Niðurstaða aganefndar, þar sem fjallað var um uppfærðar skýrslur yfirdómnefnda Metamóts og Skeiðleika 2, hlýtur að hringja háværum viðvörunarbjöllum í eyrum margra um það lagaumhverfi sem að hestaíþróttir eru bundnar við. Á báðum þessum mótum voru framin brot á keppnisreglum LH og FEIF er varða þátttöku tveggja knapa sem kepptu á sama hesti annars vegar í 150m skeiði og hins vegar  250m skeiði. Í lögum og reglum LH, nánar tiltekið reglu 8.8.17, segir:
Par sem keppir í P1/250 m skeiði má ekki keppa í P3/150m skeiði.

Niðurstaða aganefndar er þó sú að vísa skuli málunum frá þar sem að yfirdómnefnd tekur ekki afstöðu til brotanna, heldur færir einungis inn í skýrslu tilkynningu þess efnis að keppendurnir, Frederica Fagerlund og Sigurbjörn Bárðarson, hafi keppt á sama hesti í áður nefndum greinum. Það skýtur þó ansi skökku við þegar rýnt er í sambærileg eldri mál aganefndar frá árunum 2005 og 2007, en í aganefnd sitja sömu aðilar í dag og fjölluðu um þau mál og felldu úrskurði í þeim. Skoðum þessi eldri mál.

Mál nr.2/2005, Mette Moe Mannseth mætti ekki til keppni og tilkynnti ekki forföll. Aganefnd vísar málinu frá á þeim forsendum að yfirdómnefnd hafi ekki tekið afstöðu til brotsins með gulu eða rauðu spjaldi.

Yngra mál nr.1/2007. Þorbjörn Hreinn Matthíasson mætti ekki til keppni og tilkynnti ekki forföll, aganefnd úrskurðar Þorbjörn í mánaðar keppnisbann og rautt spjald að auki. Aganefnd tekur jafnframt fram að keppandinn hafi ekki fengið gult eða rautt spjald á staðnum og hnykkir svo á með orðunum Við slíku agabroti skal veita rautt spjald og eins mánaðarkeppnisbann.“

 Í báðum þessum tilfellum er skýrsla yfirdómnefndar eins, þ.e.a.s. brotin eru tilgreind í skýrslu en viðurlögum ekki beitt á staðnum. Nú spyr maður sig, eftir hverju vinnur aganefnd og hvað er rétt og hvað er rangt í þessum niðurstöðum?

Í ljósi nýjustu dóma þar sem að aganefnd vísar tveimur málum frá út af formgöllum sem að áður höfðu ekki skipt máli þá hljóta þau að vera talin ekki jafnalvarleg og í máli nr.1/2007, þar sem ekki er mætt til keppni og keppandi hlýtur engan skráðan árangur af mótinu og hefur þar af leiðandi engin áhrif á úrslit mótsins eða stöðulista.

Í þeim málum sem tekin voru fyrir í ár standa nú eftir löglegir tímar og tveir af þeim með þeim bestu í heimi árið 2020, fengnir með skjalfestu og viðurkenndu broti af hálfu keppenda, og hafa þ.a.l. áhrif á úrslit mótanna og á stöðulista í viðkomandi greinum.

Einhverra hluta vegna virðist það vera svo að þau lög sem að sett hafa verið af hálfu LH og alþjóðasamtaka FEIF geti ekki komið í veg fyrir að þessi úrslit standi, þó þau séu fengin með ólöglegum hætti. Hvar stöndum við þá? Jú við erum á þeim stað að svo lengi sem að yfirdómnefnd gerir ekki athugasemd í skýrslu og tekur á málinu á staðnum, þá standa úrslit mótsins óhögguð burt séð frá því hvað fór þar fram. Þá er líka hægt að hugsa með sér, skiptir máli hver það er sem fremur brotið?

Höfundur er áhugamaður um hestaíþróttir

Jón Þorberg Steindórsson

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<