„Skítadreifarar eru góðir til að bera skít á tún en þess utan má alveg gefa þeim frí“

  • 7. nóvember 2022
  • Fréttir
Óviðeigandi samskipti er vandamál sem þarf að uppræta bæði meðal hestamanna og annarsstaðar í íþróttahreyfingunni

63. Landsþing hestamannafélaganna fór fram um helgina. Á föstudaginn var farið yfir skýrslu stjórnar og í kjölfarið hélt formaður LH, Guðni Halldórsson, stutta en kröftuga ræðu.

Guðni Halldórsson, formaður LH

Í henni greip hann m.a. á samskiptum innan hreyfingarinnar og hvernig hestamenn þurfa að fara bæta sig í þeim efnum. Erfitt reynist að fá fólk til starfa innan hreyfingarinnar þar sem fólk hræðist slæmt umtal, ærumissi og skítkast. Í aðdraganda landsþingsins hafði Guðni samband við fjölda fólks til að hvetja það til að bjóða sig fram til stjórnar LH en margir treystu sér ekki í verkið og var ein ástæða sem kom of oft upp og var það illt umtal.

Ein ástæða kom þó of oft upp, en það var ótti við illt umtal og ótti við að fá á sig óvægna gagnrýni fyrir störf sín. Eðlilega er fólk lítið spennt fyrir því að leggja á sig félagsstörf í sjálboðastarfi ef það þarf svo í ofanálag að hafa áhyggjur af skítkasti og jafnvel ærumissi. Fyrir mér er þetta stórt og mikið mál og í raun áfall að heyra að fólk veigri sér við að vinna fyrir samtök eins og LH af þessum sökum.“

Guðni sjálfur hefur ekki farið varhluta af þessu og nefndi tvö dæmi þar sem hann fær beinar og óbeinar hótanir sem beinast að heilsu hans, æru eða starfsheiðri fyrir það eitt að hafa tekið að sér að vera í forsvari fyrir íþróttasamtök.

„Ég tek hér tvö örstutt dæmi um aðstæður sem hver og einn getur sett sig inn í. Ég var með fólk í mat heima hjá mér, nánar til tekið formann eins af íslandshestasamtökunum í Evrópu sem ég hef kynnst í gegn um starfið. Þegar ég kíki svo á símann bíða mín 8 sms. skilaboð frá einum aðila þar sem ég er úthrópaður aumingi, vesalingur, ræfill og svo framvegis. Í síðustu skilaboðunum eru svo bein hótun um að ég muni hljóta verr af enda sé viðkomandi sendandi vel tengdur í undirheimum. Einnig langar mig að taka dæmi af því þegar ég kom fram eftir að hafa verið að lesa fyrir 7 ára dóttur mína á virku kvöldi. Þá bíður mín símtal frá mjög áhrifamiklum manni í íslensku samfélagi. Manni sem hefur bæði mikil ítök í viðskiptalífinu og stjórnmálum. Sá hélt 5 mínútna einræðu um það hversu mikill aumingi og vesalingur ég væri og að hann myndi sjá til þess að allir á Íslandi myndu vita hversu mikill vesalingur og mannleysa Guðni Halldórsson væri. Hann myndi einnig sjá til þess að vinnuveitendum og atvinnurekendum yrði gert ljóst hversu skítlegan mann og ræfil ég hefði að geyma.“

Guðni áréttar að þessi samskipti séu því miður ekki einsdæmi og sé þetta að verða viðvarandi vandamál innan íþróttahreyfingarinnar. Slík samskipti séu ekki til þess fallin að laða fól til starfa og eitthvað sem hestamenn verða að fara taka sig á og bæta sig í.

Við verðum að finna leiðir til að verja okkar fólk fyrir árásum, áreiti og skítkasti. Það er engin afsökun þó að einhver telji að sinn hestur hafi fengið of lága einkunn eða að einhver hafi tekið ranga ákvörðun, eða þó að einhver sé ósáttur við að einhver aðili hafi verið valinn til forystu í samtökum.“

Hann hefur nú þegar rætt þetta við forseta og framkvæmdarstjóra ÍSÍ sem og ráðherra íþróttamála enda telur hann þetta var meinsemd sem hestamenn verða að ná utan um.  Hér fyrir neðan er hægt að lesa ræðu Guðna í heild sinni.

Ræða formanns LH á landsþingi 2022

Nú eru liðin tvö ár frá því ég tók við embætti formanns LH. Þetta er búinn að vera skemmtilegur, krefjandi og lærdómsríkur tími.

Fyrsta árið einkenndist af covid og erfiðleikum því tengdu sem seinkaði því nokkuð að hægt væri að hitta fólk og fara að kynna sig og hlusta eftir því hvað það er sem brennur á félögunum í landinu.

Í framhaldinu fengum við í fangið ansi óvelkomið verkefni sem tengdist áreitni og kynbundnu ofbeldi í okkar röðum sem óumflýjanlegt var að taka afstöðu til.

Þetta eru án efa erfiðustu og leiðinlegustu mál sem hægt er að fá inn á borð til sín og alveg sama hvernig á þeim er tekið þá verður aldrei neitt sem heitir rétt eða auðveld ákvörðun. Það er þó þannig að það að taka ekki afstöðu er að taka afstöðu í sjálfu sér og það því ekki í boði. Fyrir utan KSÍ þá hefur líklega ekkert sérsamband þurft að taka stærri eða erfiðari ákvörðun en stjórn LH stóð frammi fyrir í þessum málum.

Það er erfitt að reyna að útskýra hversu krefjandi og taugatrekkjandi það er að vera settur í þessa stöðu. Fyrir einstaklinga sem eru að stýra félagasamtökum að þurfa allt í einu að standa frammi fyrir erfiðum og fordæmalausum ákvörðunum sem enginn hefur vit eða þekkingu á og allir hafa skoðun á. Vitandi að það er alveg sama hvaða ákvörðun verður tekin, hún verður alltaf umdeild. Það að vera í forsvari fyrir félagasamtök og þurfa að búa við endalaus símtöl og tölvupósta frá öllum fjölmiðlum landsins, málsaðilum og öðrum sem hafa skoðun á málunum, að degi sem á nóttu og vita aldrei hvað kemur næst upp er eitthvað sem ég held að menn hafi almennt ekki séð fyrir.

Þegar mest á gekk og eftir nokkrar svefnlausar nætur tók ég ákvörðun um að segja mig frá formennsku í samtökunum og hafði gert það upp við mig að fullu að þetta væri ekki eitthvað sem ég væri til í að leggja á mig eða mína fjölskyldu. En eftir að mér var bent á af eiginkonu minni að með því væri ég bara að færa öðrum vandamálið og að það færi ekkert þó að ég stigi til hliðar sá ég að það væri engin lausn og ákvað að halda áfram og láta þetta ekki slá mig niður. Ég sé svo sem ekki eftir því í dag.

Samskipti

Í aðdraganda landsþings hafði ég samband við nokkurn fjölda fólks sem ég þekki eða þekki ekki og hef heyrt gott af, með það fyrir augum að hvetja það til að bjóða sig fram til stjórnar LH. Ég tel afar mikilvægt að þingið hafi úr góðum fjölda flottra frambjóðenda að velja og er afar ánægður að sjá þennan glæsilega hóp sem hér er í framboði. Þó nokkuð margir treystu sér þó ekki í það að gefa kost á sér og voru fyrir því margar ástæður. Ein ástæða kom þó of oft upp, en það var ótti við illt umtal og ótti við að fá á sig óvægna gagnrýni fyrir störf sín. Eðlilega er fólk lítið spennt fyrir því að leggja á sig félagsstörf í sjálfboðastarfi ef það þarf svo í ofanálag að hafa áhyggjur af skítkasti og jafnvel ærumissi. Fyrir mér er þetta stórt og mikið mál og í raun áfall að heyra að fólk veigri sér við að vinna fyrir samtök eins og LH af þessum sökum. Við þurfum öll að skoða okkar gang hvað þetta varðar. Skítadreifarar eru góðir til að bera skít á tún en þess utan má alveg gefa þeim frí.

Ég hef sjálfur ekki farið varhluta af þessu og þó að ég biðjist ekki undan gagnrýni og snörpum skoðanaskiptum þá viðurkenni ég að manni er stundum nóg um. Þegar maður fær sendar beinar og óbeinar hótanir sem beinast að heilsu manns, æru eða starfsheiðri af því að maður hefur tekið að sér að vera í forsvari fyrir íþróttasamtök þá er eðlilegt að velta fyrir sér hvert við stefnum.

Ég tek hér tvö örstutt dæmi um aðstæður sem hver og einn getur sett sig inn í.

Ég var með fólk í mat heima hjá mér, nánar tiltekið formann eins af íslandshestasamtökunum í Evrópu sem ég hef kynnst í gegn um starfið. Þegar ég kíki svo á símann bíða mín 8 sms skilaboð frá einum aðila þar sem ég er úthrópaður aumingi, vesalingur, ræfill og svo framvegis. Í síðustu skilaboðunum er svo bein hótun um að ég muni hljóta verr af enda sé viðkomandi sendandi vel tengdur í undirheimum.

Einnig langar mig að taka dæmi af því þegar ég kom fram eftir að hafa verið að lesa fyrir 7 ára dóttur mína á virku kvöldi. Þá bíður mín símtal frá mjög áhrifamiklum manni í íslensku samfélagi. Manni sem hefur bæði mikil ítök í viðskiptalífinu og stjórnmálum. Sá hélt 5 mínútna einræðu um það hversu mikill aumingi og vesalingur ég væri og að hann myndi sjá til þess að allir á Íslandi myndu vita hversu mikill vesalingur og mannleysa Guðni Halldórsson væri. Hann myndi einnig sjá til þess að vinnuveitendum og atvinnurekendum yrði gert ljóst hversu skítlegann mann og ræfil ég hefði að geyma.

Samskipti sem þessi eru því miður ekki einsdæmi. Þetta er að verða viðvarandi vandamál innan íþróttahreyfingarinnar og er ekki til þess fallið að laða að fólk til starfa.

Ég hef bæði rætt þetta við forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ sem og ráðherra íþróttamála enda tel ég þetta vera meinsemd sem við verðum að ná utan um. Þetta er því miður þekkt varðandi dómara og aðra sem þurfa að taka umdeildar ákvarðanir og skemmst er að minnast ömurlegrar uppákomu sem kom upp á Landsmóti í sumar og rataði meðal annars í fjölmiðla og er flestum væntanlega í fersku minni.

Við VERÐUM bara að fara að taka okkur á og bæta okkur í þessum málum. Við verðum að finna leiðir til að verja okkar fólk fyrir árásum, áreiti og skítkasti. Það er engin afsökun þó að einhver telji að sinn hestur hafi fengið of lága einkunn eða að einhver hafi tekið ranga ákvörðun, eða þó að einhver sé ósáttur við að einhver aðili hafi verið valinn til forystu í samtökum.

Á tímamótum sem þessum er ekki óeðlilegt að horfa til baka og velta fyrir sér hvað hefur áunnist og hvað hefði betur mátt fara og einnig hvað er mikilvægt að leggja áherslu á á næstu misserum.
Eitt af því sem ég hefði vilja sjá gerast hraðar og meira í eru hlutir sem snúa að æskulýðsmálum, nýliðun, útbreiðslu og kynningu íþróttarinnar. Vissulega hefur verið settur fókus á kynningarmál með það fyrir augum að vekja athygli á okkar frábæru íþrótt og reyna að draga fleiri að sportinu en þar þarf að gera enn betur og stíga fastar niður.

Ég bind vonir við að starfshópur ráðuneytisins geti komið með aukinn þunga í málefni barna og aðgengi þeirra að íþróttinni. Þar er að mörgu að hyggja og ljóst að aukið fé þarf að finna til verkefnissins. Þetta er risa mál sem verður bara að vinnast hratt og þétt.

Það er mikilvægt þegar fólk er valið til forystu starfa í samtökum sem þessum að inn veljist fólk með fjölbreyttann bakgrunn og áhugasvið. Þegar núverandi stjórn skipti með sér verkum að loknum síðustu kosningum þá kom í ljós að áhugasvið stjórnarmanna lágu ekki á sviði æskulýðsmála. Til dæmis var enginn úr aðalstjórn áhugasamur um að taka sæti í æskulýðsnefnd. Ég tek það fram að ég er ekki á neinn hátt að tala niður það frábæra fólk sem setið hefur með mér í stjórn síðustu tvö ár, heldur benda á það að ef þingið vill að einhver áherslumál fái brautargengi þá er mikilvægt að velja fólk sem brennur fyrir þeim málaflokkum.

Eitt af því sem maður hefur lært á því að starfa í svona félagasamtökum er það að viss verkefni eru einfaldlega of stór og viðamikil til að þau vinnist af sjálfboðaliðum. Hvort sem um er að ræða nefndum, hópum eða stjórnum. Dæmi um það er þegar settur var á fót ný, fjölskipuð, nefnd í upphafi tímabils sem ætlað var að fara yfir mótamál, byrja að marka stefnu og koma með tillögur að framtíðarsýn mótamála ásamt því að setja upp handbók fyrir mótshaldara sem þeir gætu stuðst við í mótahaldinu. Af ýmsum ástæðum komst það starf aldrei almennilega af stað og það var því um mitt þetta ár tekin ákvörðun um að ráða starfsmann móta og afreksmála sem gæti einbeitt sér að þessu starfi. Það er auðvitað engu saman að jafna hverju starfsmaður getur áorkað á móti því sem hægt er að ætlast til af nefnd sjálfboðaliða og er í raun magnað að sjá hvað nýr starfsmaður er kominn með mörg og stór mál á gott skrið í samstarfi við nefndir og hópa sem hafa með sama málaflokk að gera.

Ég tel að málefni sem snúa að nýliðun, æskulýðsstarfi, útbreiðslu og kynningu íþróttarinnar séu svo stór málaflokkur, sem þarfnist slíkrar athygli að vert sé að stofna sérstaka útbreiðslunefnd innan LH auk þess að skoða hvort skilgreina þurfi ekki sérstaklega eitt af störfum skrifstofunnar með fullan fókus á þessum málum.

Landsþing og stefnumörkun

Nú er ég ekki hokinn af reynslu þegar kemur að landsþingssetu. Ég hef hins vegar lesið fjölmargar þinggerðir fyrri þinga og þegar maður les gamlar þinggerðir þá verður maður ansi hugsi yfir því að það mætti nánast endurnýta þær aftur og aftur, áratugum síðar þar sem umræðuefnin virðast vera svipuð eða þau sömu.

Núna liggja fyrir þinginu yfir 50 skjöl til afgreiðslu auk ársreikninga þriggja félaga og fjárhagsáætlanir. Þinginu er falið að afgreiða öll þessi mál og skal kosið um þau öll. Það gefur auga leið að þetta fyrirkomulag gefur ekki tækifæri á vönduðum vinnubrögðum eða djúpum eða stefnumarkandi umræðum.

Ég tel að við þurfum að hugsa málefni landsþings eitthvað upp á nýtt. Okkur vantar umræðuvettvang þar sem hestamannafélögin geta komið saman og gefið sér tíma til að ræða málin og taka ákvarðanir til framtíðar. Á hvaða leið erum við, hvert viljum við stefna og hvernig viljum við komast þangað?

Mótamál til framtíðar er eitt af þeim málum sem er mikilvægt að við hestamenn förum að marka okkur skipulega stefnu í til framtíðar. Fleiri og lengri mót með enn fleiri flokkum og skortur á áhorfendum á almenn mót er þróun sem við verðum að finna leiðir til að snúa til betri vegar. Þar er ég ekki eingöngu að tala um mót hér innanlands heldur einnig mót eins og Norðurlandamót, Mið-Evrópumót og almennt mótafyrirkomulagið í íslandshestaheiminum. Einnig þurfum við að skoða leiðir til að samræma betur mótahald á Íslandi, ekki síst innanhúsmótahald. Lands- og heimsmeistaramót eru þarna skýr undantekning og því þurfum við að horfa til þess hvað er vel gert þar og passa vel upp á þau fjöregg okkar.

Ég tel að þetta sé eitt af stóru málum næstu missera og ég tel mig hafa vissu fyrir því að þetta er eitt af því sem brennur á félögunum í landinu eftir fundarferð okkar um landið í vetur sem leið.
Ég vill að lokum þakka öllu því frábæra fólki sem komið hefur að starfi sambandsins og ég átt upp til hópa mjög góð samskipti og samstarf með. Stórkostlegt starfsfólk á skrifstofu, fráfarandi stjórn sem hefur verið dugleg og staðið þétt saman í mörgum og erfiðum málum, nefndum LH sem eru í raun burðarstólpar starfsins, dómarafélögunum, forsvarsmönnum hestamannafélaganna í landinu, mótshöldurum sem staðið hafa fyrir hverju frábæra mótinu á fætur öðru ásamt öllu því frábæra fólki sem maður hefur kynnst og átt samskipti við á síðustu árum.

Það eru spennandi tímar framundan og fjölmörg spennandi verkefni sem bíða nýrrar stjórnar. Ég hlakka til framhaldsins og tel að í krafti samstöðunnar og jákvæðninnar getum við hestafólk gert ótrúlega hluti.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar