Sleipnir fyrsti handhafi hvatningarverðlauna HSK

Berglind Sveinsdóttir, formaður Sleipnis, tekur hér á móti viðurkenningunni Mynd: ÍSÍ
Fjöldi fólks mætti og voru verðlaun veitt á þinginu. Hestamannafélagið Sleipnir varð á dögunum fyrsti handhafi Hvatningarverðlauna HSK. Ástæða verðlaunana er Félagshesthúsaverkefni Sleipnis, en í greinagerð um verðlaunin segir:
Hestamannafélagið Sleipnir, í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg, hóf tilraunaverkefni með félagshesthús í upphafi árs 2021. Gafst verkefnið vel og í október 2021 var leigt stórt og hentugt 20 hesta hús fyrir starfsemina, ásamt því að skrifað var undir þriggja ára samstarfssamning sveitarfélagsins og Sleipnis um verkefnið. Samningur var svo framlengdur til þriggja ára nú á haustdögum.
Með þessu verkefni gefst börnum og unglingum tækifæri á að taka þátt í hestamennsku án þess að eiga hest og hafa aðgang að hesthúsi. Þau sækja skipulagða tíma í hesthúsið, þar sem þau fá aðgang að hesti og þeim búnaði sem þarf til að stunda reiðmennsku. Þau læra handtökin við að umgangast og hugsa um hestana, ekki bara það sem einhverjum þætti það skemmtilegasta, að ríða út, heldur líka að moka undan hestunum, þrífa, hugsa um reiðtygin og annað sem þarf að gera þegar stunduð er hestamennska. Inn í það fléttast svo allskonar fræðsla um aðbúnað og heilsufar hestana, hvað þurfi að hafa í huga og fylgjast með þegar við eigum hest.
Síðan hafa þau fengið bæði dýralækni til að koma og spjalla við krakkana um hestana, raspa og gefa lús og ormalyf og eins hefur járningamaður verið að járna og sýnt krökkunum hvað þurfi að hafa í huga við járningu og umhirðu hófa.
Þetta frábæra framtak Sleipnis, hefur orðið til þess að áhugasöm börn og unglingar hafa fengið tækifæri til að kynnast hestamennskunni, án þess að þurfa að leggja í þann kostnað sem henni fylgir.