Sólon frá Þúfum hlaut rétt í þessu hæstu hæfileikaeinkunn ársins

  • 28. júlí 2020
  • Fréttir

Guðmundur hefur einnig gert það gott á Sóloni í gæðingakeppni hér tekur hann við verðlaunum á Meistaramóti Íslands í A-flokki.

Nú stendur yfir miðsumarssýning á Hellu en dómar hófust í gær, þriðjudag, mörg góð hross hafa komið fram á sýningunni til þessa.

Sólon frá Þúfum kom til dóms í dag og hlaut hæstu hæfileikaeinkunn ársins, hvorki meira né minna en 9,11, fyrir sköpulag hlaut hann 8,51 og í aðaleinkunn 8,90. Sólon er ræktaður af Mette Mannseth og Gísla Gíslasyni sem jafnframt eru skráðir eigendur hestsins en sýnandi er Guðmundur F. Björgvinsson. Sólon er sjö vetra gamall undan Trymbli frá Stóra-Ási og Kommu frá Hóli v/Dalvík.

Sólon hlaut m.a. einkunnina 10,0 fyrir samstarfsvilja og 9,5 fyrir tölt, 9,0 hlaut hann fyrir brokk, skeið, greitt stökk, fegurð í reið og hægt tölt.

Eiðfaxi hafði samband við Guðmund nú rétt í þessu sem var í skýjunum með hestinn og lýsti honum á þennan hátt:

,,Íslenskur gæðingur eins og þeir eiga að vera og vill alltaf allt fyrir mann gera afskaplega þjáll, taktviss, rúmur hágengur og til í allt hvort sem fara á hægt eða hratt og hann á svo auðvelt með allt og jafnvægið er nánast óskiljanlegt. Maður setur hann í raun bara af stað á þeirri gangtegund sem maður ætlar að ríða og hann hugsar ekki um að fara af henni þannig að gangskilin eru hreint frábær.“

Hér fyrir neðan má sjá dóminn í heild sinni.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar