Spennandi slagur framundan í 250 metra skeiði

Keppni í 250 metra skeiði er ávallt spennandi á heimsmeistaramótum og ráðast úrslit yfirleitt ekki fyrr en í fjórða og síðasta spretti. Erfitt getur verið að spá fyrir um það hver ber sigur úr býtum. Byggir það ekki síst á því að þeir tímar sem hestarnir hafa náð áður eru oft settir við mismunandi vallar og veður aðstæður. Slíkt er ekki fyrir hendi á HM þar sem allir sitja við sama borð.
Hér á eftir má lesa um þau pör sem líklegust eru til stórafreka á komandi móti í þessari lengstu hlaupagrein skeiðkappreiða. Notast er við árangur síðustu ára og stuðst við WR lista FEIF.
Alexander Fedorov og Hrólfur frá Hafnarfirði keppa fyrir hönd Þýskalands. Hrólfur er 22. Vetra gamall undan Toppi frá Eyjólfsstöðum og Hrönn frá Ytri-Reykjum ræktandi hans er Snorri Rafn Snorrason og eigandi er Alexander Fedorov. Þeir félagar þekkjast vel og hafa keppt saman frá því árið 2011 og sínum besta tíma náðu þeir árið 2023 er þeir fóru á 21,52 sekúndum. Í ár eiga þeir best 22,46 sekúndur og sigruðu á þýska meistaramótinu á tímanum 22,63 sekúndum.
Daníel Gunnarsson keppir fyrir hönd Íslands á hryssunni Kló frá Einhamri 2. Hún er 11.vetra gömul og er faðir hennar Aðall frá Nýjabæ og móðir Björk frá Litla-Kambi, ræktendur eru Sif Ólafsdóttir og Hjörleifur Jónsson en eigandi er Guðlaugur Birnir Ásgeirsson. Þetta er fimmta keppnistímabilið þeirra saman og hafa þau náð afar góðum árangri og þrisvar sinnum farið undir 22 sekúndur og ítrekað á undir 23 sekúndum. Þeirra besta tíma náðu þau á Íslandsmótinu nú í sumar þegar þau fóru á tímanum 21,97 sekúnda sem skilaði þeim í þriðja sætið á Íslandsmótinu í ár.
Daníel Ingi Smárason og Hrafn frá Hestasýn keppa fyrir hönd Svíþjóðar. Þeir félagar hafa keppt saman frá árinu 2022 og hafa oft náð hörku góðum tímum en þeirra besti tími er 21,98 sekúndur. Í ár hafa þeir farið á mjög góðum tímum og náðu sínum besta árangri á sænska meistaramótinu þegar þeir fóru á 22,40 sekúndum. Hrafn er fjórtán vetra gamall undan Forseta frá Vorsabæ II og Dúkku frá Borgarnesi. Ræktendur eru þau Alexander Hrafnkelsson og Ólöf Guðmundsdóttir en Daníel Ingi er eigandi.
Helga Hochstöger og Nóri von Oed eru mörgum eftirminnileg frá síðasta heimsmeistaramóti þar sem þau sigruðu keppni í 100 metra skeiði. Þau keppa fyrir hönd Austurríkis og hafa verið mjög vaxandi í 250 metra skeiði. Þeirra besti tími er 22,09 sekúndur en þau unnu Austurríska meistaramótið í þessari grein á 22,31 sekúndu. Nóri er sautján vetra gamall undan Nasa vom Auenthal og Máríu frá Miklaholtshelli. Ræktandi er Steffi Plattner en eigandi er Helga Hochstöger
Lara Balz og Trú fra Sundäng keppa fyrir hönd Sviss og eru reynslumikið par þrátt fyrir að hafa ekki langan feril í þessari grein. Trú er undan Metingi frá Vestri-Leirárgörðum og Heklu från Lappdal. Ræktandi er Carin Lipe en eigandi er Lara Balz. Sínum besta tíma náðu þau í vor þegar þau hlupu 250 metranna á 21,92 sekúndum.
Sigursteinn Sumarliðason hefur verið einn af öflugustu skeiðknöpum heims um langt skeið og unnið til fjölda titla. Hann varð heimsmeistari í 100 metra skeiði árið 2007 á Kolbeini frá Þóroddsstöðum og stefnir nú að því að landa heimsmeistaratitli í 250 metra skeiði á Krókusi frá Dalbæ sem er 17. vetra gamall ræktaður af Ara Birni Thorarensen. Hann er undan Vilmundi frá Feti og Flautu frá Dalbæ. Þeir hófu að keppa saman í 250 metra skeiði árið 2019 og hafa síðan þá náð best tímanum 21,35 sekúndur sem tryggði þeim Íslandsmeistaratitil árið 2024.
Markus Albert-Schoch og Kóngur frá Lækjamóti hafa keppt saman síðan árið 2012 og verið í fremstu röð í 250 metra skeiði. Þeir urðu heimsmeistarar í greininni árið 2017. Þeirra besti tími er 21,24 sekúndur sem þeir náðu árið 2022 en þeir hafa reglulega farið á vel undir 22 sekúndum. Kóngur er 23. vetra gamall undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Höffu frá Samtúni. Ræktandi er Páll Þórir Viktorsson en eigandi er Islandspferdhof Weierholz. Markus og Kóngur keppa fyrir heimamenn í Sviss.
Nathalie Fischer og Ímnir fra Egeskov keppa fyrir hönd Danmerkur og gætu blandað sér í toppbaráttuna í 250 metra skeiði. Ímnir er undan Gauki frá Innri-Skeljabrekku og Glóru frá Hofi, ræktandi hans er Janne Spannov en eigandi er Nathalie Fischer. Þau hafa fljótast farið á tímanum 21,90 sekúndur.
Með öflug pör á ráslínunni og sekúndubrot sem munu ráða úrslitum er ljóst að 250 metra skeiðið mun bjóða upp á hörkuspennandi baráttu – þar sem enginn má við mistökum og aðeins sá hraðasti sigrar.