Spennusagan Hetja eftir Björk Jakobsdóttur

Björk Jakobsdóttir spjallar við folaldið Hetju mynd: Horses of iceldn
„Þetta er fyrst og fremst spennandi örlaga og þroskasaga ungrar merar og unglingsstúlku,“ segir Björk Jakobsdóttir, leikkona, leikstjóri og leikskáld, um fyrstu bókina sína Hetju. Björk er einnig mikil hestakona, en hestarnir hennar, ævintýralegar hestaferðir og reynsla hennar af hestamennsku veittu henni innblástur við gerð bókarinnar. Hetja er fimm vetra hryssa og hún og eigandi hennar, Björg, sem er 15 ára, eru miklar vinkonur. Þegar Hetja týnist leitar Björg hennar um allt land, en þær farast alltaf á mis. Hetja reynir að komast heim á eigin spýtur, þvert yfir hálendið, og lendir í miklum háska.

Sagan er sögð bæði út frá sjónarhorni Hetju og Bjargar. Með bókinni vill Björk útskýra „tungumál“ hesta fyrir lesendum, hvernig þeir skynja tilveru sína og hvernig ber að nálgast þá og meðhöndla. Aðalmarkhópurinn er börn og unglingar (8 ára og eldri), en fullorðnir eiga líka erfitt með að leggja hana frá sér!
Björk segir hestamennsku hafa ótal kosti, sérstaklega á tímum COVID. „Kvíði er að aukast hjá börnum og unglingum – og ég finn það hjá sjálfri mér líka. Það er ekki til meiri núvitund en að fara upp í hesthús og kúpla sig út úr daglegu amstri. Það þarf ekki alltaf að fara á bak eða vera rosa flinkur eða eiga flottasta hestinn, bara að fara upp eftir, klappa mjúkri hestasnoppu, opna heyrúllu og finna lyktina af seinasta sumri í skammdeginu, hleypa út og moka. Þetta er stórkostlegur lúxus í þjóðfélagi sem er að aftengjast þegar kemur að náttúrunni. Það hefur aldrei verið nauðsynlegra að veita börnum aðgang að dýrum, nú þegar þau fara ekki í sveit eins og í gamla daga. Að umgangast dýr eykur víðsýni og umburðarlyndi og það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi fyrir börn að fá að umgangast dýr. Fyrir mér er ávinningurinn fyrst og fremst andlegur, en þetta er líka heilmikil líkamsþjálfun. Það er alveg eins hægt að stunda hestamennsku eins og handbolta, fótbolta eða fimleika.“ Björk bendir á að hægt sé að nota frístundastyrkinn fyrir hestaíþróttir. Mörg hestamannafélög bjóða börnum upp á að fá hest að láni og leiðsögn í félagshesthúsum, þannig að aðgengi að hestamennsku er orðið mun auðveldara en það var.

Björk í hestaferð mynd: vefur Horses of Iceland
„Svo vona ég að bókin mín Hetja auki skilning barna og áhuga á okkar stórkostlega hestakyni sem hefur verið órjúfanlegur partur af menningararfi okkar Íslendinga frá upphafi,“ segir Björk að lokum. Í rafrænu útgáfuhófi má hlusta á Björk lesa æsispennandi kafla úr nýju bókinni sinni. Hetja er fáanleg hjá Forlaginu og í bókaverslunum, innbundin eða sem rafbók.
Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, tekur undir þetta. „Íslenski hesturinn er hetja margra sagna, laga og ljóða, eins og þjóðinni er kunnugt um. Því viljum við viðhalda með frábærum bókum eins og Hetju og auka áhuga á hestamennsku hjá yngri kynslóðinni. Í dag er miklu auðveldara að stunda hestamennsku en áður, nú þarf ekki að eiga hesta, hesthús eða -kerru sjálfur. Mörg félög bjóða upp á frábæra þjónustu.“ Hægt er að leita til Landssambands hestamannfélaga til að finna hestamannafélögin í sínu næsta nágrenni og kynna sér starfsemi þeirra. Horses of Iceland styður útgáfu bókarinnar og nýliðastarf hestamannafélaga.
Hetja hefur hlotið frábærar viðtökur og er á leið í endurprentun. Hér má lesa gagnrýni Lestrarklefans fyrir og hér fyrir neðan ýmsar umsagnir um bókina. Allar frekari upplýsingar veitir höfundur í síma 824-0889.
Umsagnir:
„Þetta er metsölubók. Það er bara þannig. Hröð, spennandi, innileg og spilar á allan tilfinningaskalann. Ef ég væri gagnrýnandi þá myndi ég gefa sex stjörnur af fimm mögulegum.“
– Ásmundur Helgason, bókaútgefandi
„Ég las hana í einum rykk… fékk smá ryk í augun sko ❤️ Ég fílaði hana í botn. Þetta er svona bók eins og ég hefði viljað lesa sem lítil stelpa. Þetta er ekki kaldur og ópersónulegur texti. Maður les í gegnum textann að Björk þekkir vel til hesta og textinn gefur góða innsýn inn í hvernig hestar hugsa. Þetta er spennandi bók og dramatísk. Ég er ekki frá því að ef að ég hefði lesið hana þegar ég var 12 ára þá hefði ég skælt.“
– Hulda Geirs, Morgunútvarpið
„Við tvíburarnir (6 ára) höfum grátið og hlegið yfir bókinni Hetja. Sagan er mikil lífsraunasaga hests og eiganda hennar sem leiddi okkur lesendurna m.a. í allskyns vangaveltur um dýr og hvernig allar lífverur eiga rétt á fallegri framkomu. Endirinn fékk okkur til að halda niðri andanum nokkrar blaðsíður. Ótrúlega falleg saga sem á erindi við bæði börn og fullorðna. Bókin fær hér fullt hús af stjörnum og okkar bestu meðmæli í jólapakkana.“
– Ástrós Signýjardóttir hjá Norræna félaginu
„Búinn með Hetju! Og naut lestursins í botn. Varð aftur 10 ára og táraðist þegar Hetja hitti hana Björgu sína aftur. Frábær frumraun skrifuð af dramatísku innsæi, húmor og djúpum skilningi á hestum og mönnum. Óbærilega spennandi á köflum. Það er meira að segja ísbjörn!! Og myndskreyting Freydísar Kristjánsdóttur er mikið listaverk. Þessi bók mun gleðja marga litla ættingja mína um jólin. 5 störnur!“
– Felix Bergsson útvarpsmaður og leikari
„Við Katla mælum heilshugar með þessari bók! Áttum dásamlegar gæðastundir að lesa fyrir hvor aðra, hlógum og grétum yfir ótrúlega spennandi atburðarás. Okkur þykir orðið svo vænt um söguhetjurnar Hetju og Björg að við eigum eftir að sakna þeirra… það er eiginlega ekki annað hægt en að sogast inn í söguna og finna til með þeim! Takk fyrir geggjaða bók Björk Jakobsdóttir.“
– Þórunn Lárusdóttir, leikkona
„Jökull var mjög ánægður með bókina og hann var miklu fljótari með hana en aðrar bækur. Held að það þýði að þessi bók höfði til mjög margra því yfirleitt vill hann hafa sverð ninjur eða nýjustu tækni í bókunum.“
– Eydís strákamamma