Sprettur hlýtur æskulýðsbikar LH 2024
Æskulýðsnefnd LH veitir á hverju ári Æskulýðsbikar LH, því hestamannafélagi sem þykir hafa skarað framúr með sínu starfi að æskulýðsmálum. Valið byggir á ársskýrslum æskulýðsnefnda félaganna, sem sendar eru inn til æskulýðsnefndar LH á haustin og hefur nefndin það verkefni að velja bestu skýrsluna.
Að þessu sinni sendu inn ellefu félög skýrslur. Linda Björgvinsdóttir kynnti verðlaunin en að þessu sinni var það Hestamannafélagið Sprettur sem hlaut verðlaunin. Hér fyrir neðan er brot úr texta sem Linda las upp við tilefnið:
„Það félag sem þykir hafa staðið upp úr í ár hefur verið með virkt starf allt frá stofnun félagsins og hefur mikill metnaður verið lagður í starfið undanfarin ár. Félagið hefur sífellt verið að bæta starf sitt, horfir mjög vítt á starfið og er umhugað um alla æsku félagsins, hvort sem um er að ræða áhugaknapa, keppnisknapa eða þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni. Félagð hefur staðið vel að nýliðun og hefur starfið vaxið og dafnað ár frá ári nú um nokkura ára skeið. Árangur starfsins sést vel í fjölgun félagsmanna og mikillar nýliðunar.
Félagið stóð fyrir tugum viðburða fyrir alla aldurshópa að meðtöldum námskeiðum og æfingum ásamt því að reka félagshesthús. Þau byrjuðu starfið sitt strax á haustmánuðum sem gerir starf þeirra að heilsvetrarstarfi. Sjá má í skýrslunni þeirra að þau eru dugleg að bjóða upp á fjölbreytta viðburði og hugsa út fyrir kassann. Meðal þess sem okkur fannst athyglisvert er að þau stóðu að skipulögðum reiðtúrum fyrir yngri kynslóðina, þar á meðal fyrir polla. Þau stóðu fyrir ferð þar sem gist var, riðið út og farið í leiki. Þau virkja krakkana með sér og eru annars vegar með barna- og unglingaráð og hins vegar með ungmennaráð sem opnar fyrir ungu kynslóðina að hafa áhrif á æskulýðsdagskránna. Það var meðal annars til þess að staðið var fyrir reiðnámskeiðferð eingöngu ætlað ungmennum. Ekki síður vakti athygli nefndarinnar að félagið uppfyllti óskir yngri félagsmanna og fóru með hóp yngri félagsmanna í ferð erlendis til að sjá hestasýningu sem krakkarnir söfnuðu fyrir með ýmis konar fjáröflun.
Það sem nefndinni fannst ekki síst áhugavert og tekur undir með ungu kynslóð félagsins er að sjá önnur félög stofna yngri flokka ráð og myndum við, sem nú sitjum í æskulýðsnefnd, gjarnan vilja láta draum þeirra rætast sem er að haldið verði Landsþing yngri flokka.
Félagið sendi inn vandaða og vel upp setta 18 blaðsíðna skýrslu. Félagið telur á annað þúsund félagsmenn þar sem um helmingur tilheyrir yngri flokkum félagsins og var stofnað árið 2012.
Handhafi Æskulýðsbikars Landsambands hestamannafélag 2024 er hestamannafélagið Sprettur í Garðabæ og Kópavogi.
Til hamingju Sprettarar!“