Staðan í Samskipadeildinni að loknu fyrsta keppniskvöld

Frá verðlaunaveitinu í A-úrslitum í fjórgangi í Samskipadeildinni. Ljósmynd: Gunnhildur Ýrr
Verkfæralagersfjórgangurinn í Samskipadeildinni fór fram síðastliðið fimmtudagskvöld. Húsið opnaði kl. 17:30 og var veislusalurinn þéttsetinn meðan matur var borinn fram af frábæru kokkunum hjá Flóru veisluþjónustu.
Í yfirlýsingu frá mótshöldurum segir: Mikil stemning myndaðist í stúkunni yfir kvöldið og þökkum við áhorfendum kærlega fyrir komuna í Samskipahöllina. Alls voru 70 keppendur úr 15 liðum skráðir til leiks. Gaman var að sjá hversu prúðbúnir knapar voru og margir hestar greinilega komnir í fanta form.
Það var mikil spenna fyrir B-úrslitunum, enda munaði ekki nema 0,06 á efsta og neðsta knapa inn í úrslitin. En þá setti Sigurbjörn Viktorsson í liði Nýsmíði og hestur hans Seifur frá Brekkubæ í næsta gír og uppskáru að lokum öruggan sigur með 6,57 í einkunn.
Þar á eftir voru Gunnar Tryggvason og Katla frá Brimilsvöllum sem kepptu fyrir lið Bifreiðaverkstæðis Böðvars og Borgarverk með einkunnina 6,33. Því næst kom Þórdís Sigurðardóttir á Árvaki frá Minni-Borg fyrir lið Pulu-Votamýri-Hofsstaða með einkunnina 6,30. Þær stöllur, Sarah Maagaard Nielsen og Eyrún Jónasdóttir úr liði Hótel-Rangá, komu þar á eftir og náðu í dýrmæt stig í liðakeppninni. Gaman að sjá þær mæta í glæsilegu grænu Geysis-jökkunum.
Kristín Ingólfsdóttir og hestur hennar Ásvar frá Hamrahóli sem keppa fyrir lið Nýsmíði var efst eftir forkeppni og gaf ekkert eftir í úrslitunum og landaði gullinu með glæsilega einkunn, 6,93. Fast á hæla hennar voru tveir liðsmenn Trausta, Darri Gunnarsson og Draumur frá Breiðstöðum og Þorgerður Gyða Ásmundsdóttir og Hnokki frá Áslandi, með jafna einkunn 6,83. Þar á eftir komu Erla Guðný Gylfadóttir og hryssa hennar Fluga frá Garðabæ sem keppa fyrir liðið Pula-Votamýri-Hofsstaðir, Rúnar Freyr Rúnarsson og Kári frá Björgum í liði Réttverks og Kolbrún Grétarsdóttir og Jaðrakan frá Hellnafelli í liði Sindrastaða.
Árangur Erlu Guðnýjar í A-úrslitum, Þórdísar Sigurðardóttur í B-úrslitum og Gunnars Más sem var rétt utan úrslita skilaði liði þeirra, Pulu-Votamýri-Hofsstaða, 109 stigum í liðakeppninni og hlutu þau því liðaskjöldinn eftirsótta.
Staðan í einstaklingskeppninni eftir kvöldið er þessi:
Kristín Margrét Ingólfsdóttir 12 stig
Þorgerður Gyða Ásmundsdóttir 9 stig
Darri Gunnarsson 9 stig
Erla Guðný Gylfadóttir 7 stig
Rúnar Freyr Rúnarsson 6 stig
Kolbrún Grétarsdóttir 5 stig
Sigurbjörn Viktorsson 4 stig
Gunnar Tryggvason 3 stig
Þórdís Sigurðardóttir 2 stig
Sara Maagaard Nielsen 1 stig
Staðan í liðakeppninni eftir kvöldið er þessi:
Pula-Votamýri-Hofsstaðir 109 stig
Réttverk 99 stig
Trausti 99 stig
Hótel Rangá 94 stig
Nýsmíði 93 stig
Stafholthestar 85 stig
Bifreiðaverkstæði Böðvars og Borgarverk 84,5 stig
Tommy Hilfiger 76 stig
Sindrastaðir 73 stig
Sveitin 65,5 stig
Lið Spesíunnar 40 stig
Hrossaræktin Strönd II 33,5 stig
Vörðufell 29 stig
Stólpi Gámar 27,5 stig
Hrafnsholt 27 stig
Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd mótsins. Án öflugra sjálfboðaliða yrðu svona viðburðir ekki að veruleika. Ljósmyndari mótsins var Gunnhildur Ýrr.
Næsta keppniskvöld í Samskipadeildinni, Áhugamannadeild Spretts, fer fram í Samskipahöllinni 13. mars en þá verður keppt í slaktaumatölti – T4