Starfshópur um hestaíþróttir fatlaðra

  • 15. mars 2023
  • Fréttir
Ætlunin að fá inn í hópinn aðila með áhuga og sértæka þekkingu á verkefninu.

Á vinnuhelgi stjórnar LH á dögunum var ákveðið að setja á fót starfshóp um hestaíþróttir fatlaðra. Er hópnum ætlað að styðja við og reyna að finna leiðir til að efla hestaíþróttir fatlaðra á Íslandi. Formaður hópsins var kjörin Sóley Margeirsdóttir stjórnarkona í LH en auk hennar sitja í hópnum Guðni Halldórsson formaður LH, Hákon Hákonarson ritari LH og Edda Rún Ragnarsdóttir stjórnarkona í LH. Þá er ætlunin að fá inn í hópinn aðila með áhuga og sértæka þekkingu á verkefninu.

Hjá nokkrum hestamannafélögum á landinu hefur verið rekið metnaðarfullt starf þar sem fatlaðir einstaklingar fá einstakt tækifæri til að þroskast, læra og styrkjast, bæði andlega og líkamlega með því að fá að fara á hestbak og kynnast hestamennsku undir handleiðslu reiðkennara og aðstoðarmanna.

Það er bæði krefjandi og kostnaðarsamt að halda úti starfi sem þessu og ljóst að finna þarf leiðir til að fjármagna starfið til framtíðar með það fyrir augum að gera fleiri einstaklingum kleift að stunda íþróttina enda ljóst að það er ekki einfalt að halda úti slíku starfi eingöngu byggðu á styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum.

Í tengslum við stofnun starfshópsins bauð Hestamannafélagið Hörður, sem haldið hefur úti afar metnaðarfullu starfi í fjölda ára í samstarfi við fyrirtækið Hestamennt, ráðherra Íþrótta- og barnamála Ásmundi Einari Daðasyni og forsvarsmönnum LH að kynna sér starfið. Var ráðherra afar áhugasamur um starfið og lýsti yfir miklum áhuga á að fá að koma frekar að uppbyggingu og framgangi þess ásamt starfshópnum og sagði ráðherra einkar ánægjulegt að sjá hvað starfið væri jákvætt og hafði sérstaklega orð á óeigingjörnum þætti sjálfboðaliða sem eru ómetanlegir í svona starfi.

www.lhhestar.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar