Stóri völlurinn í Fáki eins og sölutorg

  • 22. júlí 2021
  • Fréttir

Gunnar og Kristbjörg á sokkabandsárunum Ljósmynd/Aðsend

Í tímaritum Eiðfaxa er oft að finna skemmtilegar frásagnir og viðtöl við fólk úr hestamennskunni. Í Eiðfaxa Vor sem kom út í síðasta mánuði er að finna viðtal við Gunnar Arnarson og Kristbjörgu Eyvindsdóttur en í ár eru 35 ár síðan þau hófu útflutning á hrossum. Í viðamiklu viðtali segja þau frá ferlinum og þeim gífurlegu breytingum sem hafa orðið á sölu málum og ýmsu öðru tengdu hestamennskunni.

Við grípum niður í viðtalið þar sem þau lýsa skemmtilegri minningu af sölumálum og örlítilli stríðni milli vina.

Stóri völlurinn í Fáki eins og sölutorg

Margt hefur breyst á þeim þrjátíu og fimm árum sem þau hafa staðið í útflutningi á hrossum og þá ekki síst hvernig sölu á hrossum er háttað. Eins og eftirfarandi frásögn segir til um.
„Á þessum árum þegar við vorum að byrja í útflutningi að þá var hrossasala allt öðruvísi en hún er í dag og maður fór og sótti allt upp í tugi hrossa á suma bæina. Þeir sem áttu úrvals góðan eða efnilegan hest þeir seldu hann sjaldan einan því ef þú ætlaðir að kaupa þennan eina góða þurftirðu oft að taka nokkra til viðbótar með í pakka. Þær eru margar minningarnar um víla og díla sem gerðir voru við eldhúsborðið hjá ræktendum við kaffidrykkju og jafnvel smá viskítár með. Þegar að búið var að ákveða hvaða hross yrðu í pakkanum og niðurstaða fengin um verð var tekist í hendur og svo voru stundum heilu flutningabílarnir sendir til að sækja hross daginn eftir. Við tókum virkan þátt í þessu og fórum oft með kaupmenn um landið, við tókum ekki söluþóknun fyrir þá þjónustu.“ Segir Gunnar og Kristbjörg bætir við góðri sögu frá þessum tíma.

Þegar hestakaupmenn komu hingað til lands, þá plöntuðu þeir sér oft niður á stóra völlinn í Fáki og svo reið fólk þar um á sínum söluhrossum. Oft á tíðum var þetta eins og sölutorg og allt iðaði af lífi. Stundum var verið að leita að  fjölskyldu- og reiðskólahestum sem voru kannski ekki alltaf þeir hágengustu og aðsópsmestu. Meðan á þessum sýningum stóð var ýmislegt gert sér til gamans, einn aðili í Víðidalnum átti oft leið um brautina á þessum stundum. Sá aðili var ansi vel ríðandi á mjög aðsópsmiklum fótaburðarhestum sem stálu senunni, hétu jafnvel Valíant, Sæla, Næla o.s.frv. Það fór þá svo að athygli kaupandans var ekki lengur á reiðskóla og fjölskylduhestunum heldur fylgdust þeir gapandi með Hafliða Halldórssyni sem fór mikinn. Eitthvað var þetta farið að pirra Gunna, það var svo einu sinni að Hafliði var að sýna kaupendum „fjölskyldu og reiðskólahesta“  Þá hnippir Gunni í mig og segir, Krissa við skulum leggja á eitthvað frambærilegt og ríða fram hjá. Gunnar lagði á Reyk frá Hoftúnum og ég á eitthvað vígalegt klárhross. Gunnar tók Reyk til kostanna, alveg svakasprett. Fimm mínútum seinna voru kaupmennirnir komnir upp í hús til okkar. „Smá hrekkir, en þó allt í mesta bróðerni.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<