Svar við pistlinum Gæðingar og geimflaugasmíð eftir Þórdísi Erlu

  • 2. apríl 2020
  • Fréttir

Hestamennskan er víðtæk hér ríður ritstjóri ásamt ferðafélögum yfir Nautavað í Þjórsá.

Á facebook síðu Þórdísar Erlu Gunnarsdóttir tamningakonu, hrossaræktanda og reiðkennara birtust í morgun vel skrifaðar hugleiðingar hennar um fyrirhugaðar breytingar á kynbótadómum. Í þeim pistli gagnrýnir hún á sama tíma skrif greinarhöfundar er birtust á vef Eiðfaxa þann 21.mars síðastliðinn og fjalla um að gera raunhæfar kröfur í kynbótadómi.

Eitthvað hefur mér mistekist við að koma á framfæri hinum eiginlega tilgangi með þeim skrifum en ég skal hér á eftir reyna að gera það í stuttu máli.

Vangaveltur mínar í þessum pistli áttu að vera til þess að opna augu fólks fyrir því að þó svo að hestur fái ekki háa aðaleinkunn í kynbótadómi er ekki þar með sagt að um dapran hest sé að ræða. Aðaleinkunnin ein og sér segir ekki til um getu hestsins heldur er verið að meta hvaða eiginleikum gripurinn býr yfir sem metnir eru. Þannig geti ungir hestar orðið stórstjörnur þó svo að eitthvað misheppnist í kynbótadómi

Varðandi gagnrýni Þórdísar á því að ég sé ritstjóri Eiðfaxa og nú nýlega alþjóðlegur kynbótadómari FEIF að þá á sú gagnrýni fullan rétt á sér. Það er hins vegar óumflýjanlegt nú sem áður að í þessi störf veljist fólk sem hefur ódrepandi áhuga á íslenska hestinum og því sem honum tengist, það er svo undir mér komið að njóta trúverðuleika í báðum störfum.

Ég vil að lokum þakka Þórdísi Erlu fyrir góð skrif, þetta er einmitt eina leiðin til framfara að fólk þoli gagnrýni í eiginlegri merkingu þess orðs.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar