Svíþjóð Svíar boða aukið lyfjaeftirlit

  • 24. júlí 2025
  • Fréttir
Með velferð hrossa og sanngjarna keppni í huga

Landssamtök íslenska hestsins í Svíþjóð hyggjast efla lyfjaeftirlit með hrossum sem taka þátt í sænskum meistaramótum í framtíðinni. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að með þessu sé ætlunin að stuðla að heiðarlegu og öruggu keppnisumhverfi, þar sem velferð hrossanna sé höfð í fyrirrúmi. Áhersla er lögð á að framkvæmdin fari fram í samræmi við reglur FEIF, alþjóðasamtaka um íslenska hestinn, og bannlista sænska hestasambandsins.

Í yfirlýsingunni kemur fram að lyf séu stundum notuð til að fela að hestur sé ekki í keppnishæfu ástandi. Slík notkun sé bæði brot á lögum um velferð dýra og í andstöðu við meginreglur hestaíþrótta um sanngjarna samkeppni. Þar segir jafnframt að allir knapar og umráðamenn hrossa beri ábyrgð á að þekkja og fylgja gildandi lyfjareglum, og að jafnvel óviljandi brot geti leitt til agaviðurlaga.

Í reglum FEIF segir skýrt að „lyfjanotkun sé í grundvallaratriðum andstæð andanum sem íþróttin byggir á“, þar sem gildi eins og heiðarleiki, heilbrigði og virðing fyrir reglum séu í hávegum höfð. Heimild til að framkvæma lyfjaeftirlit á keppnum íslenska hestsins er í höndum FEIF eða viðurkenndra ytri stofnana. Vilji landsfélög fá lyfjaeftirlit framkvæmt á eigin mótum þurfa þau að sækja formlega um það til FEIF með a.m.k. 90 daga fyrirvara.

Að auki ber að tilkynna FEIF innan viku ef lyfjaeftirlit er framkvæmt af utanaðkomandi aðila eða ef upp koma brot sem leiða til refsinga. Vanræksla á slíkri tilkynningu getur leitt til fjársektar upp á 1.000 evrur.

Meðal efna sem skráð eru sem bönnuð samkvæmt nýjustu uppfærslum á lista FEI eru sterk verkjalyf og ópíóíðar eins og levomethadone og methadone, sem geta dulið sársauka og þannig falið alvarleg meiðsli. Einnig má nefna efni úr nitazene-flokki, svo sem protonitazene og metonitazene, sem eru afar öflug og hættuleg lyf, flokkað sem algjörlega bönnuð í keppni. Þá eru fjöldi vefaukandi efna (anabólískra stera) einnig á bannlista FEI, til dæmis 1-androsterone og 19-norandrosterone, sem geta haft áhrif á líkamlega getu hestsins og veitt ósanngjarnt forskot.

Með þessum aðgerðum vilja sænsku samtökin sýna fordæmi og undirstrika mikilvægi þess að tryggja jafnræði í keppni – en um leið verja hagsmuni hestsins sjálfs. Hestamenn eru hvattir til að kynna sér reglur FEIF og bannlista með góðum fyrirvara fyrir keppni

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar