Sýning Hæfileikamótunar og U21 Landsliðsins
Helgina 30. nóv – 1. des verður menntahelgi landsliðanna og hæfileikamótunar. Laugardagurinn verður helgaður kennslusýningum A landsliðsins en á sunnudeginum munu gestir fá innsýn inn í það öfluga afreksstarf sem unnið er innan LH.
Sýningin hefst kl 13 en þá mun hluti þátttakenda úr Hæfileikamótun koma fram með hestana sína og gefa áhorfendum tækifæri til að sjá hvernig vinnuhelgar Hæfileikamótunar fara fram. Þar verður meðal annars fjallað um vinnu við hendi og sætisæfingar sem og hvernig blanda má fimiæfingum inn í þjálfun gangtegunda til að bæta jafnvægið. Þá fá gestir einnig að kynnast því hvernig grunnurinn er lagður að skeiðinu, skeiðuppbyggingu og gangtegundaþjálfun. Í Hæfileikamótun er lögð er áhersla á að höfða til metnaðarfullra afreksknapa á aldrinum 14- 17 ára sem m.a. stefna á að keppa fyrir Íslands hönd í framtíðinni. Sigvaldi Lárus Guðmundsson mun stýra dagskránni en hann er yfirþjálfari Hæfileikamótunar.
Þar á eftir er komið að U21 hópnum til að láta ljós sitt skína. Hópurinn telur 14 knapa sem stefna öll á að komast á HM í Sviss. Árangur U21 liðsins í á HM í Hollandi 2023 var einkar glæsilegur, en liðið náði þá í 7 heimsmeistara titla og ein silfurverðlaun og komust allir keppendur á pall sem var hreint út sagt frábær árangur.