Sýnir Eiðfaxa safnið sitt gestum og gangandi
Margir af lesendum Eiðfaxa kannast við það að vera smitaðir af hinni svokölluðu “hestabakteríu”. Um er að ræða yndislega bakteríu sem leggst bæði á unga sem aldna og fylgir fólki oftast í gegnum lífið. Dagmar Daníelsdóttir hefur ekki langt að sækja það að vera dolfallin hestastelpa.
Dagmar er í 3.bekk í Grunnskólanum á Hellu. Hún er í Hestamannafélaginu Geysi, æfir hesta-fimleika, fer á reiðnámskeið og allir hennar dagar snúast um að hugsa um hestana sína og æfa sig á hestbaki. Hún safnar Eiðfaxa blöðum, fer aldrei í skólann nema með að minnsta kosti eina Eiðfaxabók með sér í skólatöskunni og gluggar í Stóðhestabók Eiðfaxa á hverjum degi.
Henni gafst frábært tækifæri til þess að sýna öðrum Eiðfaxa safnið sitt í Bókasafninu á Hellu. En þar er verkefni í gangi sem kallast safnari vikunnar og gengur þannig fyrir sig að safnarinn setur upp sýningu í glerskáp bókasafnins, sem er svo til sýnis þar í vikutíma.
Skemmtilegt framtak hjá Bókasafninu á Hellu og er safnið hennar Dagmarar stórglæsilegt!