Sýnt á fjórum stöðum í vikunni

  • 11. júní 2024
  • Fréttir

Ottesen frá Ljósafossi, knapi Jakob S. Sigurðsson Mynd: Nicki Pfau

Í gær hófust fjórar kynbótasýningar, á Rangárbökkum, Hólum, Spretti og Brávöllum.

Vegna veðurs þurfti að fresta sýningunni á Hólum í síðustu viku og var þeim komið fyrir á sýningunni í þessari viku. Sýningin er þó með aðeins öðru sniði en við erum vön hér á landi en í gær var einungis byggingardæmt og verða hrossin sýnd í hæfileikadómi í dag. Aðrir dagar verða með hefðbundnu sniði.

127 hross voru skráð á kynbótasýninguna í Spretti en dómarar þar eru Þorvaldur Kristjánsson, Óðinn Örn Jóhannsson og Svanhildur Hall. Hæst dæmda hrossið í gær var Ottesen frá Ljósafossi, sjö vetra, undan Auði frá Lundum II og Sunnu-Rós frá Úlfljótsvatni. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,59 og 8,69 fyrir hæfileika sem gerir 8,66 í aðaleinkunn. Það var Jakob Svavar Sigurðsson sem sýndi hryssuna.

120 hross eru skráð á Selfossi og dómarar þar eru Eyþór Einarsson, Elisabeth Trost og Jón Vilmundarson.  Þar sýndi Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir efstu tvær hryssurnar þær Olíu frá Lækjamóti II og Seníu frá Breiðsstöðum en báðar hlutu 8,36 í aðaleinkunn. Olía hlaut 8,38 fyrir sköpulag og 8,35 fyrir hæfileika og Senía 8,30 fyrir sköpulag og 8,38 fyrir hæfileika.

Hervir frá Torfunesi var hæst dæmda hross gærdagsins á Hellu en þar eru 120 hross skráð. Dómarar eru Víkingur Þór Gunnarsson, Friðrik Már Sigurðsson og Silke Feuchthofen. Hervir hlaut fyrir sköpulag 8,63 og fyrir hæfileika 8,70 sem gerir 8,68 í aðaleinkunn. Það var Árni Björn Pálsson sem sýndi Hervi.

Til gamans má geta að í gær voru sýndar þrjár hryssur, allar undan sömu hryssunni, Grund frá Grund II, og hlutu þær allar fyrstu verðlaun. Þetta eru þær Perla frá Grund II en hún hlaut 8,54 fyrir sköpulag og 8,28 fyrir hæfileika sem gerir 8,37 í aðaleinkunn, Gyðja frá Grund II en hún hlaut 8,85 fyrir sköpulag og 7,85 fyrir hæfileika sem gerir 8,20 í aðaleinkunn, og Gullbrá frá Grund II en hún hlaut 8,60 fyrir sköpulag og 8,25 fyrir hæfileika sem gerir 8,37 í aðaleinkunn. Ræktandi og eigandi er Örn Stefánsson.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar