Takk, takk og aftur takk

Myndir: Henk Peterse
Hin árlega Stóðhestaveisla Eiðfaxa fór fram um helgina í HorseDay höllinni á Ingólfshvoli og þökkum við staðarhöldurum fyrir gott samstarf. Eins og fyrri ár þá var uppselt á viðburðinn. Í ár var aðalstyrktaraðili viðburðarins Coca Cola og þökkum við þeim stuðninginn.
Fjöldinn allur af frábærum hrossum komu þar fram. Við þökkum ræktendum, eigendum og knöpum þessara hrossa fyrir velvildina en án þeirra hefði sýningin aldrei orðið að veruleika.
Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem mikið lögðu á sig við undirbúning sýningarinnar og einnig þeim sem lögðu fram mikla og óeigingjarna vinnu á sýningarstað. Áhorfendum sem troðfylltu HorseDay höllina og sköpuðu stemmings andrúmsloft og gleði, þökkum við fyrir komuna. Ekki má svo gleyma þúsundum áhorfenda víðsvegar í heiminum sem fylgdust með veislunni í beinu streymi á EiðfaxaTV.
Sú hefð hefur skapast að ágóði af söfnun Stóðhestaveislunnar hefur verið látinn renna óskipt til góðgerðarmála og hægt væri hér að birta langan lista yfir góðgerðarsamtök sem notið hafa velvilja þeirra sem sótt hafa Stóðhestaveisluna á undanförnum árum. Stóðhestaveislan í ár var engin undantekning. Að þessu sinni var hún tileinkuð minningarsjóði Bryndísar Klöru en sjóðurinn var stofnaður til að heiðra og varðveita minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést í kjölfar hnífaárásar á menningarnótt í Reykjavík í ágúst 2024. Stuðningur hestafólks og fyrirtækja sem tengjast hestaheiminum sem og annarra var að þessu sinni hreint ótrúlegur. Þessi mikli stuðningur sýnir enn og aftur hvað við sem þjóð stöndum saman og erum tilbúin til að leggja af mörkum þegar sárir og hörmulegir atburðir verða. Ekki liggur enn fyrir hve mikið safnaðist en ljóst er að það skiptir milljónum króna. Söfnunin lýkur þann 1. maí en enn er hægt að kaupa happdrættismiða og gefa bein fjárframlög með því að hafa samband við eiðfaxistyrkir@gmail.com.
Okkur á Eiðfaxa er þakklæti efst í huga eftir helgina. Þakklæti til þeirra sem gáfu vinninga og folatolla í happdrættið, gáfu folatoll í uppboðið, þeirra sem keyptu folatollinn og happdrættismiðana og ekki síst til þeirra sem lögðu fram frjálsu framlögin á meðan á veislunni stóð.
Við viljum einnig þakka þulum kvöldsins þeim Ágústi Sigurðssyni og Hjörvari Ágústssyni, Óla Pétri sem var að vana í hurðinni, Björgvini í Prentmet fyrir sitt framlag og Rangárþingi ytra fyrir lánið á viðbótar stólunum. Allir þessir aðilar sem og aðrir sem að Stóðhestaveislunni komu gáfu vinnu sína í þeim tilgangi að standa við bakið á söfnuninni.
Takk fyrir okkur!
Enn er hægt að horfa á Stóðhestaveisluna á EiðfaxaTV og er enn hægt að kaupa happdrættismiða fyrir söfnunina

Uppboð var á folatolli undir Baldvin frá Margrétarhofi sem fór á 650.000 kr. Gefandi Margrétarhof