„Það er kominn þessi gamli fiðringur í okkur“

  • 13. desember 2021
  • Fréttir

Hjörvar og Hanna Rún. Ljósmynd: Liga Liepina

Hrossabændur teknir tali - Kirkjubær

Nú þegar líða fer að jólum ætlar Eiðfaxi að stytta okkur stundirnar og taka nokkra ræktendur landsins á tali sem eru í óðaönn að undirbúa komandi tímabil.

Næsta hrossaræktarbú sem við kynnum til leiks er Kirkjubær en þar hefur verið stunduð hrossarækt í meira en 60 ár og hefur rauðblesótti liturinn einkennt hrossin þaðan.

Í Kirkjubæ hefur verið stunduð skipulögð hrossarækt síðan 1960. Hjörvar Ágústsson og Hanna Rún Ingibergsdóttir sjá um reksturinn í dag en Hjörvar er þriðja kynslóð í sinni fjölskyldu til að sjá um reksturinn. “Foreldrar mínir, Ágúst Sigurðsson og Unnur Óskarsdóttir, eru einnig með okkur í þessu þó daglegan rekstur sjáum við um. Jörðin er 1.500 ha. og erum við að jafnaði með 27 hross inni, bæði frá okkur og öðrum. Útigangur er í kringum 70-80 hross,” segir Hjörvar en þau eru að meðaltali að fá um 10 folöld á ári.

“Ræktunarhryssurnar okkar í dag eru Dögg , Lilja, Voröld, Eva, Silfrún, Fossá, Skerpla, Ísrún allar frá Kirkjubæ. Síðan fáum við annað hvert folald undan hryssunni Björk frá Narfastöðum sem við erum að halda með vinum okkar Berg og Rósu á Narfastöðum. Einnig höfum við verið heppin síðustu ár að vera í gríðarlega góðu samstarfi við þá bræður í Brautarholti og höfum fengið að halda hryssum frá þeim inn á milli. t.d fáum við undan hryssunni Örðu f. Brautarholti næsta sumar og eigum folald undan mikilli uppáhalds hryssu, Ösku f. Brautarholti og Dropa okkar,” segir þau Hjörvar og Hanna Rún en þeim finnst mikilvægt að halda fjölbreytni í stofninum. “Markmiðið í dag er hins vegar gæði fram yfir magn og ná þá frekar að sinna hverjum og einum einstakling betur og finna helst öllum hrossum hlutverk,” bæta þau við.

Þau Hanna Rún og Hjörvar hafa verið dugleg að fá til sín stóðhesta í hólf á sumrin en í sumar voru þau með þá Ljúf frá Torfunesi og Hnokka frá Eylandi. “Við notuðum þá sjálf en einnig héldum við undir Fenri frá Feti, Þór frá Stóra-Hofi og Brynjar frá Bakkakoti,” segir Hjörvar og bætir við “Í sumar fengum við þrjú undan Dropa, eitt undan Lexus frá Vatnsleysu og eitt undan Draupni frá Stuðlum og tvö undan Skaganum frá Skipaskaga, bæði ansi fallega blesótt sem var mikill plús.” En Rauðblesótt hefur verið einkennislitur Kirkjubæjar hrossanna í langan tíma.

“Við erum svo heppinn að fá að þjálfa hesta alla daga ársins og oftast nær ekkert nema skemmtileg verkefni hvort sem framtíðin liggur á kynbóta- og keppnisbrautinni eða einhverstaðar allt annarstaðar. Það sem er frá okkur og verður í þjálfun í vetur er t.d mjög spennandi hryssa sem er að fara á fimmta vetur undan Dropa og Þyrnirós f. Kirkjubæ (móðir Sjóðs) viljug og hreyfinga mikil hryssa,” segir Hjörvar inntur eftir því hvað sé mest spennandi á húsi. Hjörvar og Hanna Rún hafa eins og flestir verið brasa í frumtamningum en haustin eru tími frumtamninga á flestum hrossaræktarbúum landsins. “Í þessum töluðu orðum erum við að skila af okkur síðustu tryppunum en við frumtemjum mikið á haustin og finnst það mjög gaman og spennandi. Þannig kynnist maður líka heilmikið af tryppum undan sama hestinum sem gefur manni hugmyndir um hvað manni langar að nota í framtíðinni. Fullt af skemmtilegum tryppum frá öðrum sem var gaman að vinna með og eitthvað af þeim heldur áfram,” segir Hjörvar en árgangurinn frá Kirkjubæ var hins vegar sögulega lítill og telur einungis fimm hross. Tvö undan Villingi frá Breiðholti, ein undan Kiljan Steinnesi, Dropadóttir og geldingur undan Hirti og Voröld bæði frá Kirkjubæ.

Eins og flestir hestamenn setja þau Hjörvar og Hanna Rún stefnuna á Landsmót á Hellu og segir Hjörvar að gamli fiðringur sé farinn að láta á sér kræla. “Stefnan er að sjálfsögðu sett á Landsmót á Hellu enda á okkar heimavelli. Það er kominn þessi gamli fiðringur í okkur fyrir þessu móti enda fjögur ár síðan síðast. Okkur hlakkar mikið til að sjá, hitta og gleðjast með öllu þessu íslandshestasamfélagi,” segir Hjörvar og bætir við að mest gaman væri að sjálfsögðu ef þau næðu að gera það líka á hesti enda sé það alltaf stefnan.

Ísrún og Dropi frá Kirkjubæ hafa vakið athygli á keppnisbrautinni undanfarin ár, Ísrún í tölti og Dropi í fimmgangsgreinum. Bæði hrossin eru í miklu uppáhaldi hjá Hönnu Rún en Ísrún kastaði sínu fyrsta folaldi í sumar undan Dropa. “Eftirminnilegasta mómentið fyrir okkur í ár er klárlega þegar Garri frá Kirkjubæ kom í heiminn. Hann er fyrsta afkvæmi Ísrúnar f. Kirkjubæ. Hanna Rún hélt Ísrúnu undir Dropa í fyrra og sameinaði þar tvö sín uppáhalds hross. Mikil spenna var eftir biðinni að hún myndi kasta og ansi margar eftirlitsferðir farnar. Síðan allt í einu einn morguninn var hann mættur rauðblesóttur skjóttur, fangreistur og allur skakkur og skældur. En köstunin hafði verið þó nokkuð erfið, þau mæðgin jöfnuðu sig þó af þessu og eru hin sprækustu,” segir Hjörvar en nafnið Garri er heiti yfir vind og var það þemað í nöfnum á folöldum hjá þeim þetta árið. “Það eru til 107 nöfn yfir vind. Folöldin heita því þetta árið : Garri, Súgur, Blær, Svipur, Kilja, Hviða, Snerra, Stilla.,” bætir hann við.

Inntur eftir fleiru eftirminnilegu á árinu segir Hjörvar Íslandsmótið á Hólum vera eitt af því sem og hestaferð sem þau fóru í Landeyjunum í sumar þegar helmingurinn af ferðafélögunum fékk covid. “Sem betur fer var fullt af eftirminnilegum og skemmtilegum mómentum á árinu. Sem dæmi skemmtum við okkur konunglega á Íslandsmótinu á Hólum í sumar. Einnig var mjög eftirminnilegt hjá okkur þegar við vorum vel á veg komin í hestaferð í Landeyjunum ásamt vinum með um það bil 70 hross sem endaði ansi snarlega þegar helmingurinn af ferðinni fékk covid og hinn helmingurinn kominn í sóttkví. Þá voru góð ráð dýr að koma hestunum 70 heim til sín en þá eins og oft áður fann maður hvað maður á góða að sem gátu farið með nokkrar kerrur og farið ,,nokkrar” ferðir með hrossin heim,” segir Hjörvar að lokum og eins og að vana endum við þetta á nokkrum jólatengdum spurningum;

Uppáhalds jólasveinn:
Hanna Rún: Skyrgámur
Hjörvar: Stúfur

Uppáhalds jólahefð:
Hanna Rún: Vakna á jóladagsmorgun
Hjörvar: Við pabbi höfum oft farið saman í reiðtúr á aðfangadag og gamlársdag á því besta sem við höfum uppá að bjóða hverju sinni.

Matur á aðfangadag:
Hamborgarahryggur með öllu tilheyrandi

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar